Taka orlofs

Ákvörðun um orlof 

Samkvæmt orlofslögum nr. 30/1987 skal veita orlof á tímabilinu frá 2. maí til 15. september. Í 5. gr. laganna segir að atvinnurekandi ákveði í samráði við launþega hvenær orlof skuli veitt. Hann skal verða við óskum launþega um hvenær orlof skuli veitt að svo miklu leyti sem unnt er vegna starfseminnar. Að lokinni könnun á vilja launþegans skal atvinnurekandi tilkynna, svo fljótt sem unnt er og í síðasta lagi mánuði fyrir byrjun orlofs, hvenær orlof skuli hefjast, nema sérstakar ástæður hamli.

Í samráði við starfsmann 

Með samráði á að tryggja að sem best sátt sé um það hvenær starfsmaður fari í orlof. Samráð þýðir þó ekki að náðst hafi samkomulag. Vinnuveitandi á að kanna hverjar eru óskir starfsmanna og tilkynna síðan eins fljótt og unnt er hvenær orlof skuli hefjast en það er vinnuveitandinn sem hefur endanlegt úrskurðarvald um töku orlofs.

Ákvörðun byggir á starfsemi fyrirtækisins

Við ákvörðun atvinnurekanda um það hvenær orlof skuli veitt segir að hann skuli verða við óskum launþega að svo miklu leyti sem unnt er vegna starfseminnar. Því verða rekstrarlegar ástæður að liggja að baki ákvörðun atvinnurekanda.

Fyrirtæki lokar í orlofi

Atvinnurekanda er heimilt að loka fyrirtæki á meðan starfsmenn eru í orlofi. Þegar þannig stendur á geta þeir starfsmenn, sem ekki eiga rétt á fullu orlofi, ekki krafist launa eða orlofslauna fyrir þá daga sem á vantar. Um þetta fjallar 9. gr. orlofslaga. Spurningar hafa vaknað um fyrirvara á orlofslokun. Þá ber atvinnurekanda að fara eftir reglunni í 5. gr. og tilkynna slíkt með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara.

Æskilegt er að þessi ákvörðun liggi fyrir eigi síðar en 1. apríl svo hún nái til allra starfsmanna. Að öðrum kosti eiga þeir sem hafa þegar nýtt sér áunninn orlofsrétt sinn í samræmi við 4. og 5. grein orlofslaganna hugsanlega rétt á launum þann tíma sem starfsemin liggur niðri.

Orlof tekið utan orlofstímabils 

Svo sem áður var komið fram skal veita orlof samkvæmt orlofslögum á tímabilinu frá 2. maí til 15. september.

Ef atvinnurekandi óskar eftir tilfærslu á hluta orlofs yfir á vetrartímabil þurfa sérstakar rekstrarástæður að vera til staðar. Þar sem það er meginregla að orlof skuli veita að sumrinu eru settar ákveðnar skorður við slíkum tilflutningi. Þessi tilfærsla má samkvæmt lögunum aldrei vera meiri en svo að starfsmaður fái 14 daga orlof á sumarorlofstíma. Um nánari útfærslu er í lögunum vísað til kjarasamninga.

Í síldveiðum og landbúnaði má flytja helming orlofsins af orlofstímabili yfir á vetrartímabil, sbr. 2. mgr. 4. gr. Um þá sem eiga lágmarksorlof er þetta flutningur á 12 dögum.

Að ósk atvinnurekanda

Óski atvinnurekandi eftir flutningi á hluta orlofs yfir á vetrartímabil skal sá hluti orlofs starfsmanns með lágmarksorlof lengjast um 1/4. Þannig á maður sem að ósk atvinnurekanda flytur 8 daga af orlofi sínu fram til október rétt á 10 daga orlofi þá.

Vegna óska starfsmanns 

Aðilar geta með samkomulagi vikið frá reglum orlofslaganna um orlofstöku. Um það verður að vera samkomulag og báðir aðilar að fallast á þær breytingar. Orlofi skal þó alltaf lokið fyrir lok orlofsársins. Samkvæmt þessu er ekki hægt að semja um flutning orlofs milli orlofsára. Við framkvæmd þessara reglna er rétt að hafa í huga ákvæði orlofslaganna um lágmarksrétt og að samningar sem skerða rétt launamanns eru ógildir.

Vegna veikinda

Í 6. gr. orlofslaga er undantekning á þeirri reglu að starfsmenn megi ekki flytja orlofsrétt á milli ára. Þar er kveðið á um það að geti starfsmaður ekki vegna veikinda farið í orlof á þeim tíma sem vinnuveitandi ákveður skv. 5. gr. skuli hann sanna forföll sín með læknisvottorði. Geti starfsmaður þá krafist orlofs á öðrum tímum en þó eins fljótt og unnt er eftir að veikindum líkur.

Sérákvæði um opinbera starfsmenn

Í kjarasamningum félaga innan BSRB segir að sé orlof eða hluti þess tekið eftir að sumarorlofstímabili lýkur skuli sá hluti orlofsins lengjast um 1/4. Sama gildi um sumarleyfi, sem tekið er fyrir sumarorlofstímabil, samkvæmt beiðni stofnunar. Sjá nánari upplýsingar á heimasíðu BSRB.

Tengt efni

Var efnið hjálplegt?