Kröfur launamanna

Ábyrgðarsjóður launa ábyrgist greiðslu á kröfum um vangoldin laun, bætur vegna slita á ráðningarsamningi, orlof, bætur vegna vinnuslysa og lífeyrisiðgjöld í bú vinnuveitanda sem hefur staðfestu og rekur starfsemi hér á landi.

Ábyrgð sjóðsins er almennt háð því skilyrði að kröfur starfsmanna hafi verið viðurkenndar sem forgangskröfur skv. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., með fyrirvara þó um takmarkanir og frávik sem kveðið er nánar á um í II.–IV. kafla laganna nr. 88/2003 um Ábyrgðasjóð launa.

Vinnulaun

Ábyrgðarsjóður launa ábyrgist kröfu launamanns um vangoldin vinnulaun fyrir síðustu þrjá starfsmánuði hans í þjónustu vinnuveitanda. Til vinnulauna teljast greiðslur vegna umsamins vinnuframlags launamanns, þ. á m. launauppbætur, í hlutfalli við þann tíma sem krafa nýtur ábyrgðar sjóðsins.

Síðustu þrír starfsmánuðir manns hjá vinnuveitanda þurfa ekki nauðsynlega að vera síðustu þrír mánuðir fyrir gjaldþrot, heldur eitthvert fyrra tímabil.

Kröfur um endurgreiðslu útlagðs kostnaðar, svo sem vegna ferða launamanns í þágu vinnuveitanda, njóta almennt ekki ábyrgðar sjóðsins.

Orlofslaun

Ábyrgðarsjóður launa ábyrgist kröfu launamanns um vangoldin orlofslaun sem launamaður á rétt á samkvæmt lögum, kjarasamningi eða venju, og áunnin eru á ábyrgðartímabili, sbr. 4. gr. laganna.

Bætur vegna launa í uppsagnarfresti

Ábyrgðarsjóður ábyrgist kröfu um bætur vegna launamissis í allt að þrjá mánuði vegna slita á ráðningarsamningi að því tilskildu að kröfuhafi sýni fram á með ótvíræðum hætti, svo sem með skráningu hjá hinni opinberri vinnumiðlun, að hann hafi verið á vinnumarkaði og ástundað virka atvinnuleit í uppsagnarfresti. Starfsmaður getur einnig uppfyllt kröfur um virka atvinnuleit með því að leggja fram gögn frá einkarekinni vinnumiðlun er staðfesta að hann hafi leitað þjónustu hennar og hún liðsinnt honum með kerfisbundnum hætti a.m.k. það tímabil sem svarar til uppsagnarfrests hans.

Bætur vegna launa á uppsagnarfresti verður að skilgreina út frá reglum skaðabótaréttarins og líta til þess tjóns sem starfsmaður varð fyrir. Líta verður til ráðningarsamnings starfsmannsins og þess hvaða laun hann hefði sannanlega haft hefði hann verið í starfi. Starfsmaðurinn á rétt á greiðslum á umsömdum launum sínum samkvæmt ráðningarsamningi og fastri umsaminni yfirvinnu. Sveiflukennd tilfallandi yfirvinna greiðist ekki á uppsagnarfresti.

Bætur vegna launamissis á uppsagnarfresti greiðast í allt að þrjá mánuði vegna uppsagnar eða riftunar ráðningarsamnings. Þetta er framkvæmt eftir orðanna hljóðan og ákvæði laga nr. 19/1979 um að uppsögn skuli miðast við mánaðamót gilda ekki um þessi tilvik. Hætti maður störfum samkvæmt ákvörðun bústjóra í kjölfar gjaldþrots, nær bótarétturinn því til allt að þriggja almanaksmánaða frá gjaldþrotaúrskurði. Verði fyrirtæki til dæmis gjaldþrota 5. janúar á starfsmaður með þriggja mánaða uppsagnarfrest rétt til launa úr ábyrgðasjóði til 5. apríl en ekki út aprílmánuð, eins og kjarasamningar og lög um uppsagnarfrest segja til um.

Í Hrd. 1988:518 gerði stýrimaður kröfu til launa á uppsagnarfresti út marsmánuð en fyrirtæki varð gjaldþrota 6. desember, þar sem uppsagnarfrestur hafði byrjað að líða frá og með næstu mánaðamótum eftir 6. desember. Dómurinn féllst ekki á þessi rök þar sem uppsögn hefur réttaráhrif frá því hún berst viðtakanda og upphaf hennar í þessu tilviki miðast ekki við önnur tímamörk samkvæmt lögum eða samningi.

Laun í uppsagnarfresti

Afli starfsmaður sér annarra launatekna á því tímabili sem hann gerir kröfu til dragast þær tekjur frá kröfunni. Grundvallast þetta á þeirri reglu skaðabótaréttarins að starfsmaður á rétt á að fá fjárhagslegt tjón bætt en hann getur aldrei orðið betur settur en hann ella hefði orðið ef tjón hefði ekki orðið. Til að sannreyna launatekjur þeirra sem gera kröfur á sjóðinn er leitað eftir upplýsingum frá ríkisskattstjóra um staðgreiðsluskil.

Virk atvinnuleit

Enn eitt skilyrði fyrir greiðslu bóta vegna launamissis á uppsagnarfresti er að starfsmaður sýni fram á að hann hafi leitað eftir annarri atvinnu þann tíma sem bóta er krafist. Þannig dragi hann úr tjóni sínu svo sem kostur er. Vottorð hinnar opinberu vinnumiðlunar á hverjum stað er almennt talið nægjanlegt, en einnig má færa sönnur á þetta atriði með öðru móti, s.s. með staðfestingu einkarekinnar vinnumiðlunar.

Bætur vegna vinnuslysa

Ábyrgðarsjóður launa ábyrgist kröfu launamanns um bætur vegna tjóns af völdum vinnuslyss og kröfu þess sem tilkall á til bóta vegna dauðsfalls launamanns, enda taki tryggingar vinnuveitanda ekki til bótakröfunnar.

Hafi ekki fallið dómur um réttmæti kröfunnar á Ábyrgðarsjóður launa sömu varnir og vinnuveitandi óháð því hvort skiptastjóri hafi viðurkennt kröfu sem forgangskröfu í þrotabú vinnuveitanda.

Var efnið hjálplegt?