Framkvæmd uppsagna

Eins og fyrr segir sömdu ASÍ og SA þann 17. febrúar 2008 um breytt fyrirkomulag uppsagna á almennum vinnumarkaði. Samið var um þrjár meginreglur og þær nánar útfærðar með leiðbeiningum. Meginreglurnar eru:    
  • Uppsagnir skulu vera skriflegar 
  • Uppsagnarbréf skal vera á sama tungumáli og ráðningarsamningur starfsmanns 
  • Starfsmaður á rétt á viðtali um starfslok sín og ástæður uppsagnar. 

Þrátt fyrir mikinn fjölda uppsagna í kjölfar þeirrar kreppu sem á skall haustið 2008, hefur lítið reynt á samkomulag þetta fyrir dómi. Um það var fjallað í Félagsdómi 6/2013 frá 10.7 2013. K sem gert hafði kröfu um að eftir samkomulaginu yrði farið við framkvæmd uppsagnar hafði verið gefin sú ástæða af atvinnurekandanum J fyrir uppsögn að hafa ekki átt "samleið með fyrirtækinu". Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu þessar ástæður væru það "óljósar og almenns eðlis að ekki [væri] fullnægt kröfum 7.gr. samningsins". K krafði J annars vegar um skaðabætur og hins vegar um miskabætur. Skaðabótakröfu var hafnað þar sem þeirra hafði ekki verið krafist undir þeim kröfulið sem laut að framkvæmd uppsagnar. Miskabótakröfu var hafnað þar sem K hafði ekki tekist að sýna fram á að miskabótaskilyrðum b. liðar 1.mgr. 26.gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 væri fullnægt en skv. fyrrgreindum samningi ASÍ og SA geta brot gegn reglum hans varðað bótum skv. almennum reglum. 

Í kjarasamningum aðildarsamtaka ASÍ og Sambands íslenskra sveitarfélaga eru mun ítarlegri ákvæði um uppsagnir. Að auki er þar áskilið að uppsögn skuli byggð á málefnalegum ástæðum og áskilið að starfsmanni skuli veitt áminning áður en til uppsagnar er gripið ef ástæðu uppsagnar er að rekja til starfsmannsins sjálfs. Í 9. kafla laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er fjallað um starfslok starfsmanna ríkisins og gilda þau ákvæði um alla starfsmenn ríkisins. Þar er að finna samskonar reglur og eru í kjarasamningum við sveitarfélögin.  Stjórnsýslulög nr. 37/1993 gilda þessu til viðbótar í stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga þegar teknar eru ákvarðanir um réttindi og skyldur manna, þ.m.t. uppsagnir sbr. 1. gr. laganna. Brot á þessum reglum geta varðar skaðabótum. 

Var efnið hjálplegt?