Bann við mismunun

Hvers kyns mismunun eftir kynferði, hvort heldur bein eða óbein, er óheimil.

Þó teljast sérstakar tímabundnar aðgerðir sem ætlaðar eru til að bæta stöðu kvenna eða karla til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna ekki ganga gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008. Þá teljast aðgerðir til að auka möguleika kvenna eða karla sérstaklega til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna ekki ganga gegn lögunum. Sama á við ef nauðsynlegt telst að ráða annað kynið vegna hlutlægra þátta er tengjast starfinu.

Það telst ekki mismunun að taka sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar og barnsburðar.

Bann við mismunun í kjörum

Atvinnurekendum er óheimilt að mismuna starfsfólki sínu í launum og öðrum kjörum á grundvelli kynferðis þess.

Ef leiddar eru líkur að því að kona og karl sem starfa hjá sama atvinnurekanda njóti mismunandi launa eða annarra kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf skal atvinnurekandi sýna fram á, ef um mun er að ræða, að hann skýrist af öðrum þáttum en kynferði.

Í Hrd. nr. 258/2004 taldi kona sem gegndi starfi deildarstjóra á félagsmálastofnun sveitarfélagsins starf sitt og starf deildartæknifræðings hjá sama sveitarfélagi jafnverðmæt, en í starfsmati sem fram fór á nokkrum störfum hjá sveitarfélaginu, þar á meðal á framangreindum tveimur störfum, voru störfin metin til sama stigafjölda. Að mati Hæstaréttar voru verulegar líkur leiddar að því að þessi tvö störf hafi verið svo sambærileg að inntaki og ytri búnaði, að konunni hefði verið mismunað í kjörum hjá sveitarfélaginu í skilningi jafnréttislaga. Sú staðreynd að viðkomandi starfsmenn tóku ekki laun samkvæmt sama kjarasamningi var ekki talin geta ekki réttlætt mismun starfskjara kvenna og karla í skilningi jafnréttislaga. 

Í Hrd. nr. 11/2000 taldi kona sem gegndi starfi jafnréttis- og fræðslufulltrúa hjá sveitarfélaginu atvinnurekanda hafa mismunað sér í launum á grundvelli kynferðis. Bar hún starf sitt saman við við starf atvinnufulltrúa er vann hjá sveitarfélaginu. Fram kom í málinu að heildarlaun atvinnumálafulltrúans fram til mars 1997 hafi að meðtöldum greiðslum fyrir 33 fasta yfirvinnutíma auk orlofs á yfirvinnu verið 250.891 króna. Þá hafi hann fengið greitt fyrir 600 km akstur á mánuði, 34,55 krónur fyrir hvern kílómetra. Á sama tíma hafi jafnréttis- og fræðslufulltrúi fengið 172.895 krónur á mánuði að meðtöldum greiðslum fyrir 22 fasta yfirvinnutíma auk orlofs á þá. Fyrir akstur hafi verið greitt samkvæmt akstursbók, 34,55 krónur fyrir hvern ekinn kílómetra.

Hæstiréttur kemst svo að orði að við úrlausn þess, hvort störf teljist jafnverðmæt og sambærileg í skilningi jafnréttislaga, verði að byggja á heildstæðu mati og því geti verið um slík störf að ræða þótt einstaka þættir þeirra kunni að vera ólíkir. Þá náist markmið jafnréttislaga ekki, ef launajöfnuður á einungis að ná til fólks innan sömu starfsstéttar, en óhjákvæmilegt sé, að samningsfrelsi á vinnumarkaði sæti þeim takmörkunum, er leiði af ákvæðum jafnréttislaga þannig skýrðum. Í málinu voru verulegar líkur leiddar að því, að störf jafnréttis- og fræðslufulltrúa og atvinnumálafulltrúa hjá Akureyrarbæ hefðu verið svo sambærileg að inntaki og ytri búnaði, að konunni hefði verið mismunað í kjörum.

Bann við mismunun við ráðningu, uppsögn og í vinnuskilyrðum

Atvinnurekendum er óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Sama gildir um stöðuhækkun, stöðubreytingar, endurmenntun, starfsþjálfun, námsleyfi, uppsögn, vinnuaðstæður og vinnuskilyrði starfsmanna.

Óheimilt er að auglýsa eða birta auglýsingu um laust starf þar sem gefið er í skyn að fremur sé óskað starfsmanns af öðru kyninu en hinu. Þetta ákvæði gildir ekki ef tilgangur auglýsandans er að stuðla að jafnari kynjaskiptingu innan starfsgreinarinnar og skal það þá koma fram í auglýsingunni. Sama á við ef gild rök mæla með því að einungis sé auglýst eftir öðru kyninu.

Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis við ráðningu, setningu eða skipun í starf, stöðuhækkun, stöðubreytingar, endurmenntun, starfsþjálfun, námsleyfi, uppsögn, vinnuaðstæður eða vinnuskilyrði skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.

