Skattar

Launagreiðanda ber að halda eftir staðgreiðslu af launum starfsmanna sinna. Staðgreiðsla launamanns af launum nær til tekjuskatts samkvæmt lögum um tekjuskatt og útsvars samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Í 15. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, segir að þegar  ákvörðun launa launamanns fyrir hvert greiðslutímabil að meðtöldu orlofsfé er lokið, skuli bætt við þau skattskyldum hlunnindum samkvæmt mati ríkisskattstjóra. Af þannig ákvörðuðum launum greiðslutímabilsins ber launagreiðanda að reikna staðgreiðslu launamanns vegna greiðslutímabilsins, að teknu tilliti til persónuafsláttar. Greiðslutímabil launa til launamanns ákvarðast með hliðsjón af ákvæðum kjarasamninga þar um. Ekkert launatímabil skal þó teljast lengra en einn mánuður, sbr. 14. gr. laganna.

Launagreiðanda ber síðan samkvæmt 20. gr. laganna ótilkvaddur að greiða mánaðarlega það fé sem hann hefur haldið eftir eða bar að halda eftir á greiðslutímabilum næstliðins mánaðar. Samkvæmt 92. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt ber launagreiðanda að afhenda ótilkvaddur skattstjóra skýrslu um greiðslur þessar og í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Sama gildir um greiðslur til verktaka fyrir efni og vinnu. 

Standi launagreiðandi ekki skil á greiðslum er slíkt refsivert skv. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Í 1. mgr. 30. gr. segir að skýri gjaldskyldur maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju því er máli skiptir um staðgreiðsluskil hans skal hann greiða fésekt allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem vanrækt var greiðsla á og aldrei lægri fésekt en nemur tvöfaldri skattfjárhæðinni. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ábyrgð á vanteknum gjöldum

Í 22. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda kemur fram að launagreiðandi ber ábyrgð á þeim opinberu gjöldum sem hann hefur haldið eftir eða bar að halda eftir samkvæmt lögum þessum. Launamaður ber hins vegar ekki ábyrgð á greiðslu opinberra gjalda sem hann sannar að launagreiðandi hafi haldið eftir af launum hans. Það gerir hann fyrst og fremst með því leggja fram launaseðla þar sem fram kemur að staðgreiðsla hefur verið dregin af launum hans. Launagreiðandi og launamaður bera hins vegar óskipta ábyrgð á vanteknum opinberum gjöldum.

Mörk á frádrætti

Í 2. gr. reglugerðar um launaafdrátt nr. 124/2001 segir að launagreiðendur skuli aldrei halda eftir hærri fjárhæð en sem nemur 75% af heildarlaunagreiðslum hverju sinni til greiðslu á gjöldum samkvæmt 1. gr. hennar, að viðbættum lögbundnum iðgjöldum og meðlögum þannig að tryggt sé að launþegi haldi eftir 25% af heildarlaunagreiðslum. Lífeyrissjóðsiðgjöld umfram 4% af iðgjaldastofni falla ekki undir þessa reglu. Afdráttur af launum vegna staðgreiðslu skal ávallt ganga fyrir afdrætti vegna eldri skattskulda. Þetta þýðir að séu skattaskuldir meiri en nemur 75% af launagreiðslum, ganga nýjustu greiðslur upp á móti staðgreiðslunni en eldri skuldir mæta afgangi. 

Sjá nánar heimasíðu Ríkisskattstjóra www.rsk.is

Var efnið hjálplegt?