Sönnun fyrir tímabundinni ráðningu

Verði um það ágreiningur hvort starfslok hafi orðið verður að líta svo á að þeim sem vill halda fram tímabundinni ráðningu beri að sanna að um hana hafi verið samið og með hvaða hætti um hafi samist, þar sem tímabundin ráðning er undantekning frá meginreglunni um ráðningar og uppsagnarfresti.  Þetta hefur ítrekað verið staðfest í Hæstarétti. Sjá um það efni t.d. eftirfarandi dóma: 

Í Hrd. nr. 149/2008 var málavextir með sambærilegum hætti og í dómi Hæstaréttar nr. 148/2008.

Í Hrd. nr. 148/2008 var deilt um hvort stýrimaðurinn S hefði verið ráðinn tímabundið eða ótímabundið sem stýrimaður á skipinu E í útgerð F en ekki hafði verið gerður skriflegur ráðningarsamningur.  Vísað var til dóms Hæstaréttar í öðru máli, nr. 183/2006, þar sem útgerðin taldi hafa sannað að ráðning skipverja hafi verið tímabundin en krafa skipverja í því máli var af sama grunni og af sama tilefni og krafa stýrimannsins S. Stýrimaðurinn S leiddi vitni fyrir dóminn og taldi sannað með framburði þeirra að ráðningin hefði verið ótímabundin.  Hæstiréttur taldi ljóst, með vætti þeirra sem komu fyrir dóminn, að menn voru ráðnir munnlega og var framkvæmd ráðningarsambands með þeim hætti að stýrimaðurinn þáði ekki föst laun frá útgerðinni á milli úthalda í samræmi við gildandi kjarasamning heldur miðuðust störf hans við laun á tilteknum veiðitímabilum. Þá hafi stýrimaðurinn ekki gert athugasemd við þessa framkvæmd fyrr en hann lauk störfum. Þá hafi hann ennfremur fyrir utan þau veiðitímabil sem hann var á sjó fyrir útgerðina F verið lögskráður á annað skip. Því taldi dómurinn sannað að stýrimaðurinn S hefði verið ráðinn á skipið hverju sinni til tímabundinna starfa á tilteknu veiðitímabili. 

Í Hrd. nr. 200/2005 hafði E frá því í ágúst 1996 starfað sem smíðakennari við grunnskólann í Grindavík (G), en þá gerðu aðilar skriflegan ráðningarsamning. Á tímabilinu 1. september 1996 til 1. júní 2001, og meðan skólinn starfaði, var vinna E við umsjón tækja sem notuð voru til smíðakennslu launuð sérstaklega. Aðila greindi á um tilurð þessara viðbótarlauna og bar G það fyrir sig að samningar vegna þess arna hefðu verið tímabundnir vegna hvers skólaárs. Við úrlausn málsins var lagt til grundvallar að í tengslum við gerð ráðningarsamnings í ágúst 1996 hafði tekist ótímabundinn samningur með aðilum um greiðslu hinnar umdeildu þóknunar. G hafi borið að segja þeim samningi upp með lögformlegum hætti kysi hann að vera laus undan þeim skuldbindingum sem í honum fólust og var ekkert þeirra atriða sem varnir G lutu að virt á þann veg að réttur E samkvæmt samningnum væri niður fallinn. 
Í Hrd. nr. 483/1998 hóf P störf hjá B í apríl 1997, en hætti störfum fyrirvaralaust að boði B í október sama ár. Við starfslokin voru honum greidd laun í einn mánuð. P hélt því fram að hann hefði verið ráðinn tímabundið til starfa án gagnkvæms uppsagnarfrests og krafðist launa til 1. febrúar 1998. Í ráðningarsamningi var merkt „já” við fastráðningu og ráðningartími tilgreindur til 1. febrúar 1998. Talið var að þar sem B hefði ritað ráðningarsamninginn yrði hann að bera hallann af óskýrri framsetningu í samningnum og var fallist á að P hefði verið ráðinn til 1. febrúar 1998.

Hrd. nr. 203/1986Hrd. nr. 205/1984

Var efnið hjálplegt?