Í Hrd. nr. 134/1996 var deilt um hvort við uppsögn konu úr starfi innkaupamanns sérvöru hjá Hagkaup hafi verið mismunað eftir kynferði. Skipulagsbreytingar voru gerðar á innkaupasviði og var starfsmönnum fækkað um einn. Valið stóð á milli konu og karlmanns með sambærilega menntun en skemmri starfsaldur. Hjá Hæstarétti kom fram að það væri gagnáfrýjanda, þ.e. atvinnurekandans, að sýna fram á að uppsögnin hafi ekki falið í sér kynjamismunun í skilningi þágildandi jafnréttislaga. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a.:

Fallast má á það með kærunefnd jafnréttismála, að eðlilegt sé að skoða kynjahlutfall innan fyrirtækis í víðara samhengi og binda sig ekki við eina deild stórs fyrirtækis, þegar hugað er að framkvæmd jafnréttislaga nr. 28/1991. Ágreiningur er hins vegar um það með aðilum, hvort einhver önnur störf innan fyrirtækisins séu sambærileg, og nýtur ekki skýrra gagna um það. Mat á því, hvað telja beri sambærileg störf, verður að telja erfiðleikum háð, og verður það ekki eingöngu lagt á gagnáfrýjanda (þ.e. atvinnurekanda) að afla upplýsinga um það.

Hæstiréttur benti á að í innkaupadeild sérvöru hallaði mjög á karlmenn og skipulagsbreytingarnar höfðu meiri áhrif á starfssvið konunnar. Þótti því nægilega sýnt fram á að konunni hefði ekki verið mismunað eftir kynferði. Hæstiréttur tók þó fram að við takmarkaðar skipulagsbreytingar ættu að vera tök á því að leita fyrst annarra leiða áður en til uppsagna starfsfólks kæmi. Konan hafi verið kunnug starfsemi fyrirtækisins en engin gögn hafi verið lögð fram í málinu um að henni hafi verið boðið sambærilegt starf.

Í Hrd. nr. 39/2004 voru málsatvik á þá leið að við stofnun Neyðarlínunnar í ársbyrjun 1996 var kona ráðin til starfa með skriflegum ráðningarsamningi sem einn af fjórum neyðarvörðum. Hafði hún þá próf frá Lögregluskóla ríkisins og nokkra starfsreynslu sem lögreglumaður. Starfsemi Neyðarlínunnar jókst fljótt og strax um haustið 1996 var starfsfólki skipað á  fjórar vaktir, A, B, C, og D. Var þeim sem fyrstir hófu störf falin stjórn vaktanna og tóku þeir laun sem vaktstjórar án þess að ráðningarsamningum þeirra væri breytt. Konan stjórnaði þannig A vakt. Um áramótin 1999/2000 voru starfsmenn orðnir 16 – 18 og skipt hafði verið um framkvæmdastjóra. Ákvað hann að auglýsa fjórar stöður varðstjóra og leggja í staðinn niður störf vaktstjóra. Konan sótti um eitt þessara starfa, en ráða átti í þau frá 1. febrúar 2000. Veruleg töf varð hins vegar á því að ráðið yrði í stöðurnar. Framkvæmdastjórinn kallaði konuna til fundar við sig 30. ágúst sama ár og skýrði henni frá því að hún ætti að láta af störfum sem vaktstjóri og starfa framvegis sem almennur neyðarvörður. Aðrir vaktstjórar fengu þær varðstjórastöður, sem þeir höfðu í raun gegnt. Þeir voru allir karlmenn. Framkvæmdastjórinn boðaði konuna á ný til fundar og var hann haldinn 5. september. Var henni þá kynnt að fyrrum undirmaður hennar, sem var karlmaður, yrði varðstjóri A vaktar en hún ætti að flytjast á D vakt. Konan var ekki sátt við þessa tilhögun og endaði fundurinn svo að framkvæmdarstjórinn afhenti henni uppsagnarbréf, sem hann prentaði úr tölvu sinni á staðnum, og konan afhenti sömuleiðis uppsagnarbréf, sem hún hafði undirbúið og var dagsett 1. september. Ekki var frekar óskað eftir starfskröftum hennar en henni greitt kaup vaktstjóra út uppsagnartíma.

Kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu að Neyðarlínunni hefði ekki tekist að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hefðu legið til grundvallar þeirri ákvörðun að segja konunni upp störfum eftir að hún hafnaði flutningi í stöðu almenns neyðarvarðar.  Hæstiréttur staðfesti þessa niðurstöðu og sagði að Neyðarlínan hefði gerst brotleg við 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þegar gengið var fram hjá konunni við ráðningu í starf varðstjóra. Þótti helst mega ráða að framkvæmdastjórar fyrirtækisins hefðu ekkert hugað að ákvæðum laganna við ráðninguna, svo sem þeim bar að gera. Af málsatvikum var talið ljóst að konan hafði í raun orðið fyrir fjártjóni og með vísan til 24. gr., sbr. 28. gr. laga nr. 96/2000 var nægjanlega fram komið að það stafaði að því hvernig staðið var að umræddri ráðningu. Var Neyðarlínan var því dæmd til greiðslu skaðabóta, sem metnar voru að álitum. 

