Fyrirtæki eða hluti fyrirtækis

Fyrirtæki

Lög um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum nr. 72/2002 byggja ekki á hefðbundnum skilgreiningum á hugtakinu fyrirtæki úr lögum og/eða fræðilegri umfjöllun á sviði félagaréttar eða öðrum réttarsviðum. Ástæðan er fyrst og fremst sú að lögin fjalla með almennum hætti um ákveðna þætti í réttarsambandi launafólks og atvinnurekanda við aðstæður sem upp koma í atvinnurekstri. Að teknu tilliti til tilgangs laganna sem er réttarvernd launafólks á það því ekki að skipta neinu meginmáli hvort sá atvinnurekstur uppfylli viðmið eða skilgreiningar sem hafa orðið til við aðrar kringumstæður til verndar öðrum hagsmunum.

Lögin afmarka engu að síður ákveðna grundvallarþætti sem "fyrirtæki" verður að uppfylla ef framsal þess á að skapa starfsmönnum sem þar starfa þau réttindi sem um er fjallað í lögunum. Þannig segir annars vegar í 3. tölul. 2. gr. að fyrirtæki sé einstaklingur, félag, opinberir aðilar og aðrir þeir sem "stunda atvinnurekstur án tillits til þess hvort slíkt er gert í hagnaðarskyni." Hins vegar í 4. tölul. 2. gr. þar sem kemur fram að andlag aðilaskipta sé "efnahagsleg eining sem heldur einkennum sínum, þ.e. skipulagðri heild verðmæta sem notuð verður í efnahagslegum tilgangi, hvort sem um er að ræða aðal- eða stoðstarfsemi."

Rekstrarform eða eignarhald

Hið lagalega form atvinnurekstrarins (rekstrarform) hefur eins og áður segir ekki áhrif á það hvort framsal hans falli undir gildissvið laganna eða ekki.

Atvinnureksturinn getur því verið í formi einstaklingsrekstrar, hlutafélags, einkahlutafélags, sameignarfélags, samvinnufélags, sjálfseignarstofnunar o.s.frv.

Hvernig eignarhaldi atvinnurekstrarins er háttað skiptir ekki heldur máli, þ.e. hvort hann er í eigu einkaaðila eða hins opinbera (ríkis eða sveitarfélaga). Fyrirtæki og stofnanir á vegum hins opinbera s.s. heilbrigðisstofnanir, skólar og aðrar opinberar þjónustustofnanir geta því, að öðrum skilyrðum uppfylltum, fallið undir gildissvið laganna. Hrein og klár opinber stjórnsýsla fellur hins vegar ekki undir gildissvið laganna, sbr. a-lið 2. mgr. 1. gr. laganna, en þar kemur fram að breytingar á skipulagi og starfsháttum stjórnvalds eða tilfærsla á verkefnum milli stjórnvalda falli ekki undir gildissvið þeirra. 

Hluti fyrirtækis

Framsal á hluta fyrirtækis getur einnig fallið undir gildissvið laganna. Endurskipulagning atvinnurekstrar getur í mörgum tilvikum beinst að ákveðnum einingum í rekstri fyrirtækja, þ.m.t. svokölluðum stoðdeildum er styðja við aðalstarfsemi fyrirtækis. Sala eða annað framsal slíkra stoðdeilda getur fallið undir gildissvið laganna, svo fremi sem þær uppfylla það skilyrði laganna að vera efnahagsleg heild sem heldur einkennum sínum. Um slíkt getur einkum verið að ræða þegar stoðdeildin er afmörkuð frá aðalstarfsemi fyrirtækis, hún býr yfir ákveðnum atvinnutækjum sem einkenna þá starfsemi og/eða henni tilheyrir ákveðinn hópur starfsfólks sem sinnir einvörðungu störfum fyrir viðkomandi stoðdeild. Sjá hér m.a. Hrd. 435/2002 um túlkun þessa atriðis þar sem ekki var talið að um aðilaskipti hefði verið að ræða. 

Framsal stoðdeilda getur einnig átt sér að með útboði og geta þá komið upp spurningar um það hvort þeim sem fær verkefni úthlutað með þeim hætti beri samkvæmt lögunum að taka yfir ráðningarsamninga starfsmanna fyrir atvinnurekanda. Þegar slík verkefni ganga til baka til hins opinbera hefur verið talið að um aðilaskipti geti verið að ræða sbr. t.d. dóm Evrópudómstólsins C-509/14.

Markmið eða tilgangur atvinnustarfseminnar 

Í 3. tölul. 2. gr. laganna er hugtakið fyrirtæki skilgreint sem einstaklingur, félag, opinberir aðilar og aðrir þeir sem stunda atvinnurekstur án tillits til þess hvort slíkt er gert í hagnaðarskyni. Síðasta atriðið í þessari skilgreiningu felur það í sér að það er ekki skilyrði fyrir beitingu laganna að sá atvinnurekstur sem framseldur er til nýs atvinnurekanda sé stundaður í þeim tilgangi að afla eigendum eða þeim sem standa að honum fjárhagslegs ávinnings.

Var efnið hjálplegt?