Ákvæði kjarasamninga um aukahelgidaga

Samningsákvæði sem lúta að aukafrídögum fjalla í fyrsta lagi um það hvaða dagar teljist vera aukafrídagar, í öðru lagi um það hvaða greiðslur skuli koma fyrir þá daga sem fólk vinnur ekki og í þriðja lagi hvernig skuli greiða fyrir vinnu sem unnin er á aukahelgidögum.

Hvaða dagar eru aukafrídagar

Í kjarasamningum er sums staðar talið upp hvaða dagar eru aukafrídagar og þá þar með helgidagar þjóðkirkjunnar, þannig að þótt lagaákvæðin skorti um helgidaga þjóðkirkjunnar sjá kjarasamningar til þess að fólk eigi rétt á fríi þessa daga. Jafnvel þótt helgidagar þjóðkirkjunnar séu ekki taldir upp í kjarasamningi og ekki sé að finna ákvæði um þá í lögum er, eins og áður er tekið fram, hefðuð venja fyrir því hvaða dagar teljast aukahelgidagar. Því myndi atvinnurekandi ekki geta skipað starfsfólki sínu að vinna á uppstigningardag eða skírdag nema sérstaklega hafi verið um það samið milli aðila og sérstök greiðsla komi fyrir.

Helgi aðfangadags og gamlársdags hefst kl. 12.00 í kjarasamningum eins og áður er fram komið, en ekki kl. 13.00 eins og í lögunum um 40 stunda vinnuviku.

Réttur til launa á aukafrídögum

Þótt tilteknir dagar séu lögskipaðir frídagar fylgir því ekki sjálfkrafa réttur til launa þá daga sem fólk er í fríi. Þótt kjarasamningar geri almennt ráð fyrir að starfsfólk öðlist strax rétt til óskerts vikukaups og þannig óskertra launa á aukahelgidögum er það þó ekki algilt. Þannig segir í kjarasamningi SGS að verkamaður verði að hafa unnið hjá sama vinnuveitanda samfellt í 1 mánuði til að öðlast rétt á óskertu vikukaupi þannig að samningsbundnir frídagar sem falla á mánudaga til og með föstudaga séu greiddir. Í samningnum er ennfremur skýrt út hvað átt sé við með samfelldri eins mánaðar vinnu hjá sama vinnuveitanda. Það er full dagvinna í einn mánuð, enda jafngildi fjarvistir vegna veikinda, slysa, orlofs, verkfalla eða verkbanna fullri vinnu svo og ef vinna fellur niður vegna hráefnisskorts eða sambærilegra orsaka.

Það kaup sem greitt er fyrir aukafrídaga er dagvinnukaup. Réttur til staðgengilskaups eða yfirvinnugreiðslna er ekki til staðar.

Launagreiðslur fyrir unna aukafrídaga

Þegar starfsmenn einhverra hluta vegna vinna aukafrídaga er aukalega greitt fyrir þá. Í kjarasamningum eru ítarleg ákvæði um greiðslur fyrir vinnu á aukafrídögum og eru þeir mishelgir og því misdýrir í þessu sambandi. Greint er á milli stórhátíðardaga, sem eru víðast nýársdagur, föstudagurinn langi, páskadagur, hvítasunnudagur, 17. júní, jóladagur og aðfangadagur og gamlársdagur eftir kl. 12.00, og annarra frídaga. Vinna á stórhátíðardögum greiðist samkvæmt kjarasamningum með tímakaupi sem nemur 1,375% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu. Fyrir vinnu aðra frídaga greiðist yfirvinnukaup eins og það er skilgreint í viðkomandi kjarasamningi.

Um vaktavinnufólk gilda sérákvæði þar sem það vinnur aukafrídaga samkvæmt vaktskrá. Almennt greiðist hærra vaktaálag stórhátíðisdaga en aðra daga.

Var efnið hjálplegt?