Kjarasamningar

Í almennum kjarasamningum er almennt ekki að kveðið á um heimildir til riftunar ( fyrirvaralausra starfsloka ) vegna alvarlegra brota atvinnurekanda eða starfsmanns. Verður að taka á slíkum málum sérstaklega þegar þau koma upp. Í kjarasamningum er þó að finna ákvæði um að brot á öryggisreglum á vinnustað geti leitt til brottvikningar.
 
Í samningi Alcan á Íslandi og verkalýðsfélaganna (1. desember 2008 til 31. janúar 2011) sagði t.d. í grein 7.5 að uppsagnarákvæði gildi ekki ef starfsmaður sýnir vítaverða vanrækslu í starfi sínu, eða Alcan gerist brotlegt gagnvart starfsmanni. Til vítaverðrar vanrækslu telst í þessu sambandi meðal annars ef starfsmaður mætir ítrekað of seint til vinnu sinnar, ítrekaðar eða langvarandi fjarvistir frá vinnu án leyfis eða gildra ástæðna, svo og ef starfsmaður óhlýðnast réttmætum fyrirmælum verkstjóra/flokksstjóra. Alcan getur vísað starfsmanni fyrirvaralaust úr starfi, eftir að hafa aðvarað hann skriflega tvisvar sinnum, geri hann sig sekan um brot á viðurkenndum öryggisreglum á verksmiðjusvæðinu, samanber reglur Alcan um öryggismál. Áður en starfsmanni er sagt upp vegna brots á kjarasamningi skal trúnaðarmanni gefinn kostur á að kynna sér alla málavöxtu. Brot á öryggisreglum, sem stofnar lífi og limum starfsmanna, svo og tækjum fyrirtækisins, í voða, skal þó varða brottvikningu án undangenginna aðvarana ef trúnaðarmaður og forstjóri eru sammála um það. 

Var efnið hjálplegt?