Hvenær verður ráðningarsamband til

Almennar reglur samningaréttarins gilda að mestu leyti um það hvenær ráðningarsamningur verður til. Þegar búið er að samþykkja tilboð um starf hefur samningurinn stofnast þótt vinnan sjálf hafi ekki hafist. Gangi annar hvor aðili frá ráðningarsamningi eftir að hann er kominn á og áður en vinna skal hefjast getur sá aðili orðið bótaskyldur vegna vanefnda sinna á grundvelli reglna samningaréttarins. Greini aðila á um það hvort ráðningarsamningur hafi stofnast gilda venjulegar reglur um sönnun. Sá aðili sem heldur fram fullyrðingu verður að sýna fram á að sú fullyrðing sé rétt, hann ber sönnunarbyrði fyrir henni. Takist honum ekki að sanna fullyrðinguna ber hann hallann af sönnunarskortinum.

Hin sérstöku réttaráhrif sem ráðningarsamningi fylgja hefjast þó ekki fyrr en starfsmaður hefur störf. Þannig byrjar starfsmaður ekki að ávinna sér veikindarétt, uppsagnarrétt eða orlofsrétt fyrr en hann hefur störf sín.

Var efnið hjálplegt?