Dómar

Þegar lesnir eru dómar á þessu sviði ber að taka tilit til þess að málavextir kunna að vera sérstakir og stöður starfsmannana sérstakar vegna ábyrgðar eða hættueiginleika starfanna. Þeir hafa því ekki almennt gildi um allar vímuefnaprófanir. 

Í Hrd. 130/2015 voru málsatvik þau, að sjómanni hafði verið gert að gangast undir vímuefnapróf og reyndist þvagsýni hans innihalda fíkniefni. Í kjölfarið vísaði skipstjóri honum úr skiprúmi en í ráðningarsamningi aðila var ákvæði þess efnis að óheimilt væri að vera undir áhrifum vímuefna þegar komið væri til starfa og að slíkt varðaði fyrirvaralausri brottvikningu úr starfi. Héraðsdómur leit til 24. gr. sjómannalaga auk ákvæðis í ráðningarsamningi um að það væri óheimilt að vera undur áhrifum fíkniefna við vinnu og að brot á því varðaði fyrirvaralausum brottrekstri úr starfi. Í ákvæðinu kom einnig fram að atvinnurekandi myndi gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að starfsmenn séu ekki undir áhrifum vímuefna á vinnustað og að starfsmaður samþykkti að gangast undir próf þessu til staðfestingar. Litið var til sjálfsákvörðunarréttar stefnanda auk þess sem atvinnurekanda hafi verið heimilt að setja reglur og ákvæði um vímuefnanotkun í ráðningarsamning vegna öryggissjónarmiða.  Að mati dómsins var ákvæðið ekki í andstöðu við ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu, um friðhelgi einkalífs. Í dómi Hæstaréttar eru tiltekin tómlætissjónarmið reifuð en starfsmaðurinn gerði engar athugasemdir er honum var afhent skjal til staðfestingar þess að honum hafi verið sagt upp fyrirvaralaust. Heldur ritaði hann undir skjalið. Var talið með vísan til hátternis starfsmannsins og 24. gr. sjómannalaga að hann hafi viðurkennt fyrirvaralausa uppsögn og var atvinnurekandi því sýknaður.

Í Hrd. 695/2014 var stýrimaður á skipi látinn undirgangast vímuefnapróf eftir komu skipsins til landsins. Í þvagsýninu greindist tetrahýdrókannabínólsýra og var stýrimanninum umsvifalaust sagt upp starfi sínu. Í héraðsdómi kom fram að starfsmaður hafi gengist undir reglur um vímuefnalausan vinnustað og að brot á þeim reglum varði brottrekstri án aðvörunar. Var ekki talið að um brot á friðhelgi einkalífs hafi verið að ræða né að yfirburðastaða stefnda hafi haft þýðingu. Þá taldi dómurinn að umrætt próf hefði ekki verið brot á persónuverndarlögum þar sem ótvírætt samþykki til vinnslu persónuupplýsinga lá fyrir. Með undirritun sinni hafi starfsmaður gengist að niðurstöðu prófsins. Þá var litið til tveggja lagaákvæða: Í fyrsta lagi 24. gr. sjómannalaga, en þar segir að víkja megi skipverja úr skiprúmi sé hann undir áhrifum fíkniefna. Í öðru lagi 238. gr. siglingalaga sem bannar einstaklingum að stjórna skipum ef þeir eru vegna neyslu fíkniefna óhæfir til að rekja starfann á fullnægjandi hátt. Þá taldi dómurinn það hafa þýðingu að hann væri yfirmaður á skipinu skv. lögum. Segir síðan að með hliðsjón af eðli starfsins og öryggissjónarmiðum yrði að játa atvinnurekanda heimild til þess að geta með fullnægjandi hætti gengið úr skugga um hvort starfsmenn í stöðu stýrimanns séu m.a. undir áhrifum fýkniefna. Þá gerði ekki athugasemd við framkvæmd sýnatökunnar né fyrstu niðurstöðu hennar. Í Hæstarétti var litið til þess að starfmsaðurinn hafi veitt samþykki til töku sýnisins og að hann hafi verið ófær um að stýra skipi skv. 238. gr. siglingalaga. Hefði stýrimanninum mátt vera fyllilega ljóst hverju það varðaði ef reglur vinnustaðarins um vímuefnalausan vinnustað yrðu brotnar. Var atvinnurekandinn sýknaður af kröfum fyrrverandi starfsmannsins.

Mannréttindadómstóll Evrópu

Í Madsen gegn Danmörku (2002) var áhafnarmaður dansks skips látinn gefa þvagsýni um borð að ósk atvinnurekanda. Prufan leiddi enga áfengis- né vímuefnaneyslu í ljós en í kjölfar prufunnar kærði starfmaðurinn atferlið. Mannréttindadómstóllinn mat svo að ekki hafi verið um brot gegn friðhelgi einkalífs starfsmannsins að ræða. Að mati dómstólsins hafði umrætt próf næga stoð í dönskum rétti. Var þar m.a. litið til innihalds meginreglna dansks réttar um stjórnunarrétt atvinnurekanda og nauðsynjar vegna öryggisástæðna. Þá benti dómurinn á greinargerð með frumvarpi til laga um notkun heilbrigðisupplýsinga á vinnumarkaðnum, en þar kom fram að frumvarpið hefði ekki áhrif á rétt atvinnurekenda til þess að hafa eftirlit með starfsmönnum sínum þ. á m. í formi prufa til þess að greina misnotkun á áfengi eða vímuefnum, að því gefnu að slíkar prufur eru ekki ætlaðar sem heilsufarsskoðanir. Að auki var litið til þess að í dönsku sjómannalögunum er lagt bann við því að skipverjar séu með vímuefni um borð sem og heimild til þess að segja skipverja upp ef hann brýtur af sér með því að vera undir áhrifum endurtekið í vinnu.

Í Wretlund gegn Svíþjóð (2004) neitaði starfsmaður í ræstingum í kjarnorkuveri í Svíþjóð að gangast undir áfengis- og vímuefnaprufu. Ekki var kveðið á um slíkt próf í viðeigandi kjarasamningi og hvorki heldur í lögum né ráðningarsamningi starfsmannsins. Þá taldi verkalýðsfélag starfsmannsins m.a. að slík prufa væri ekki í samræmi við meðalhóf þegar litið var til stöðu hans. Hvað varðaði vímuefnaprófið, taldi Mannréttindadómstóllinn að prufan ekki verið ólögleg. Litið var til þess að stjórnunarréttur atvinnurekanda væri viðurkennd meginregla og að hluti af stjórnunarréttinum gæti verið atvinnurekandi mætti framkvæma tilteknar eftirlitsaðgerðir á starfsmönnum sínum í vissum tilvikum, eins og að senda þá í vímuefnaprufur. Dómstóllinn leit til þess að rekstur kjarnorkuvers frefðist mikils öryggis og að vímuefnaneysla meðal starfsmanna gæti stofnað lífi og limum annarra í hættu með því að raska öryggi á staðnum. Dómurinn benti á að prufan var framkvæmd í einrúmi, niðurstöður prófsins eingöngu aðgengilegar þeim sem tóku þátt í prufunni og að allir stafsmenn kjarnorkuversins voru látnir gangast undir slíkt próf.

Var efnið hjálplegt?