Vinna fellur niður (Force majeure, vis major)

Vinnutími er samningsatriði við ráðningu og því verða breytingar til skerðingar á vinnutíma af hálfu atvinnurekanda verða ekki gerðar einhliða eða án undangenginnar uppsagnar. Hafi atvinnurekandi ekki störf fyrir fólkið að vinna er hann skuldbundinn samt sem áður til að greiða starfsfólkinu laun fyrir þann tíma sem það er ráðið til starfa. Starfsmenn eru með sama hætti skyldugir til að vinna þann tíma sem þeir eru ráðnir og geta ekki án undangenginnar uppsagnar breytt vinnutíma sínum einhliða. Jafnvel þótt verkefni séu ekki til staðar á vinnustað ber þeim að mæta til vinnu og dvelja á vinnustaðnum.

Algengt er í samningum að undanskilin sé áhætta vegna ófyrirséðra ytri atvika eða svokallaðar vis major eða force majeure reglur. Í vinnurétti tengist þessi regla fyrst og fremst skyldu atvinnurekanda til að greiða starfsmanni laun þótt vinna stöðvist. Þessa reglu ber að túlka þröngt. Um skýringar á því hvað eru ófyrirséð áföll (force majeure, vis major) er vísað til Rómarréttar og merkir hugtakið vis major ytri atvik sem ekki verða séð fyrir og ekki er unnt að koma í veg fyrir þótt gerðar séu eðlilegar öryggisráðstafanir, til dæmis náttúruhamfarir. Tjón sem eingöngu verður rakið til slíkra óviðráðanlegra ytri atvika leiðir ekki til bótaskyldu á grundvelli sakar.

Undantekningar er að finna í lögum og kjarasamningum frá skyldu atvinnurekenda til launagreiðslna þegar vinna liggur niðri. Í 3. gr. laga um rétt verkafólks til uppsagnarfrests o.fl. nr. 19/1979 er ákvæði um það að falli niður atvinna hjá atvinnurekanda, svo sem vegna þess að hráefni er ekki fyrir hendi hjá fiskiðjuveri, upp- og útskipunarvinna er ekki fyrir hendi hjá skipaafgreiðslu, fyrirtæki verður fyrir ófyrirsjáanlegu áfalli, svo sem vegna bruna eða skiptapa, og verður atvinnurekanda þá eigi gert að greiða bætur til launþega sinna, þó að vinna þeirra nemi eigi 130 klukkustundum á mánuði, enda missa launþegar þá eigi uppsagnarrétt sinn meðan slíkt ástand varir. Samkvæmt 2.mgr. geta þeir hins vegar tekið aðra vinnu með einfaldri tilkynningu til atvinnurekanda og eru því ekki bundnir af uppsagnarfresti. Samkvæmt þessu lagaákvæði eru ófyrirséð ytri atvik ekki skilyrði fyrir því að niður falli launagreiðslur vegna hráefnisskorts í fiskiðju eða upp- og út-skipunarvinnu. Í öllum öðrum starfsgreinum þurfa ófyrirsjáanleg áföll að vera til staðar til að atvinnurekendur losni undan skuldbindingum gagnvart starfsmönnum. Engu skiptir hvort ráðning er tímabundin eða ótímabundin sbr. Hrd. 378/1995.

Spyrja má hvers konar aðstæður í fiskvinnslu gefi atvinnurekanda heimild til að senda fólk launalaust heim án slita á ráðningarsambandi. Á þessi sjónarmið reyndi í dómi Hrd. 68/1983. Langvarandi taprekstur hafði verið, fyrirtækið í peningaþrotum, annað af tveimur skipum hafði hætt viðskiptum og lánafyrirgreiðsla hafði verið stöðvuð og af þessum ástæðum ekki hægt að fá hráefni til vinnslu. Þetta mat Hæstiréttur sem svo að atvinnurekanda hefði verið heimilt að taka starfsmann af launaskrá án slita á ráðningarsamningi samkvæmt 3. gr. laga nr. 19/1979 á meðan unnið væri að því að skapa fiskiðjuverinu möguleika til þess að afla hráefnis. Í dóminum segir enn fremur að bæði orðalag greinarinnar og orðalag 3. gr. áðurgildandi laga ásamt aðdraganda að setningu þeirra styðji þessa niðurstöðu en lagaákvæðum þessum virðist meðal annars ætlað að taka tillit til þess óstöðugleika sem oft er í íslenskum sjávarútvegi og atvinnurekendur sjálfir fá ekki við ráðið. Þau sjónarmið eiga hins vegar ekki um aðrar atvinnugreinar og fordæmisgildi þessa dóms því takmarkað hvað aðrar þær varðar. Ákvæðið á t.d. ekki við um flutning á vinnslu milli landshluta sbr. Féld. 10/2014 eða þegar aflakvóti fer minnkandi en tækifæri eru til kaupa eða annarra ráðstafana sbr. Féld. 14/1996.

Var efnið hjálplegt?