Lengd orlofs

Ákvæði orlofslaga um lengd orlofs

Samkvæmt 3. gr. orlofslaga nr. 30/1987 skal orlof vera tveir dagar fyrir hvern unninn mánuð á síðasta orlofsári og reiknast hálfur mánuður eða meira heill mánuður en skemmri tími telst ekki með. Það telst vinnutími samkvæmt greininni þótt maður sé frá vinnu vegna veikinda eða slysa meðan hann fær greitt kaup eða hann er í orlofi. Lágmarksorlof er því 24 virkir dagar á ári.

Sunnudagar og aðrir helgidagar teljast ekki orlofsdagar né heldur fyrstu fimm laugardagar í orlofi. Ákvæðið um að fyrstu fimm laugardagar í orlofi teldust ekki orlofsdagar kom inn í orlofslög 1982, þegar laugardagar hættu almennt að teljast til orlofsdaga. Það þótti ekki eðlilegt að þær stéttir, sem hefðu fyrir lengst orlof, myndu hagnast mest á þessari lagabreytingu, svo sem flugmenn, og því var breytingin aðeins látin ná til fyrstu fimm laugardaga í orlofi.

Ákvæði kjarasamninga um betri orlofsrétt

Víða í kjarasamningum er að finna ákvæði um betri orlofsrétt og miðast hinn aukni réttur almennt við starfsaldur hjá sama atvinnurekanda. Tryggð við vinnustaðinn er þannig launuð með lengri orlofsrétti.

Orlofsauki starfsmanna er almennt, að teknu tilliti til starfsaldurs eða aldurs viðkomandi, frá 3 upp í 6 daga.

Nánari upplýsingar um orlofsauka má sjá í kjarasamningum.

Var efnið hjálplegt?