Eftirlitsheimildir VER

Vinnueftirlit ríkisins skal fylgjast með því að atvinnurekendur stuðli að góðum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi fyrir starfsmenn sína í starfi. Starfsmenn VER skulu fara í eftirlitsheimsóknir inn í fyrirtæki til þess að sinna eftirlitshlutverki sínu og skal þeim veittur aðgangur að vinnustöðvum í þeim tilgangi. Skulu þeir enn fremur sinna markaðsgæslu og markaðseftirliti í eftirlitsheimsóknum sínum. Starfsmenn Vinnueftirlits ríkisins skulu sýna skilríki um starf sitt.

Í eftirlitsheimsóknum skulu starfsmenn Vinnueftirlits ríkisins hafa samband við atvinnurekanda eða fulltrúa hans og þá aðila sem starfa að vinnuvernd innan fyrirtækja og skulu þeir gefa allar nauðsynlegar upplýsingar í tengslum við eftirlitið. Enn fremur er starfsmönnum Vinnueftirlits ríkisins heimilt að krefja aðra starfsmenn sem eru í vinnu eða hafa verið í vinnu einhvern tíma síðustu þrjá mánuði um sömu upplýsingar.

Starfsmenn Vinnueftirlits ríkisins skulu hafa aðgang að skjölum eða öðrum gögnum sem eiga að vera fyrir hendi innan fyrirtækja samkvæmt lögum þessum.

Starfsmönnum Vinnueftirlits ríkisins er heimilt að leita aðstoðar lögreglu við eftirlitið þegar slíkt gerist nauðsynlegt.

Starfsmenn Vinnueftirlits ríkisins skulu halda skrá yfir eftirlitsheimsóknir sínar þar sem skráðar eru athugasemdir þeirra, bönn Vinnueftirlits ríkisins og önnur fyrirmæli og tilkynningar er varða vinnuskilyrði. Skal atvinnurekanda afhent afrit af þeim hluta skrárinnar er viðkemur starfsemi hans.

Starfsmenn Vinnueftirlitsins mega ekki láta uppi við atvinnurekanda eða fulltrúa hans, að eftirlitsferð sé gerð vegna umkvörtunar.

Hafi Vinnueftirlit ríkisins krafist þess með hæfilegum fyrirvara, að lagfæring á vanbúnaði eða öðru ástandi, sem brýtur gegn vinnuverndarlögunum nr. 46/1980 eða reglum og tilkynningum, sem eru í samræmi við lögin, og umbætur hafa ekki verið gerðar, þegar frestur sá er liðinn, sem gefinn var, getur Vinnueftirlitið látið stöðva vinnu eða lokað starfseminni eða þeim hluta hennar, sem krafan beinist að.

Telji Vinnueftirlitið að veruleg hætta sé á ferðum fyrir líf eða heilbrigði starfsmanna eða annarra, getur það krafist þess, að strax sé bætt úr skorti á nægjanlegu öryggi, eða látið hætta vinnu í þeim hluta starfseminnar, sem þannig er á sig kominn.

Var efnið hjálplegt?