Hverjir eru tryggðir

Samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 (hér eftir nefnd ATVL) eru launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar tryggðir gegn atvinnuleysi, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum þegar og ef til þess kemur að þeir verða fyrir atvinnu- og tekjumissi og sækja af þeim sökum um atvinnuleysisbætur. 

Launamenn

Í ATVL. er hugtakið launamaður skilgreint sem hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt er tryggingagjald vegna starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald. Skilgreining laganna á hugtakinu launamaður þýðir að launamaður í lægra starfshlutfalli en 25% er ekki tryggður gegn atvinnuleysi. Skiptir ekki máli þó að atvinnurekandi hans hafi samkvæmt lögum um tryggingagjald greitt tilskilin gjöld af honum til Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Sjálfstætt starfandi einstaklingar

ATVL skilgreina hugtakið sjálfstætt starfandi einstaklingur á eftirfarandi hátt: 

Hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að greiða mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum fjármálaráðherra, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns.

Það er skilyrði bótaréttar þessa hóps að séu hættir atvinnurekstri og hafi skráð sig af launagreiðendaskrá RSK.

Erlendir ríkisborgarar 

Meginreglan er sú að útlendingur sem starfað hefur hér á landi sem launamaður í þjónustu atvinnurekanda með starfsemi hér á landi, og sem greitt hefur tryggingagjald af launum hans, nýtur sömu réttinda og ber sömu skyldur gagnvart Atvinnuleysistryggingasjóði og íslenskt launafólk.

Hinn erlendi launamaður verður hins vegar að hafa óbundna heimild til atvinnu hér landi. Í þann flokk falla fyrst og fremst EES-ríkisborgarar og þeir sem hafa fengið útgefið svokallað óbundið atvinnuleyfi samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga.

Var efnið hjálplegt?