Útreikningur orlofslauna hjá mánaðarkaupsmönnum

Orlofslaun mánaðarkaupsfólks eru oftast reiknuð í orlofsdögum. Greiðast þá tveir dagar fyrir hvern unninn mánuð, samtals 24 dagar á ári. Meðalfjöldi virkra daga í mánuði annarra en laugardaga er 21,67 og er orlof því rúmlega mánuður, 4 vikur og 4 dagar. Við uppgjör orlofs við starfslok er nauðsynlegt að hafa þetta til hliðsjónar. Mánaðarkaupsmaður sem lætur af störfum 31. desember á inni orlof frá 1. maí, eða 16 daga sé miðað við lágmarksorlof. Dagkaupið er fundið út með því að deila 21,67 í mánaðarkaupið og það síðan margfaldað með orlofsdagafjöldanum. Þannig fæst orlofið. 

Þann tíma sem maður er frá vinnu vegna veikinda eða slysa fær hann greitt orlof en sé fráveran án launagreiðslna, hvort sem það er vegna veikinda, slysa, fæðingarorlofs eða sérstaks launalauss leyfis, greiðist orlof ekki.

4.mgr. 7.gr. orlofslaga nr. 30/1987 hefur valdið nokkrum vandræðum við túlkun. Þar segir: „Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. er heimilt að greiða mánaðarkaupsmönnum orlofslaun á sama tíma og reglubundnar launagreiðslur fara fram, enda sé meiri hluti þeirra því samþykkur.“ Í 3. mgr. 7.gr. orlofslaganna er meginreglan sem 4. mgr. 7.gr. er að víkja frá en þar segir: „Launþega skulu greidd áunnin orlofslaun samkvæmt framanskráðu næsta virkan dag fyrir töku orlofs og greiðast þau miðað við dagvinnutímakaup starfsmannsins eins og það er fyrsta dag orlofsins.“ Þeirri túlkun hefur á stundum verið haldið á lofti að skv. þessum ákvæði sé heimilt að greiða mánaðarkaupsmönnum orlof út samhliða launagreiðslum. Sú túlkun er röng. Meginregla orlofslaga nr. 30/1987 er sú að orlof skal greiða launamanni þá er hann fer í orlof. Þessi regla hefur verið í lögum um orlof frá upphafi. Í lögum og greinargerð með fyrstu orlofslögunum sem í gildi gengu 15. maí 1942 sagði: “... (4.gr. 4.mgr.) Kaup fyrir orlofsdagana skulu þeir fá greitt næsta virkan dag áður en orlof hefst.” Í greinargerð segir: “Alþingi [hefur] viðurkennt nauðsyn þess, að vinnandi fólk til sjávar og sveita fái hæfilega hvíld frá störfum vissan tíma í einu með vissu tímabili .... óumdeilda þýðingu hefur það, að fólk fái greitt kaup, meðan það er í orlofi...” Ákvæði laganna frá 1971 og 1987 eru samhljóða hvað þetta varðar. Í 3.mgr. 7.gr. gildandi orlofslaga segir síðan að „Launþega skulu greidd áunnin orlofslaun samkvæmt framanskráðu næsta virkan dag fyrir töku orlofs …. „ Frá þessari meginreglu voru tvær undantekningar. Hin fyrri var í 2.mgr. 6.gr. orlofslaganna og fjallaði um greiðslu orlofs til þeirra sem ekki geta farið í orlof á orlofstíma vegna veikinda. Þessi regla var felld úr gildi með 1.gr. l. 133/2011 og skal nú veita orlof á öðrum tíma en þó eins fljótt og hægt er eftir að veikindum líkur. Hin síðari var og er í 8.gr. orlofslaganna en þar segir að launagreiðandi skuli greiða launamanni út áunnin orlofslaun við slit ráðningarsamnings. 

Þessar reglur eru rétt skýrðar með eftirfarandi hætti.

  • Orlof skal greitt út næsta virkan dag fyrir orlofstöku. Þannig er markmið orlofslaganna um hvíld á launum frá störfum tryggt.
  • Ef meirihluti starfsmanna sem allt er mánaðarkaupsfólk (fólk sem fær greitt  mánaðarkaup  mánaðarlega, eftir á eða fyrirfram) samþykkir má semja um að í stað þess að fá greitt orlof næsta virkan dag fyrir orlofstöku sé orlofið greitt á sama tíma og reglulegar kaupgreiðslur eiga sér stað. Dæmi:  A er mánaðarkaupsmaður og fær laun sín greidd fyrsta virka dag hvers mánaðar eftirá. Hann á eins mánaðar orlof og fer í orlof frá 15.7 til 15.8. Í samræmi við 4. mgr. 7. gr. fær hann þann 1.8 full mánaðarlaun eins og júlí allur hafi verið unninn og aftur full mánaðarlaun þann 1.9 eins og allur ágúst hafi verið unninn. Þetta gerist með þessum hætti í stað þess hann fái í samræmi við 3. mgr. 7.gr. þann 14.7 orlofslaun fyrir 15.7 – 15.8 og síðan þann 1.8 hálf mánaðarlaun vegna júlímánaðar og aftur hálf mánaðarlaun þann 1.9 vegna ágústmánaðar.
  • Loks geta stéttarfélög samið um að í stað þess að orlof sé varðveitt i hendi atvinnurekanda, reiknað skv. 1. mgr. 7.gr. og greitt út skv. 2. mgr. að þá megi greiða það inn sérstaka lokaða orlofsreikninga sem opnast við upphaf orlofstöku.

Sá ennfremur um þetta efni kaflann um orlof innifalið í launum hér neðar á síðunni.

Var efnið hjálplegt?