Vinnufærni

Samkvæmt lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er réttur launamanna til atvinnuleysisbóta ekki aðeins bundinn því skilyrði að umsækjandi hafi áunnið sér rétt til þeirra bóta með atvinnuþátttöku sinni. Hann verður einnig að vera vinnufær þegar hann sækir um atvinnuleysisbætur og vinnufær þann tíma sem hann nýtur þeirra. Skilyrði laganna um virka atvinnuleit eru nátengd þessu atriði.

Það er hins vegar ekki skilyrði samkvæmt lögunum að umsækjandinn sé fullfær til hvaða vinnu sem er. Var það m.a. álit nefndar sem samdi frumvarp til núgildandi laga um atvinnuleysistryggingar að þeir sem hefðu skerta vinnufærni ættu að hafa rétt til atvinnuleysisbóta að fullnægðum skilyrðum laganna að öðru leyti.

Umsókn um atvinnuleysisbætur

Í umsókn um atvinnuleysisbætur þurfa að koma fram allar þær upplýsingar er varða vinnufærni umsækjandans og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum.

Læknisvottorð

Þegar um skerta vinnufærni er að ræða þarf umsækjandi að skila inn læknisvottorði. Vinnumálastofnun er heimilt að leita álits annarra sérfræðinga á vinnufærni umsækjanda.

Skert vinnufærni / takmörkuð atvinnuleit

Heimilt er að taka tillit til aðstæðna hins tryggða sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni. Þeir sem hafa skerta vinnufærni geta átt rétt til atvinnuleysistrygginga enda geti þeir talist færir til flestra almennra starfa en þó ekki allra. Sem dæmi má nefna einstakling sem hefur þurft að hætta störfum vegna veikinda, svo sem vegna ofnæmis fyrir tilteknum efnum, án þess að teljast óvinnufær til annarra starfa.

Gert er ráð fyrir að umsækjandi sem ber fyrir sig skerta vinnufærni leggi fram vottorð sérfræðilæknis. Miðað er við að aðstæður hans séu þá með þeim hætti að hann þurfi þjónustu sérfræðilæknis enda gengið út frá því að um alvarleg tilvik sé að ræða.

Breytingar á vinnufærni

Samkvæmt lögunum ber að tilkynna Vinnumálastofnun án ástæðulausrar tafar um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni bótaþega eða aðstæðum að öðru leyti.

Sá sem fær greiddar atvinnuleysisbætur verður að vera reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Láti hann hjá líða að upplýsa stofnunina um atriði er skipt geta máli um tækifæri hans til að verða aftur virkur á vinnumarkaði getur það varðað tímabundnum missi atvinnuleysisbóta. Það að réttar upplýsingar liggi fyrir getur verið mjög þýðingarmikið fyrir Vinnumálastofnun svo hún geti boðið viðeigandi þjónustu sem stuðlað geti að aukinni vinnufærni hans, svo sem atvinnutengda endurhæfingu, einstök námskeið og ráðgjöf.

Rangar upplýsingar um vinnufærni

Ef hinn tryggði hefur vísvitandi látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem hafa orðið á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti getur það varðað hann missi bótaréttar í 40 bótadaga.

Geymdur bótaréttur vegna óvinnufærni

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum og hverfur af vinnumarkaði verði hann óvinnufær vegna sjúkdóms eða slyss getur geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu þann tíma sem hann er óvinnufær.

Var efnið hjálplegt?