Skráning vinnutíma

Ágreiningur rís stundum um þann vinnutíma sem launamaður skilar. Í mörgum tilvikum er stuðst við stimpilklukkur eða aðra svipaða skráningu og eru ágreiningsefni þá að jafnaði auðleyst. Þessi háttur er þó alls ekki alltaf á og í þeim tilvikum er mikilvægt að starfsmenn haldi sjálfir samtímaskráða dagbók um vinnu sína. Slík skráning getur haft mikilvægt sönnunargildi verði ágreiningur og fullyrða má af fordæmum Hæstaréttar að samtímaskráning starfsmanns sjálfs á vinnutíma sínum geti ráðið úrslitum. 

Um þetta var m.a. fjallað í Hrd. nr. 601/2017 en í reifun dómsins kemur fram að í ráðningarsamningi milli G og F ehf. hafi verið kveðið á um tiltekið tímakaup og var útreikningur kröfu G byggður á tímaskráningum hans sjálfs. F ehf. hélt því fram í málinu að skráningin væri röng og vinnuframlag G samkvæmt henni ósannað. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var af Hæstarétti með vísan til forsendna hans, kom fram að tímaskráningar G væru handskráðar samtímaheimildir. Hefði F ehf. ekki lagt fram neina aðra tímaskráningu en honum hefði verið í lófa lagið að tryggja sér sönnun um vinnuframlag G með því að skrá vinnu hans með stimpilklukku eða yfirfara tímaskráningu hans jafnóðum. Yrði því að leggja tímaskráningu G til grundvallar við úrlausn málsins enda ekki við annað að styðjast og ekkert fram komið sem rýrði trúverðugleika þeirrar skráningar. Var F ehf. því gert að greiða G umkrafða fjárhæð. Sjá einnig 600/2017.

Þetta er svipuð niðurstaða og fram kom í dómi Hæstaréttar 15 árum fyrr, Hrd. nr. 335/2002  en þar segir: "Kröfur sínar um fjárhæð yfirvinnugreiðslna byggir stefndi á skráningu daglegs vinnutíma í dagbók. Hefur áfrýjandi ekki hrakið staðhæfingu hans um að sú skráning hafi verið framkvæmd jafnóðum. Þá hefur hann ekki lagt fram gögn er hnekkja þeirri skráningu, enda verður ekki séð að gögn sem áfrýjandi lagði fram um verkskráningar taki til annars en skráningar á vinnu stefnda vegna útseldra verka, en í málinu liggur fyrir að stefndi vann einnig við verkefni sem ekki voru seld út. Verður skráning stefnda  því lögð til grundvallar og staðfest niðurstaða héraðsdóms um fjárhæð yfirvinnugreiðslna." 

Var efnið hjálplegt?