Orlofslaun lögð inn á orlofsreikning

Þótt orlof sé reiknað af launum fólks kemur það ekki til greiðslu fyrr en í upphafi orlofstöku. Þetta eru því áunnin réttindi. Almenna reglan er sú að féð er ekki ávaxtað sérstaklega eða sérgreint í rekstri fyrirtækisins yfir orlofsárið en kemur síðan til greiðslu í upphafi orlofstöku. Í reikningsskilum fyrirtækja er áunnið orlof þó skuldfært um áramót.

Í 7. gr. orlofslaga er kveðið á um að stéttarfélögum sé heimilt að semja um þá tilhögun við einstaka launagreiðendur að orlofslaun séu jafnharðan greidd á sérstaka orlofsreikninga launþega hjá banka eða sparisjóði. Skal í slíkum samningi tryggt að sá aðili sem tekur að sér vörslu orlofslauna geri upp áunnin orlofslaun, þ.e. höfuðstól og vexti, til launþega við upphaf orlofstöku. Þessir þríhliða samningar eru víða gerðir og þykja hafa skilað góðri ávöxtun til launafólks. Stundum ná þeir til greiðslu alls orlofs launafólks en einnig geta þeir verið gerðir einungis vegna orlofs af yfirvinnu starfsmanna. Bankarnir hafa útbúið staðlað form sem yfirleitt er notað.

Skylt er að tilkynna svona þríhliða samninga og ber að senda félagsmálaráðuneytinu þegar í stað eintak og tilkynna ber einnig um slit þeirra. Þegar þríhliða bankasamningur hefur verið gerður ábyrgist bankinn greiðslu orlofs þótt vanskil verði á skilum atvinnurekanda til bankans. Við greiðslu inn á bankareikning hefur atvinnurekandi fullnægt greiðsluskyldu sinni og orlofslaunin eru úr ábyrgð hans og umsjá.

Þegar banki tekur að sér varðveislu orlofs með þessum hætti greiðir hann launamanni orlofið út í kringum 15. maí en það fer eftir ákvæðum hvers samnings fyrir sig hvort sendur er tékki til launamannsins eða honum tilkynnt um að hann eigi ákveðna innstæðu á reikningi í bankanum.

Spurning hefur vaknað um það hvort launagreiðandi megi leggja orlof á banka ef þríhliða samningur er ekki jafnhliða gerður. Það er ekkert sem beinlínis bannar launagreiðanda að leggja orlofslaun starfsfólks síns inn á banka og varðveita þau þar yfir árið. Hans skylda er einungis sú að greiða launamanni orlof í upphafi orlofstöku. Svo framarlega sem orlofslaunagreiðslan er ekki lægri en hún hefði verið með því að margfalda áunna orlofstíma með gildandi tímakaupi í upphafi orlofstöku er atvinnurekanda heimilt að hafa þennan hátt á og hann er sjálfur ábyrgur fyrir greiðslu orlofs.

Var efnið hjálplegt?