Tilflutningur í starfi

Þótt meginreglan sé sú að aðilar ráðningarsamninga þurfi ekki gegn vilja sínum að sæta því að verða fluttir í annað starf en þeir eru ráðnir til, né að starfssviði þeirra eða starfskjörum sé breytt, hafa dómstólar talið að þessi regla geti sætt undantekningum í sérstökum tilvikum án þess að til þurfi að koma sérstök lagaheimild.

Í Hrd. nr. 131/1981 varð skipverji frá vinnu vegna veikinda og missti af veiðiferð. Veiðiferðinni lauk 21. dags mánaðar en maðurinn varð vinnufær þann 14. og óskaði útgerðin þá eftir því að hann kæmi til starfa á netaverkstæði hennar. Sjómaðurinn taldi sér það ekki skylt og neitaði vinnunni. Í dómsmáli, sem sjómaðurinn höfðaði til að fá greidd laun þennan tíma, sýknaði Hæstiréttur útgerðina með þeim rökum að hafa beri í huga að ekki hafi verið ágreiningur um að maðurinn hafi kunnað til þeirra verka sem honum voru ætluð, að aðbúnaður á verkstæðinu hafi verið fullnægjandi, að manninum hafi ekki verið neitt að vanbúnaði að sækja vinnu á verkstæðið, að vinnan á verkstæðinu hafi hvorki verið erfiðari né hættulegri en hásetavinnan sem hann innti af hendi í skipi sínu og að verkstæðisvinnan stóð aðeins í fáa daga. Þá verði ekki talið að starf það sem hann átti að vinna á netaverkstæðinu hafi verið honum á neinn hátt ósamboðið.

Fara verður varlega í að viðurkenna frávik frá þeirri meginreglu sem að framan greinir, enda verður rökstuðningur Hæstaréttar ekki skilinn á annan hátt í þessu máli en að það sé einungis í sérstökum tilvikum sem hægt er að senda starfsmenn milli starfa. 

Í dómi bæjarþings Keflavíkur og Njarðvíkur 18. nóvember 1988 var deilt um rétt atvinnurekanda til að flytja starfsmann fyrirvaralaust til í starfi. Vildi atvinnurekandi fyrirvaralaust setja konu, sem hafði verið verslunarstjóri, til annarra starfa og ráða nýjan verslunarstjóra. Þessi breyting átti þó ekki að hafa áhrif á launakjör konunnar. Konan sætti sig ekki við þessa breytingu og höfðaði mál. Konan vann málið og í dóminum sagði meðal annars að eðlilegt hafi verið að konan legði niður störf þegar henni var skipað til almennra afgreiðslustarfa í versluninni af nýjum starfsmanni sem hún mátti ætla að ætti ekki að taka við starfi hennar fyrr en löngu síðar. Einhliða og allveruleg en jafnframt niðurlægjandi breyting á starfssviði konunnar jafngilti fyrirvaralausri uppsögn hennar.  

Sé starfsmaður ekki ráðinn til starfa samkvæmt ákveðinni starfslýsingu verður hann að sæta tilfærslu í starfi innan sama fyrirtækis, enda sé starfið innan ramma þess sem kjarasamningur kveður á um.

Var efnið hjálplegt?