Orlof og verkföll

Verkfall er félagsleg aðgerð, þ.e. aðgerð stéttarfélags og raskar ekki ráðningarsambandi einstakra félagsmanna þess við atvinnurekanda. Með öðrum orðum felur þátttaka í verkfallsaðgerð ekki í sér uppsögn eða riftun ráðningarsamnings. Ýmis réttindi og ýmsar skyldur skv. ráðningarsamningi verða hins vegar óvirkar meðan á vinnustöðvun stendur. Í þessu felst m.a. að  skylda atvinnurekanda til að greiða laun, þ.m.t. veikindalaun, fellur niður og skyldur starfsmanns til að inna af hendi vinnuframlag sitt sömuleiðis. Jafnframt er talið að þrátt fyrir verkfall ávinni starfsmenn sér ýmis réttindi þannig að verkfallstíminn telur sem starfstími. Öll réttindi og allar skyldur í ráðningarsambandi aðila rakna síðan við að lokinni vinnustöðvun.

Hafi orlof verið ákveðið áður en verkfall er boðað og orlofstakan fellur á verkfallstíma er því réttarstaðan talin vera sú að starfsmaður telst í orlofi þó orlofið falli alveg eða að hluta á verkfallstíma enda sé starfsmaður búinn að fá orlofslaun sín vegna fyrirhugaðrar orlofstöku greidd.  Fyrirframákveðin orlofstaka sem ekki hefur verið greidd er verkfall hefst eða ekki er hægt að greiða vegna þess, fellur því niður á meðan á verkfalli stendur.

Var efnið hjálplegt?