Virk atvinnuleit / Starfi hafnað

Í lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er gerð skýr krafa um að þeir sem fá greiddar atvinnuleysisbætur leggi sig fram um að finna nýtt starf, þ.m.t. að þeir nýti sér aðstoð, leiðbeiningar og þau úrræði sem vinnumiðlun býður upp á í þeim tilgangi að styrkja stöðu þeirra á vinnumarkaði til framtíðar.

Í lögunum er þessi krafa orðuð á þann hátt að sá sem fær greiddar atvinnuleysisbætur skuli vera í virkri atvinnuleit, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. og 14. gr.

Í 14. gr. er virkri atvinnuleit lýst með upptalningu í átta liðum á þeim atriðum sem skipta máli í þessu sambandi. Samkvæmt ákvæðinu þarf atvinnuleitandi að:

 • vera fær til flestra almennra starfa,
 • hafa frumkvæði að starfsleit og vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum og uppfyllir skilyrði laga á vinnumarkaði.
 • hafa vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara,
 • vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi,
 • vera reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða eða vaktavinnu,
 • eiga ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann telst vera í virkri atvinnuleit nema ákvæði 17. gr. (hlutastörf) eða 22. gr. (sjálfstætt starfandi einstaklingar) eigi við,
 • hafa vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða, og
 • vera reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum.

Með umsókn um atvinnuleysisbætur undirgengst umsækjandi þær kröfur sem fram koma í 14. gr. laganna. Hann samþykkir jafnframt að vinnumiðlun hafi eftirlit með því að hann uppfylli þessi skilyrði þann tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur.

Undanþágur 

Vinnumálastofnun er heimilt að veita undanþágu frá skilyrðum b-, d- og e-liðar 1. mgr. 14. gr. þannig að umsækjandi, sem vegna aldurs, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima óskar eftir hlutastarfi eða starfi innan tiltekins svæðis, geti talist vera í virkri atvinnuleit. Enn fremur er heimilt að taka tillit til aðstæðna hins tryggða sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt mati sérfræðilæknis.

Í athugasemdum með 14. gr. laganna segir að skýra beri heimildir til að veita slíkar undanþágur þröngri lögskýringu.

Biðtími vegna höfnunar starfs

Samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar er meginreglan sú að það varðar hinn tryggða missi bótaréttar í 40 bótadaga ef starfi er hafnað eftir að hann hefur verið atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Sama á við þegar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað.

Reglur um biðtíma, ítrekunaráhrif o.s.frv. eru þær sömu og gilda þegar um uppsögn starfs er að ræða án gildra ástæðna. Sjá umfjöllun um það efni í kaflanum Uppsögn án gildra ástæðna.

Undanþágur

Fyrstu 4 vikur í atvinnuleysi

Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur á ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að 40 dögum liðnum. Af þessari reglu er dregin sú ályktun að hinum tryggða sé heimilt að hafna atvinnutilboðum vinnumiðlunar fyrstu 4 vikurnar þar eð höfnun hans varði hann engum viðurlögum.

Hlutastarf eða starf innan tiltekins svæðis

Vinnumálastofnun er eins og áður segir heimilt samkvæmt 2. mgr. 14. gr. að veita undanþágu frá skilyrðum b-, d- og e-liðar 1. mgr. 14. gr., þannig að umsækjandinn teljist engu að síður fullnægja skilyrðum laganna um virka atvinnuleit þó hann vegna:

 • aldurs,
 • félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni, eða 
 • umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima

óskar eftir hlutastarfi eða starfi innan tiltekins svæðis.

Enn fremur er heimilt að taka tillit til aðstæðna hins tryggða sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt mati sérfræðilæknis.

Gildar ástæður fyrir höfnun starfs

Vinnumálastofnun leggur mat á það hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna framangreindra ástæðna. Miklu skiptir að hinn tryggði geri grein fyrir þessum ástæðum við umsókn eða síðar ef breytingar verða á högum hans.

Aldur

Vegna aldurs getur umsækjandi um atvinnuleysisbætur fengið samþykki Vinnumálastofnunar fyrir því að atvinnuleit hans verði bundin við hlutastörf eða störf innan tiltekins svæðis. Væntanlega yrði frekar fallist á slíka beiðni vegna eldri launamanna en þegar um unga einstaklinga er ræða, nema önnur atriði komi þar til viðbótar.

