Laun ekki greidd

Meginskylda atvinnurekanda er að greiða starfsmanni laun á gjalddaga. Séu laun ekki greidd hefur atvinnurekandi að öllum líkindum brotið ráðningarsamning á starfsmanni. Skiptir hér ekki máli hvort greiðslufallið stafar af almennum ómöguleika til að greiða eða öðrum ástæðum. Þetta á fortakslaust við þegar laun eru greidd eftir á og starfsmaður hefur uppfyllt skyldur sínar samkvæmt ráðningarsamningi. Úrræði starfsmanns við því að fá ekki laun greidd eru þau sem reglur samningaréttarins kveða á um vegna vanefnda. Ef vanefnd atvinnurekenda er veruleg getur hann t.d. gengið frá ráðningarsamningi á grundvelli brostinna forsendna og hann verður ekki krafinn um efndir á vinnusamningi á meðan laun eru ekki greidd. Hann hefur rétt til að leggja niður störf á vinnustað en mætingarskylda fellur í sjálfu sér ekki niður.  

Til að innheimta ógreitt kaup verður starfsmaður að fara venjulegar réttarfarsleiðir, höfða dómsmál til innheimtu launakröfu, gera fjárnám í eignum atvinnurekanda og láta bjóða þær upp á uppboði til lúkningar skuldinni. Í Hrd. nr. 312/2008 gerði starfsmaður kröfu um orlofsuppbót, desemberuppbót og orlofslaun af ógreiddum launum svo og yfirvinnu vegna nokkurra mánaða og var fallist á kröfur starfsmannsins. Sá sem greiða á kröfuna ber allan kostnað við innheimtu hennar. Greiðsla kemur þó ekki fyrr en við endanlegt uppgjör kröfu. Fram til þess þarf launamaður oft að leggja út í kostnað vegna innheimtunnar.

Félagsmenn stéttarfélaga geta í málum sem þessum leitað aðstoðar stéttarfélaga við innheimtu slíkra krafna. Ef stéttarfélagið telur að krafa sé á rökum reist þarf félagsmaðurinn ekki að leggja sjálfur út fyrir innheimtukostnaði. 

Þegar laun eru greidd fyrirfram kann að skipta máli hvort atvinnurekandi má ætla að meginskyldur ráðningarsamningsins verði ekki efndar. Um þetta var deilt í Félagsdómi í málum nr. 11 og 12, 1984. Þar háttaði svo til að blaðaútgefendur höfðu lagt verkbann á störf blaðamanna frá og með 4. október. Laun fastráðinna blaðamanna eru samkvæmt kjarasamningi greidd fyrirfram. Þann 1. október voru fastráðnum blaðamönnum einungis greidd laun fyrir tímabilið 1.-3. október og vísuðu útgefendur til yfirvofandi verkbanns í því sambandi. Félagsdómur féllst á sjónarmið útgefendanna með þeim ummælum að það væri meginregla í vinnurétti að vinnusamningar aðila, þ.e. vinnuveitenda og launþega, væru gagnkvæmir. Launþegi sem væri í verkfalli ætti ekki rétt til launa fyrir þá daga sem verkfallið stæði, og sama regla gilti um verkbann. Félagsdómur féllst á það með útgefendum að samningsákvæðið um fyrirframgreiðslu launa ætti ekki að skýra svo bókstaflega að það hefði átt að tryggja félagsmönnum Blaðamannafélagsins launagreiðslur fyrir tímabil sem þeir fyrirsjáanlega yrðu í verkbanni. Að svo vöxnu máli hefðu útgefendur því haft rétt til að greiða einungis laun fyrir þá þrjá daga mánaðarins sem fyrirsjáanlegt var að unnið yrði. Var ekki á það fallist að slík óvissa hefði ríkt hinn 1. október, um hvort til verkbanns kæmi, að útgefendum væri skylt að greiða fyrirfram föst laun fyrir allan mánuðinn.

Tengt efni

Var efnið hjálplegt?