Greiðsla launa

Laun skal greiða með peningum. Í lögum um greiðslu verkkaups nr. 28/1930 er kveðið á um að verkkaup skuli greiða með gjaldgengum peningum og að ekki megi skuldajafna kaupi nema svo hafi áður sérstaklega verið um samið. Lagaákvæðið var sett fyrst og fremst til að koma í veg fyrir að atvinnurekendur greiddu starfsmönnum sínum laun í fríðu þ.e. með vörum, fatnaði, húsnæðisafnotum eða þess háttar. Í dag kemur ákvæðið einnig í veg fyrir að greiðslurnar séu ekki skattlagðar eða af þeim ekki skilað iðgjöldum til lífeyrissjóða og kjarasamningsbundinna sjóða stéttarfélaganna o.fl. eins og gera ber þegar laun eru greidd með peningum.  

Í Hrd. nr. 209/1969 var dæmt að samkvæmt 1. gr. laga nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups eigi launamaður réttarkröfu til þess að honum sé greitt verkkaup í gjaldgengum peningum. Að öðru leyti fjalla lögin ekki um form á greiðslu. Í áranna rás hafa greiðsluhættir breyst og algengt er að kaup sé greitt inn á bankareikning viðkomandi. Sums staðar hefur verið um þetta samið í kjarasamningum. Þar sem ekki hefur verið um þetta samið með beinum eða óbeinum hætti gildir enn reglan í lögunum um greiðslu verkkaups og launamaður þarf ekki að sætta sig við greiðslu launa í öðru en gjaldgengum peningum þ.e. í reiðufé.

Var efnið hjálplegt?