Aukafrídagar, aukahelgidagar

Vinnuvikan nær frá mánudegi til föstudags, að báðum dögum meðtöldum. Laugardagar og sunnudagar eru frídagar. Ákvæði um þetta er fyrst og fremst að finna í lögum um 40 stunda vinnuviku nr. 88/1971. Í 2. gr. laganna segir að unnar skuli 8 klukkustundir í dagvinnu að jafnaði á degi hverjum frá mánudegi til föstudags, nema annar vinnutími henti betur af sérstökum ástæðum og um það sé samið af aðilum. Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum tryggja það enn frekar að teknir séu frídagar. Segir þar að á hverju sjö daga tímabili skuli starfsmenn fá að minnsta kosti einn vikulegan frídag sem tengist beint samfelldum daglegum hvíldartíma. Að svo miklu leyti sem því verður við komið skal vikulegur frídagur vera sunnudagur. 

Til viðbótar helgarfríum liggur atvinnustarfsemi niðri nokkra daga á ári, svokallaða aukafrídaga eða aukahelgidaga. Vinnutími fólks styttist því sem þessu nemur þegar litið er til heildarvinnutíma yfir árið. Aukafrídagar eru í dag flestir lögbundnir. Falla sumir þeirra alltaf á sama vikudag, t.d. sumardagurinn fyrsti, uppstigningardagur, páskar, hvítasunna og frídagur verslunarmanna en aðrir fylgja ákveðnum mánaðardögum, svo sem jól, áramót og 17. júní. Því er fjöldi frídaga breytilegur frá ári til árs eftir því hversu margir þessara daga falla á helgar. Að meðaltali munu þetta vera um 11 dagar á ári. 

Um aukahelgidaga er fjallað í lögum og kjarasamningum. Sjómannadagurinn er lögbundinn frídagur sjómanna einna og um hann gilda sérstök lög. Í kjarasamningum er sérstaklega fjallað um vinnu á aukahelgidögum, um greiðslur fyrir slíka vinnu og orlof í stað vinnu.

Tengt efni

Var efnið hjálplegt?