Skyldur atvinnurekanda

Skylda atvinnurekanda skv. kjarasamningum og lögum hvað hlutastörf varðar er fyrst og fremst sú að mismuna ekki á grundvelli starfshlutfalls sbr. 1.mgr. 4.gr. laga nr. 10/2004. Í 2.mgr. sömu greinar og í kjarasamningnum eru í nokkrum liðum taldar upp aðrar þær skyldur sem atvinnurekendur skulu leitast við að uppfylla til að greiða fyrir sveigjanleika í vinnutíma fyrir starfsmenn. Þær eru:

  1. Að taka tillit til óska starfsmanns um að flytjast úr fullu starfi í hlutastarf eða úr hlutastarfi í fullt starf.
  2. Taka tillit til óska starfsmanns um að auka eða minnka starfshlutfall sitt, skapist svigrúm til þess.
  3. Auðvelda aðgang að hlutastörfum á öllum stigum fyrirtækisins, þar á meðal að sérhæfðum störfum og stjórnunarstörfum.
  4. Veita tímanlega upplýsingar um störf sem losna á vinnustaðnum, þar með talið hlutastörf, til að auðvelda flutning úr hlutastarfi í fullt starf og öfugt
  5. Greiða fyrir aðgangi hlutavinnufólks að starfsmenntun og starfsþjálfun, m.a. í því skyni þeir geti aukið hæfni sína og til að stuðla að starfsframa og hreyfanleika í starfi.
  6. Veita trúnaðarmönnum starfsmanna upplýsingar um hlutastörf á vinnustað.

Jafnan er það hluti stjórnunarréttar atvinnurekanda og byggir á mati hans að ákveða hvort og hve mörg hlutastörf séu í boði fyrir núverandi eða væntanlega starfsmenn sbr. m.a. Féld. 9/2018. Hins vegar kunna skyldur atvinnurekanda að vera ríkari í sérstökum tilvikum þegar fleiri þættir en bara starfshlutfallið koma til skoðunar við mat á því hvort starfsmaður geti t.d. átt rétt til hlutastarfs. Það á t.d. við hvað varðar bann við mismunun skv. lögum nr. 86/2018 og skyldur skv. jafnréttislögum nr. 10/2008. Á samspil jafnréttislaga, kjarasamninga og laga nr. 10/2004 um starfsmenn í hlutastörfum reyndi að hluta í úrskurði Kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 1/2018. Þar voru málavextir þeir að þegar kona hugðist snúa til baka til starfa eftir fæðingarorlof gat hún ekki komið í fullt starf þar sem ekki var daggæslu að hafa. Hún hafði því a.m.k. tímabundna þörf fyrir hlutastarf. Henni var neitað um það og taldi atvinurekandi ráðningu slitið þar sem konan kom ekki til starfa á umsömdum tíma eftir fæðingarorlof. Í niðurstöðu kærunefndarinnar, 87.mgr., segir: "Eins og áður segir kveður 21. gr. laga nr. 10/2008 á um að atvinnurekendur skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu. Slíkar ráðstafanir skuli m.a. miða að því að auka sveigjanleika í skipulagningu á vinnu og vinnutíma þannig að bæði sé tekið tillit til fjölskylduaðstæðna starfsmanna og þarfa atvinnulífs, þar með talið að starfsmönnum sé auðveldað að koma aftur til starfa eftir fæðingarorlof. Í starfsmannastefnu kærða, er lögð hefur verið fyrir nefndina, kemur fram það markmið kærða að veita starfsfólki stuðning til að samræma kröfur fyrirtækisins við ábyrg fjölskylduhlutverk hvers og eins. Verður, við þær kringumstæður, sem uppi voru í málinu, að leggja mat á rétt kærða sem atvinnurekanda til að stjórna framkvæmd vinnunnar með hliðsjón af framangreindum lagafyrirmælum og ákvæðum í starfsmannastefnu." Í 91.mgr. segir síðan: "Með vísan til þess sem að framan er rakið og að teknu tilliti til 21. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla verður að telja það hafa staðið kærða sem atvinnurekanda nær en kæranda að koma með tillögu um það með hvaða móti unnt væri að koma til móts við hana með tímabundnum aðgerðum, svo sem hlutastarfi, tilfærslu á vinnutíma, vinnu utan starfsstöðvar, eða ámóta ráðstöfunum, til að kæranda væri unnt að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu. Hér ber að hafa í huga að atvinnurekandi sambúðarmaka mun hafa lýst yfir vilja til að veita honum tiltekinn sveigjanleika í vinnutilhögun og hefðu því báðir atvinnurekendur lagt nokkuð af mörkum hefði kærði brugðist við. Kærði verður að bera hallann af því að hafa ekki leitast við að bregðast við með þeim hætti sem hér var lýst og braut með því gegn 21. gr. laga nr. 10/2008. Í úrskurði sínum vísar kærunefndin hvorki til laga um hlutastörf eða laga um bann við mismunun þó á þeim hafi verið byggt af aðila enda túlkun þeirra laga utan valdssviðs nefndarinnar. Taka verður fram að kærði ákvað að una úrskurði kærunefndarinnar þ.a. niðurstaða dómstóla um framangreinda túlkun og óhjákvæmileg áhrif hennar á túlkun laga nr. 10/2004 þegar í hlut á fólk sem snýr til baka úr fæðingarorlofi liggur ekki fyrir.

Var efnið hjálplegt?