Hafi umsækjandi ekki gert fyrirvara vegna aldurs þegar hann sækir fyrst um atvinnuleysisbætur getur hann engu að síður borið það atriði fyrir sig síðar telji hann að starf sem honum er boðið vera þess eðlis að hann geti ekki þegið það sökum aldurs.

Ungur aldur bótaþega getur haft þýðingu ef um er að ræða ungmenni undir 18 ára aldri og um er ræða starf sem viðkomandi er óheimilt að vinna samkvæmt reglum um vinnu barna og ungmenna. Þarf í slíku tilviki ekki að skoða það nánar hvort viðkomandi einstaklingur teljist engu að síður líkamlega þannig á sig kominn að hann gæti þegið viðkomandi starf.

Hár aldur bótaþega ásamt skertri vinnufærni getur einnig leitt til þeirrar niðurstöðu að höfnun starfs teljist réttmætt.

Félagslegar aðstæður / barnagæsla o.fl.

Samkvæmt ATVL skal Vinnumálastofnun leggja mat á það hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima.

Umönnunarskylda vegna ungra barna kemur helst til álita þegar um einstæðar mæður er ræða og í boði er starf utan dagvinnutímabils skv. kjarasamningi.

Á umönnunarskyldu barns reyndi í úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 4/2007 en í því máli hafði konu verið synjað um atvinnuleysisbætur með vísan til þess að hún væri ekki í virkri atvinnuleit þar sem hún hefði ekki gæslu fyrir barnið sitt. Úrskurðarnefndin hratt þessu áliti Vinnumálastofnunar á þeim forsendum að konan gæti útvegað barnagæslu fengi hún vinnu.

Samgöngur / vinna fjarri heimili

Í d-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er gert ráð fyrir því að umsækjandi um atvinnuleysisbætur skuli vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi.

Vinnumálastofnun er heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu ef fjarlægð milli vinnustaðar og heimilis umsækjanda veldur honum sérstökum vandkvæðum vegna þess að engar reglulegar samgöngur eru í boði eða vegna þess tíma sem það tekur hann að komast á milli.

Ef umsækjandi hefur aðgang að bifreið maka, vinnufélaga, vinnuveitanda eða annarra á þessi undanþága síður við.

Vinnutími

Vaktavinna er nefnd í skilgreiningu hugtaksins virk atvinnuleit í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vaktavinna er skipulögð þannig að ákveðinn fjöldi vakta hvers starfsmanns er utan dagvinnutímabils, þ.e. á kvöldin, um nætur og/eða um helgar. Slíkur vinnutími hentar ekki öllum. Fjölskylduaðstæður og heilsufar eru þættir sem geta komið til álita sem gildar ástæður fyrir því að hafna vaktavinnu.

Umsækjandi um atvinnuleysisbætur hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum

Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum sem Vinnumálastofnun hefur skipulagt eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku á umsókn um atvinnuleysisbætur sætir missi bótaréttar í 40 bótadaga.

Sjá m.a. úrskurð úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 2/2007 þar sem aðili hafnaði þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum og bótaréttur féll niður í 40 daga.

Hafni hann aftur að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum á þeim tíma getur komið til ítrekunaráhrifa skv. 61. gr. laganna. Ef hann byrjar í nýju starfi sem ekki er hluti af vinnumarkaðsaðgerðum meðan bíðtími varir falla viðurlögin niður starfi hann í a.m.k. tíu virka daga áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur að nýju enda hafi hann sagt starfinu lausu eða misst það af gildum ástæðum.

Vari starfið í skemmri tíma, hann hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst það af ástæðum sem hann á sjálfur sök á heldur viðurlagatíminn áfram að líða þegar hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur, sbr. einnig 61. gr. laganna.

Atvinnuleit hætt

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar ber að tilkynna Vinnumálastofnun án ástæðulausrar tafar þegar hann hættir virkri atvinnuleit. Tilkynningin skal gerð með sannanlegum hætti og skal taka fram ástæðu þess að atvinnuleit var hætt.

Í úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 15/2007 hafnaði aðili atvinnu á þeim forsendum að eigin rekstur stæði fyrir dyrum. Leit úrskurðarnefndin svo á að fella ætti niður bótarétt ótímabundið af þessum sökum.

Var efnið hjálplegt?