Í dómi Hæstaréttar nr. 330/2003 var fjallað um ráðningu leikhússtjóra hjá Leikfélagi Akureyrar en á árinu 2002 var karlmaður ráðinn leikhússtjóri. Kona sem var meðal umsækjenda um starfið taldi að henni hefði verið mismunað við ráðninguna á grundvelli kynferðis síns. Kærði hún ráðninguna til kærunefndar jafnréttismála og komst nefndin að þeirri niðurstöðu að Leikfélagið hefði brotið gegn 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 þegar það réð karlinn til starfans en ekki viðkomandi konu.

Í Hæstarétti segir m.a. að það sé meginregla vinnuréttar, að atvinnurekandi hafi um það frjálsar hendur, hvern hann velji til starfa í sína þágu. Því vali séu þó settar skorður, sem leiddar verði af ákvæðum laga nr. 96/2000, þegar kona og karl sæktu um sama starfið. Þótt konan hefði að baki lengra háskólanám en karlinn hafi ekki verið gert líklegt að það nám eða önnur reynsla nýtist henni þannig, að hún yrði talin jafnhæf eða hæfari honum til að stjórna leikhúsi. Leikhúsráðið hafi metið það svo á grundvelli umsóknargagna og viðtala við umsækjendur að menntun og reynsla karlsins, sem nær öll hafi verið á sviði leiklistar, auk sjónarmiða um listræn stefnumið í leikhúsinu og fjármál og rekstur þess, hafi skipaði honum framar en konunni við ákvörðun um ráðninguna. Að mati Hæstaréttar taldist konan ekki hafa sýnt fram á að þetta mat hafi verið ómálefnalegt og var því ekki fallist á að henni hefði verið mismunað eftir kynferði. 

Skipan sendiráðsprests í London var til umfjöllunar í Hrd. nr. 195/2006. Hæstiréttur taldi að kona sem var meðal umsækjanda um starfið hefði sýnt fram á að starfsreynsla hennar og menntun hefðu nýst henni þannig að hún hafi verið karlinum, sem fékk stöðuna, jafnhæf eða hæfari til að gegna umræddu embætti. Fram var komið að engin kona gegndi prestsembætti erlendis og hafði Íslenska þjóðkirkjan  ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hefðu legið til grundvallar þeirri ákvörðun að skipa karlinn í embættið. Var því talið að brotið hefði verið gegn 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna með skipuninni. Að þessu virtu og þar sem leiddar höfðu verið nægilegar líkur að því að konan hefði orðið fyrir fjárhagstjóni sem Íslenska þjóðkirkjan bæri ábyrgð á var fallist á kröfu hennar.

Í Hrd. nr. 25/2009 var ráðning í starf lektors eða dósents í tölvunarfræði við tölvunarfræðiskor í verkfræðideild H til skoðunar. Að áliti dómnefndar voru tveir umsækjendur, konan A og karlinn K, taldir hæfir til að gegna stöðu dósents. Verkfræðideild H fékk dómnefndarálitið til umfjöllunar og var það tekið fyrir á deildarfundi 8. júní 2005. Á fundinum var samþykkt að mæla með því að K yrði ráðinn í stöðuna og óskað eftir því að það yrði gert í bréfi deildarforseta til rektors 23. júní sama ár. Í bréfinu kom fram að mat meirihluta fundarmanna hefði verið að það sjónarmið sem vægi þyngst við ákvörðun um ráðstöfun starfsins væri þörf verkfræðideildar fyrir kennslu í grunnnámi, en að teknu tilliti til þess væri K hæfasti umsækjandinn í starfið. Af hálfu rektors var óskað eftir ítarlegri rökstuðningi fyrir þessu og var hann veittur á grundvelli samþykktar deildarfundar 14. október 2005. Að þessum rökstuðningi fengnum féllst rektor á tillögu deildarinnar. J höfðaði síðar mál fyrir hönd A og krafðist þess að viðurkennt yrði að H hefði með því að ganga fram hjá A við ráðningu í stöðuna brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000. Þá var krafist viðurkenningar á skaðabótaskyldu H vegna fyrrgreindrar ráðningar og greiðslu miskabóta. Talið var að við mat á því hver af hæfum umsækjendum teldist hæfastur til að gegna starfi dósents yrði að teljast lögmætt sjónarmið að leggja mesta áherslu á kennsluþáttinn, eins og gert hafi verið af hálfu verkfræðideildar. Deildarfundur hefði á þessum grunni metið K hæfari en A og bæri að hafna því að matið byggðist á ómálefnalegum forsendum eða væri bersýnilega rangt. Var hvorki fallist á að brotnar hefðu verið reglur stjórnsýslulaga né að leiddar hefðu verið líkur að því að beinni eða óbeinni mismunun hefði verið beitt vegna kynferðis við ráðningu í starfið. Var því hafnað að brotið hefði verið gegn þágildandi lögum nr. 96/2000 og H sýknaður af kröfum J.

Sjá einnig Hrd. 121/2002. Íslenska ríkið gegn Kolbrúnu Sævarsdóttur. Auglýsing starfs og stöðuveiting hjá hinu opinbera

 

Var efnið hjálplegt?