Meðlög

Meðlagsskuldir má og ber að draga af kaupi sé þess krafist. Samkvæmt lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga nr. 54/1971 annast stofnunin meðlagainnheimtu hjá foreldrum. Þá kemur fram í lögunum að barnsföður sé skylt að endurgreiða stofnuninni meðlag með barni sínu með þeim hætti sem stofnunin krefst.

Í lögunum segir ennfremur að ef vanrækt er að verða við innheimtukröfu geti stofnunin m.a. krafið launagreiðanda um að halda eftir hluta af kaupi eða aflahlut til lúkningar meðlögum. Slíkar kröfur ganga fyrir öðrum kröfum, þar á meðal kröfum sveitarsjóða og innheimtumanna ríkissjóðs. Kaupgreiðendur skulu halda slíku innheimtufé aðgreindu frá eigin fé.

Vanræki kaupgreiðandi að verða við slíkri kröfu ber hann ábyrgð gagnvart Innheimtustofnuninni allt að þeirri fjárhæð sem hann hefur greitt barnsföður, eins og segir í lögunum, eftir að krafa stofnunarinnar barst honum. Sama gildir ef kaupgreiðandi tekur ekki tilskilda fjárhæð af kaupi eða aflahlut eða ef hann skilar ekki innheimtu meðlagsfé innan hálfs mánaðar.

Samkvæmt reglugerð um innheimtu og skil á meðlögum og fleira á vegum Innheimtustofnunar sveitarfélaga nr. 491/1996, skulu launagreiðendur þó aldrei halda eftir meiru en nemur 50% af heildarlaunagreiðslu hverju sinni til greiðslu á meðlögum sem kaupgreiðanda er skylt að halda eftir af launum viðkomandi.

Stjórn Innheimtustofnunar getur heimilað, ef þess er óskað, að einungis verði innheimt, mánaðarlega, fjárhæð sem nemi þremur barnsmeðlögum hjá þeim sem greiða meðlag er nemur hærri fjárhæð en þremur barnsmeðlögum og búa við sérstaka félagslega erfiðleika. Stjórn Innheimtustofnunar er og heimilt í þessum tilvikum, verði eftir því leitað, að fella niður dráttarvexti af þeim meðlagsgreiðslum sem frestað yrði að svo stöddu að innheimta.

Sjá nánar upplýsingar á heimasíðu Innheimtustofnunar sveitarfélaga www.medlag.is

Var efnið hjálplegt?