Aðbúnaður og hollustuhættir

Samkvæmt 1. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 er tilgangur þeirra að tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi, sem jafnan sé í samræmi við félagslega og tæknilega þróun í þjóðfélaginu. Ennfremur að tryggja skilyrði fyrir því að innan vinnustaðanna sjálfra sé hægt að leysa öryggis- og heilbrigðisvandamál, í samræmi við gildandi lög og reglur, í samræmi við ráðleggingar aðila vinnumarkaðarins og ráðleggingar og fyrirmæli Vinnueftirlits ríkisins (VER). Lögin um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað, vinnuverndarlögin svokölluðu, eru um margt sérstök. Eitt af sérkennum þeirra er sú ríka áhersla sem lögð er á samstarf starfsmanna og atvinnurekenda til að ná árangri í öryggismálum. 
 
Gildissvið vinnuverndarlaganna  
Lögin gilda um alla starfsemi þar sem einn eða fleiri menn vinna, hvort sem um er að ræða eigendur fyrirtækja eða starfsmenn. Utan verksviðs laganna eru þó siglingamál, sem falin eru Siglingamálastofnun ríkisins og loftferðir. Vinna við loftför á jörðu niðri og ferming og afferming skipa heyra þó almennt undir lögin.
 
Samstarf um öryggismál 
Í 2. kafla vinnuverndarlaga er fjallað um samstarf við starfsmenn að öryggismálum. Í smærri fyrirtækjum skal atvinnurekandi stuðla að góðum aðbúnaði í nánu samstarfi við starfsmenn og félagslegan trúnaðarmann þeirra. 

Í vinnuverndarlögum er sérstaklega fjallað um skyldur verkstjóra, en verkstjóri er fulltrúi atvinnurekanda og sér um að búnaður allur sé góður og öruggt skipulag sé ríkjandi á þeim vinnustöðum sem hann hefur umsjón með.

Tengt efni

Var efnið hjálplegt?