Réttur til að halda eftir launum

Almennt getur atvinnurekandi ekki haldið eftir launum starfsmanns án hans samþykkis nema því sem kveðið er á um í lögum og kjarasamningum, það er sköttum, greiðslu til lífeyrissjóðs og stéttarfélags og meðlagi. Þetta er oft kallaður hýrudráttur. 

Í lögum um greiðslu verkkaups nr. 28/1930 segir að verkkaup skuli greitt með gjaldgengum peningum og óheimilt sé að greiða kaup með skuldajöfnuði, nema svo hafi áður verið sérstaklega um samið. Hæstiréttur hefur skýrt lögin þannig að þau girði samkvæmt forsögu sinni ekki fyrir það að krafa um skuldajöfnuð komist að þegar um bætur vegna fyrirvaralauss brotthlaups sé að ræða, samanber Hrd. 1978:1247. Þetta er því undantekningarregla sem túlka ber þröngt og sem birtist í dómum þar sem viðurkenndur er réttur atvinnurekanda til að halda eftir launum þegar svo stendur á vegna tjóns sem brotthvarfið veldur. 

Í Hrd. 1978:1247 segir dómari í undirrétti að telja verði meginreglu íslensks réttar að launþegi skuli bæta tjón sem hann veldur vinnuveitanda með ólögmætu brotthlaupi. 25. gr. hjúalaga nr. 22/1928 geri ráð fyrir meðalhófsbótum, sé fjárhæð tjóns ekki sönnuð, og er þar miðað við helming af kaupi fyrir tímann sem eftir var. Telja verði regluna sanngjarna. Í Hæstarétti sagði ennfremur að lög um greiðslu verkkaups kæmu ekki í veg fyrir skuldajöfnuð þegar svo stæði á sem í máli þessu.

Í dómi Hæstaréttar 1978:120 reyndi á svipuð sjónarmið. Í undirréttardómi var þar beitt lögjöfnun frá 25. gr. hjúalaga nr. 22/1928 í máli manns sem hafði hlaupist á brott úr starfi og taldi rétturinn greinina enn í fullu gildi en starfsmaður hafði vefengt fullyrðingar atvinnurekanda þar um. Var í dóminum ennfremur vísað til Hrd. 1958:625. Staðfesti Hæstiréttur þetta sjónarmið.

Atvinnurekandi getur með sama hætti átt rétt til skaðabóta þótt hann hafi greitt starfsmanninum öll laun, svo sem dæmt var íHrd. 1958:625Hrd. 1978:120Hrd. 1978:1247 og Hrd. 1970:326. Í því máli tóku skaðabætur ekki mið af meðalhófsreglu hjúalaga.

Skaðabætur vegna fyrirvaralauss brotthlaups úr starfi hafa í dómum Hæstaréttar gjarnan tekið mið af ákvæðum 25. gr.hjúalaga nr. 22/1928 þótt lögin séu talin að mestu úrelt.

Í skaðabótalögum nr. 50/1993 eru ákvæði um bótaábyrgð starfsmanna. Í 23. gr. laganna er kveðið á um lækkunarreglur sem skuli miða við þegar bótaskylda starfsmanna er metin. Þar segir í 1. mgr. að bætur sem vinnuveitandi hefur greitt vegna saknæmrar hegðunar starfsmanns sé aðeins unnt að krefja starfsmanninn um að því marki sem telja megi sanngjarnt þegar litið sé til sakar og stöðu starfsmannsins og atvika að öðru leyti. Í 3. mgr. segir síðan að þessi lækkunarregla eigi einnig við vegna tjóns sem starfsmaðurinn veldur vinnuveitanda í starfi sínu.

Í athugasemdum með frumvarpinu segir að orðalag þessa ákvæðis sé almennt og taki meðal annars til ábyrgðar sem stofnast ef starfsmaður vanefnir vinnusamning, til dæmis með því að hverfa á brott án þess að gæta ákvæða um uppsagnarfrest. Hér er um að ræða vægari bótareglu en gilt hefur um ábyrgð starfsmanna eftir almennum bótareglum. Sjá ennfremur Héraðsdóm Reykjavíkur 30. september 1993. Þar voru bætur dæmdar með vísan til hjúalaga og skuldajöfnuður heimilaður.

Var efnið hjálplegt?