Ráðningarsamningar – form og efni

Ráðningarsamband er almennt persónubundið sem þýðir að aðilar geta ekki fengið aðra aðila til að efna skyldur sínar skv. samningnum. Launamaður getur ekki falið öðrum að vinna fyrir sig og atvinnurekandi getur ekki selt starfsfólk sitt til vinnu hjá öðrum atvinnurekanda. Sérreglur gilda um framsal ráðningarsamninga samkvæmt lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

Ráðningarsamningur verður að vera í samræmi við kjarasamning og ákvæði í ráðningarsamningi um lakari rétt launamanns eru ógild samkvæmt 1. gr. laga um starfskjör launafólks nr. 55/1980. Þar segir: „Laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skulu vera lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til. Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir.“

Skriflegir – munnlegir ráðningarsamningar

Samningar eru almennt ekki formbundnir samkvæmt íslenskum rétti. Þeir eru jafngildir hvort sem þeir eru munnlegir eða skriflegir.

Efni ráðningarsamninga

Í ráðningarsamningi eða skriflegri staðfestingu ráðningar, þ.e. ráðningarbréfi, skal a.m.k. eftirfarandi koma fram sbr. ákvæði kjarasamninga, sbr. og fyrrgreinda tilskipun 91/533/EBE:

Launaleynd

Stundum er að finna í ráðningarsamningum ákvæði um að starfsmönnum sé óheimilt að skýra frá launum sínum. Slík ákvæði urðu hins vegar óskuldbindandi eftir setningu nýrra jafnréttislaga nr. 10/2008.

Viðurlög ef ráðning er ekki staðfest skriflega

Þegar tilskipunin var innleidd hér á landi með kjarasamningum, var þess ekki gætt að innleiða um leið úrræði eða viðurlög vegna brota á henni eins og EES rétturinn og tilskipunin sjálf gera ráð fyrir. Í framhaldi af erindi ESA hér að lútandi var bætt inn í kjarasamninga sem undirritaðir voru á almennum vinnumarkaði í árslok 2013, nýju ákvæði svohljóðandi: 
 
Réttur til skaðabóta
„Brjóti atvinnurekandi gegn ákvæðum þessarar greinar getur það varðað hann skaðabótum.“
 
Hvort þetta sé nægilegt er umdeilt. Í ákvæðinu er ekki vísað til almennra reglna skaðabótaréttarins eins og oft er gert enda erfitt um vik að sanna beint fjárhagslegt tjón ef skrifleg staðfesting ráðningar á sér ekki stað. Slík regla myndi ekki stuðla að réttri framkvæmd tilskipunarinnar. Í stað þess að mæla fyrir um tilteknar bætur eða viðurlög eins og fordæmi eru fyrir í öðrum ríkjum á EES svæðinu, en samstaða tókst ekki um slíkt við samtök atvinnurekenda, var valin sú leið að haga orðalaginu með þeim hætti sem gert var. Það er álit samtaka launafólks að ákvæðið beri að túlka með þeim hætti að slaka skuli á þeim kröfum sem almennar reglur skaðabótaréttarins mæla fyrir um m.a. um beint fjárhagslegt tjón en ekki síður á reglum um sönnunarbyrði.

Dómar um sönnunarbyrði

Að sjálfsögðu verða öll sönnunaratriði mun auðveldari hafi verið gerður skriflegur samningur, jafnvel þótt í honum sé aðeins vitnað í almenna kjarasamninga. Atriði eins og upphaf starfa og það hvort verið sé að semja um einhver afbrigði frá kjarasamningi getur verið nauðsynlegt að sýna fram á síðar. Hæstiréttur hefur ítrekað fjallað um sönnunarbyrði um efni ráðningarsamninga.

Var efnið hjálplegt?