Öryggistrúnaðarmenn

Lítil fyrirtæki

Í fyrirtækjum, þar sem eru 1 til 9 starfsmenn, skal atvinnurekandi og/eða verkstjóri hans stuðla að góðum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustað, í nánu samstarfi við starfsmenn fyrirtækisins og félagslegan trúnaðarmann þeirra.
Vinnueftirlit ríkisins getur þó ákveðið, ef þurfa þykir, að fyrirkomulag það sem gildir í fyrirtækjum með 10 starfsmenn eða fleiri skuli gilda í þessum fyrirtækjum, einkum þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, sbr. til dæmis 40. og 44. gr.vinnuverndarlaga nr. 46/1980.

Fyrirtæki með 10 starfsmenn eða fleiri - öryggisvörður og öryggistrúnaðarmaður
Í fyrirtækjum, þar sem eru 10 starfsmenn eða fleiri, skal atvinnurekandi tilnefna einn aðila af sinni hálfu öryggisvörð og starfsmenn skulu tilnefna annan úr sínum hópi öryggistrúnaðarmann. Þeir skulu í samvinnu fylgjast með því, að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustað séu í samræmi við lög þessi.

Fyrirtæki með 50 starfsmenn eða fleiri - öryggisnefnd
Í fyrirtækjum, þar sem eru 50 starfsmenn eða fleiri, skal stofna öryggisnefnd. Starfsmenn kjósa úr sínum hópi tvo fulltrúa og atvinnurekandi tilnefnir tvo fulltrúa. Þessi nefnd skal skipuleggja aðgerðir varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi innan fyrirtækisins, annast fræðslu starfsmanna um þessi efni og hafa eftirlit á vinnustöðum með því, að ráðstafanir er varða aðbúnað, hollustuhætti og öryggi komi að tilætluðum notum. Atvinnurekanda er skylt, ef hann er ekki sjálfur í öryggisnefnd, að skipa í sinn stað aðila með fullu umboði.

Samstarf
Atvinnurekandi skal stuðla að samstarfi þeirra, sem kjörnir eru til þess að fjalla um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og þeirra, sem annast heilbrigðisþjónustu og heilsuvernd starfsmanna. 

Í reglugerð nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum er m.a. nánar fjallað um fyrirkomulag þessa samstarfs, kosningu öryggistrúnaðarmanna og öryggisnefnda og réttindi og skyldur aðila.

 
Undirbúningur og menntun
Atvinnurekanda ber að sjá til þess að þeir, sem kjörnir eru til að fjalla um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað, og þeir, sem sitja í öryggisnefnd, fái hæfilegan tíma miðað við verkefnasvið, til þess að gegna skyldum sínum við eftirlit með aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi.

Atvinnurekandi skal einnig sjá um, að þeir, sem kjörnir eru til að fjalla um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi í fyrirtæki hans, fái tækifæri til þess að afla sér nauðsynlegrar þekkingar og menntunar varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Samskipti við VER
Þegar starfsmenn Vinnueftirlits ríkisins koma í eftirlitsferðir í fyrirtæki, skulu þeir hafa samband við atvinnurekanda eða umboðsmann hans, öryggistrúnaðarmann starfsmanna, félagslegan trúnaðarmann starfsmanna og við öryggisnefndir, þar sem þær eru starfandi. Nefndum aðilum skal auðvelda, svo sem kostur er, að leggja vandamál fyrir Vinnueftirlit ríkisins.

Hlutdeild í skipulagningu aðbúnaðar o.fl.
Atvinnurekandi skal veita nefndum aðilum hlutdeild í skipulagningu að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað.

Kostnaður
Atvinnurekandi ber kostnað vegna starfs að bættum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi og bætir þeim, sem að því vinna, tekjutap, sem af kann að hljótast.

Réttarvernd
Öryggistrúnaðarmenn og fulltrúar starfsmanna í öryggisnefnd njóta þeirrar verndar, sem ákveðin er í 11. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Annað
Vinnueftirlit ríkisins skal sjá um að viðkomandi fyrirtækjum standi til boða sérfræðileg þjónusta við störf að bættum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi þegar öryggi og heilbrigði starfsmanna krefst þess.

Var efnið hjálplegt?