Persónuvernd launafólks

Friðhelgi einkalífs er varið í 71. gr. stjórnarskrár Íslands og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Réttindi þessi eiga við á vinnustað sem og annars staðar. Ljóst er að tæknibylting undanfarinna ára hefur leitt af sér nýjar og áður óþekktar leiðir til inngrips inn í þennan rétt m.a. með rafrænni vöktun. Ljóst er að sama skapi að tækninýjungar hafa gefið atvinnurekendum leiðir til þess bæði að auka öryggi á sínum vinnustað, bæði gagnvart utanaðkomandi ógnum s.s. eins og þjófnaði og eins til verndar lífi og heilsu starfsfólks.

Það er einmitt á grundvelli þessara andstæðu hagsmuna, þ.e. annars vegar forræði atvinnurekanda á að vernda sig og sína starfssemi og hins vegar réttar starfsfólks til friðhelgi einkalífs sem að sett hafa verið lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglur nr. 837/2006 um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun, sem eiga að tryggja að jafnvægi ríki á milli þessara tveggja fyrrnefndu hagsmuna. 

Hvað varðar launafólk þá reynir helst á persónuréttindi þess þegar kemur að vímuefnaprófunum,rafrænni vöktun og kröfum um framvísun sakaskrár . Rafræn vöktun getur falið í sér ýmislegt en nærtækast er að nefna eftirlit með myndavélum, staðsetningarbúnað og vöktun á tölvupósti og símtölum. Þar sem að starfsemi og umhverfi fyrirtækja geta verið mjög mismunandi þá er ekki auðvelt að fastsetja hvað má og hvað má ekki án þess að skoða hvert tilvik fyrir sig, en þær meginreglur sem leiða má af Persónuverndarlögum eru, að skráning og vinnsla persónuupplýsinga skuli vera:  

  • Unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti.
  • Fengnar í skýrum og málefnalegum tilgangi.
  • Ekki umfram það sem nauðsynlegt er.
  • Áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum.
  • Varðveittar í því formi að ekki sé unnt að bera kennsl á viðkomandi einstakling lengur en þörf krefur m.v. tilgang vinnslu.

Aftur eru svo sérstaklega skilgreindar viðkvæmar persónuupplýsingar en um vinnslu slíkra upplýsinga gilda enn ríkari kröfur en eru raktar hér að framan. Slík vinnsla t.d. söfnun atvinnurekanda á slíkum upplýsingum er tilkynningarskyld til Persónuverndar. Heyrir í raun til algjörra undantekninga að safna og vinna megi úr slíkum upplýsingum er varðar hefðbundið ráðningarsamband. Viðkvæmar persónuupplýsingar eru í skilningi laganna:

  • Upplýsingar um kynþátt, þjóðernislegan uppruna, stjórnmálaskoðanir, trúarbrögð, lífsskoðun eða aðild að stéttarfélagi.
  • Upplýsingar um heilsuhagi, þar á meðal um erfðaeiginleika, lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun.
  • Upplýsingar um kynlíf manna og kynhegðan.
  • Upplýsingar um erfðaeiginleika einstaklings.
  • Upplýsingar um lífkenni, nánar tiltekið sem tengjast líkamlegum, líffræðilegum eða atferlisfræðilegum eiginleikum einstaklings.

Tengt efni

Var efnið hjálplegt?