Brot á hlýðniskyldu 

Neiti starfsmaður að vinna tiltekið verk sem honum er falið, og sé verkið í samræmi við ákvæði kjarasamninga og lög, getur atvinnurekandi vikið starfsmanni úr starfi.

Í Hrd. 1977:1328 var deilt um hreingerningu á gangi í flugstöðvarbyggingu sem starfsmenn töldu ekki tilheyra ræstingu og daglegum störfum sínum. Mennirnir neituðu að vinna verkið og tjáði atvinnurekandi þeim þá að hann hefði ekkert við þá að gera. Þegar vaktinni lauk kallaði hann mennina til sín að nýju og spurði hvort þeir væru sama sinnis og kváðust þeir svo vera. Hann sagði þeim þá að þeir þyrftu ekki að mæta aftur til vinnu. Héraðsdómur taldi að aðvörun atvinnurekandans hefði verið nægjanleg eins og á stóð og var hann sýknaður af kröfum um skaðabætur vegna ólögmætrar brottvikningar. Í Hæstarétti var tekið fram að endurtekin, óréttmæt synjun starfsmanns á að vinna verk, sem atvinnurekandi mælti fyrir um að hann skyldi leysa af hendi, veitti atvinnurekanda lögmæta ástæðu til að vísa honum úr starfi.

Var efnið hjálplegt?