Skaðabætur

Sé brotthvarf starfsmanns metið ólögmætt eða brottrekstur atvinnurekanda lögmætur getur atvinnurekandi átt kröfu á greiðslu skaðabóta. Bótagrundvöllur miðast við það tjón sem atvinnurekandi verður fyrir. Oft er erfitt að sanna tjón þegar um riftun á ráðningarsamningi er að ræða. Gjarnan hefur þá verið litið til reglu 25. gr. hjúalaganna, svo sem að framan greinir, og beitt lögjöfnun en hún á við um brotthlaup hjús úr vist. Greinin hljóðar þannig: "Ef hjú, án þess að sjúkleiki eða önnur lögleg forföll tálmi, eða fyrir hendi séu ástæður, er heimili því að rifta vistarráðunum, kemur ekki í vistina á ákveðnum tíma, svo að því er synjað viðtöku eða kemur alls ekki, skal það greiða húsbónda bætur, sem svarar til helmings áskilins kaups fyrir umsaminn vistartíma. Ef hjú gengur ólöglega úr vistinni, greiði það sömu bætur, miðað við vistartímann sem eftir er." Sjá hér Hrd. 1958:625Hrd. 1978:120Hrd. 1978:1247.

Jafnvel hafa dómstólar gengið svo langt í að nota þessa reglu að hún hefur verið talin eiga við um mat á skaðabótum þegar ráðningarsamningur hefur verið gerður en starf ekki hafist. Sjá hér dóm Héraðsdóms Reykjaness 26. janúar 1993.

Valdi starfsmaður atvinnurekanda tjóni, geta aðilar gert um það samkomulag að starfsmaður muni endurgreiða tjónið, og jafnframt að atvinnurekanda sé heimilt að draga það frá launum. Orðalag laganna um greiðslu verkkaups nr. 28/1930 gerir ráð fyrir því að heimilt sé að semja um slíkt. Sem dæmi um þetta má nefna að starfsmaður hafi gerst sekur um fjárdrátt en greiði til baka það sem hann hefur dregið sér. Sjá Hrd. 1988:518.

 

Var efnið hjálplegt?