Hvað er hlutastarf

Starfsmaður telst vera í hlutastarfi ef venjulegur vinnutími hans á viku eða að meðaltali miðað við heilt ár er styttri en sambærilegs starfsmanns í fullu starfi.

Með sambærilegum starfsmanni er átt við starfsmann sem starfar í sama fyrirtæki á grundvelli samskonar ráðningarfyrirkomulags og vinnur sama eða sambærilegt starf að teknu tilliti til annarra áhrifaþátta svo sem starfstíma, kunnáttu og hæfni. Sé ekki til að dreifa sambærilegum starfsmanni í sama fyrirtæki skal samanburður gerður með vísan til viðeigandi kjarasamnings eða þar sem slíkum samningi er ekki til að dreifa með vísan til laga, annarra kjarasamninga eða venju.

Í Félagsdómi nr. 25/2015 reyndi á skilgreiningu hugtaksins hlutavinnustarfsmaður. A var í ráðningarsambandi við fyrirtæki á þann veg að A var á svokölluðum úthringilista og vann tilfallandi.  Á honum hvíldi ekki tiltekin vinnuskylda og gat hann hafnað útkalli ef hann kysi það. Ágreiningurinn laut að ávinnslu réttinda með samfelldum starfstíma. Fyrirtækið hélt því fram að í hvert sinn sem A sinnti útkalli hefði stofnast nýr tímabundinn ráðningarsamningur. Félagsdómur virðist hafna þessu og kemst að þeirri niðurstöðu að um hlutastarf hafi verið að ræða þó vinnan væri tilfallandi. Í Félagsdómi segir: „Að þessu gættu verður að líta svo á að [..] hafi á umræddu tímabili verið hlutastarfsmaður í skilningi a-liðar 3.mgr. laga nr. 10/2004, sbr. 1. tölulið 3. ákvæðis tilskipunar nr. 97/81/EB.“ Hann kemst síðan að þeirri niðurstöðu að þetta ráðningarsamband sé ekki sambærilegt við ráðningarsambandi starfsmanns í fullu starfi og af þeim ástæðum var sýknað. Sambærilegi starfsmaðurinn í málinu hefði skv. því átt að vera einstaklingur í sambærilegu ráðningarsambandi þ.e. sem vinnur tilfallandi. Þeir sem þannig unnu nutu hins vegar sömu ávinnslu réttinda og A. Þessi niðurstaða er í samræmi við niðurstöður Evrópudómstólsins sbr. t.d. C-313/02.

Var efnið hjálplegt?