Jafnrétti á vinnumarkaði

Öll mismunun á grundvelli kyns, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti er bönnuð sbr. 65.gr. stjórnarskrár Íslands. Krafan um jafnræði launafólks á vinnumarkaði án tillits til þátta sem ekki varða hæfni launafólks eða verðmæti vinnuframlags þess er ein af grundvallarkröfum verkalýðshreyfingarinnar. Stéttarfélög eru bundin af þessari meginreglu og semja ekki um ólík kjör félagsmanna sinna á grundvelli kynferðis eða annarra þátta sem hafa ekkert með stöðu þeirra á vinnumarkaði að gera. 

Þessi grundvallarregla er undirstrikuð sérstaklega í lögum um starfskjör launafólks nr. 55/1980 en þar segir að laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skulu vera lágmarkskjör óháð kyni [...] fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til. 

Á alþjóðavettvangi hefur Ísland skuldbundið sig með ýmsum hætti til þess að fylgja eftir af festu almennu banni við mismunun enda eru íslenskir ríkisborgar og það fólk sem hér vinnur af ólíkum uppruna. Sumir mismunar þættir hafa þó fengið minni athygli en aðrir. Það á meðal annars við mismunun gagnvart alnæmissmituðum sem oftar en ekki er byggð á ótta og þekkingarskorti. Sjá um þetta efni t.d. fræðslurit ILO fyrir lögfræðinga og dómara, Alnæmi, Aids og réttindi á vinnumarkaði

Fatlaðir eiga eiga og hafa löngum átt erfitt um aðgang að vinnumarkaði. Fatlað fólk er ekki einsleitur hópur. Það getur verið líkamlega fatlað, heyrnar eða sjónskert, greindarskert eða haldið miklum geðrænum sjúkdómum. Það getur verið fatlað frá fæðingu, barnæsku, unglingsaldri eða síðar í lífinu, í námi eða starfi. Fötlun þess getur haft lítil áhrif á getu til vinnu og þátttöku í samfélaginu, en einnig haft mikil áhrif, sem gerir það að verkum að það þarfnast talsverðs stuðnings og aðstoðar. Um allan heim er fatlað fólk að leggja til og taka þátt í heimi vinnunnar. Vegna ýmissa hindrana fá hins vegar margir fatlaðir einstaklingar sem vilja vinna ekki tækifæri til vinnu. Alþjóðavinnumálastofnunin – ILO, samþykkti leiðbeiningarreglur um hvernig með fötlun á vinnustað skuli fara. Markmið þeirra reglna er að leggja til hagnýta leiðsögn um fötlunarstjórnun á vinnustað  með því að tryggja að fatlað fólk njóti  jafnra tækifæra á vinnustað;  að fjölga atvinnutækifærum fatlaðra  með því að auðvelda ráðningu þeirra, endurkomu á vinnumarkað og að þeir haldi störfum og tækifærum til framgangs í starfi; að stuðla að öruggum og heilsusamlegum vinnustað; að tryggja að kostnaður atvinnurekenda vegna fötlunar starfsmanna sé í lágmarki, þar á meðal í sumum tilvikum gjöld vegna heilsugæslu  og trygginga; að hámarka það framlag sem fatlað launafólk getur lagt til fyrirtækisins.  ASÍ þýddi og gaf reglur þessar út. Þær er að finna hér: „Fötlunarstjórnun á vinnustað – Viðmiðunarreglur ILO“

Á undanförnum árum hefur einnig aukist áhersla á bann við mismunun á grundvelli aldurs og hefur Evrópudómstóllinn skýrt mjög þá grundvallarreglu inn Evrópuréttarins og gildi tilskipunar 2000/78/EB (jöfn meðferð á vinnumarkaði) m.a. þannig að hún geti ráðið niðurstöðu í viðskiptum einstaklinga (bein réttaráhrif) þrátt fyrir andstætt ákvæði í landsrétti sbr. t.d. dóm í málinu C-441/14.  Íslandi var hins vegar ekki skylt að innleiða þessa tilskipun né heldur tilskipun 2000/43/EB (jöfn meðferð án tillits til kynþáttar eða þjóðernis) en gerðu það engu að síður seint og um síðir sbr. lög nr. 86/2018 og lög nr. 85/2018.  
Á þessum vefhluta er hins vegar og að svo stöddu megináherslan lögð á bann við mismun á grundvelli kynferðis en vænta má verulegra breytinga á lögfræðilegri umfjöllun í vinnurétti um mismunun vegna annarra þátta á næstu misserum og árum. 

Eins og fyrr segir, hefur um árabil verið lögð sérstök áhersla á að uppræta mismunun á grundvelli kynferðis. Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 er fjallað mjög ítarlega um stöðu einstaklinga út frá sjónarmiðum um jafnrétti. Í lögunum er ekki aðeins fjallað um jafnrétti launafólks heldur er markmið laganna að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.

Í upphafsákvæði laganna segir að allir einstaklingar skuli eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kynferði. Markmiði þessu skal náð með því að:

a. gæta jafnréttissjónarmiða og vinna að kynjasamþættingu í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum samfélagsins,
b. vinna að jöfnum áhrifum kvenna og karla í samfélaginu,
c. bæta sérstaklega stöðu kvenna og auka möguleika þeirra í samfélaginu,
d. vinna gegn launamisrétti og annarri mismunun á grundvelli kyns á vinnumarkaði,
e. gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf,
f. efla fræðslu um jafnréttismál,
g. greina tölfræðiupplýsingar eftir kyni,
h. efla rannsóknir í kynjafræðum,
i. vinna gegn kynbundnu ofbeldi og áreitni,
j. breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla.

Tengt efni

Var efnið hjálplegt?