Aðrir frídagar

Sjómannadagur

Samkvæmt lögum um sjómannadag nr. 20/1987 skal fyrsti sunnudagur í júnímánuði ár hvert vera almennur frídagur sjómanna með ákveðnum takmörkunum þó. Beri hvítasunnudag upp á fyrsta sunnudag í júní skal sjómannadagur haldinn næsta sunnudag á eftir. Lögin ná til annarra íslenskra sjómanna en þeirra sem eru á íslenskum farskipum sem sigla milli Íslands og annarra landa, á ferjum milli lands og eyja og starfsmanna Landhelgisgæslunnar. Öll fiskiskip skulu liggja í höfn á sjómannadag og hafa komið til hafnar eigi síðar en kl. 12 á laugardegi fyrir sjómannadag og láta ekki úr höfn fyrr en kl. 12 á hádegi næsta mánudag. Þótt sjómannadagur nái þannig aðeins til hluta launafólks, ber hann upp á sunnudag, sem er almennur frídagur, og hann er almennur fánadagur.

Nánar er fjallað um sjómannadag í kjarasamningi Sjómannasambands Íslands, grein 1.14. Þar segir, líkt og að framan greinir, að öll fiskiskip skuli liggja í höfn um sjómannadag og hafa komið til hafnar eigi síðar en kl. 12.00 á hádegi á laugardegi fyrir sjómannadag og láta ekki úr höfn fyrr en kl. 12.00 á hádegi næsta mánudag. Samfellt frí í tengslum við sjómannadag skal þó vera 72 klst. og telst það til innunninna fría skv. samningnum. Skipverjar skulu ekki vera skyldir til vinnu á framangreindu tímabili nema öryggi skipsins sé í hættu. Að öðru leyti fer um frí á sjómannadaginn eftir því sem segir í lögum nr. 20/1987.

Hafnarfrí um jól og áramót

Á skipum sem stunda veiðar skv. kjarasamningi Sjómannasambands Íslands skal skipverjum tryggt hafnarfrí frá kl. 12.00 á hádegi á Þorláksmessu til kl. 24.00 annan í jólum og frá kl. 16.00 á gamlársdag til kl. 24.00 á nýársdag.

Hafnarfrí um jól er heimilt að telja sem 30 klst. í lágmarkshafnarfríum samkvæmt kjarasamningi, en áramótafríið skal vera viðbót við lágmarkshafnarfrí samkvæmt kjarasamningi.

Frávíkjanlegar reglur

Ákvæði um frí um sjómannadagshelgina og um jól og áramót eru frávíkjanleg ef um er að ræða skip sem ætlað er að sigla með afla sinn á erlendan markað, enda sé skipshöfn kunn sú fyrirætlan áður en veiðiferð hefst. Sé siglt á sjómannadegi eða jólum skulu skipverjar fá 36 klst. frí til viðbótar samningsbundnu lágmarksfríi að siglingu lokinni.

Aðfangadagur og gamlársdagur

Eins og að framan er getið eru aðfangadagur og gamlársdagur lögskipaðir frídagar frá kl. 13.00 á hádegi. Í kjarasamningum eru hins vegar ákvæði um það að þessir dagar skuli vera frídagar frá kl. 12.00 á hádegi.

Var efnið hjálplegt?