Mat á áhættuþáttum

Atvinnurekandi skal sjálfur eða þjónustuaðili á sviði vinnuverndar og forvarna skv. ósk hans, meta vinnustaðinn og vinnuna með sérstöku tilliti til heilbrigðis og öryggis þungaðs starfsmanns, starfsmanns sem nýlega hefur alið barn eða hefur barn á brjósti. Hafi atvinnurekandi ekki frumkvæði í þessu efni eins og honum ber skylda til er mikilvægt að starfsmaðurinn sjálfur óski eftir slíku mati. Til hægðarauka fyrir starfsmenn er aftar í þessu riti eyðublað vegna beiðni þar að lútandi. Vinnueftirlit ríkisins hefur gefið út leiðbeiningarreglur um „mat á efnafræðilegum, eðlisfræðilegum og líffræðilegum skaðvöldum og vinnsluaðferðum sem talið er að hafi hættu í för með sér fyrir þungaða konu”. Þessar leiðbeiningarreglur skulu vera til leiðbeiningar við áhættumatið. Þar er að finna nákvæmar leiðbeiningar um mat á mögulegum skaðvöldum sem geta ógnað öryggi og heilbrigði kvenna sem eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti. Hægt er að nálgast leiðbeiningarreglurnar á vef Vinnueftirlits ríkisins www.vinnueftirlit.is, þar sem þær eru birtar sem viðauki með reglugerð 931/2000. Sinni atvinnurekandi ekki þeirri skyldu sinni að meta áhættu skal vísa málinu til Vinnueftirlits ríkisins, sem fer með eftirlit með framkvæmdinni skv. reglugerð um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur sem eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti, nr. 931/2000, og skal Vinnueftirlitið þá hlutast til um málið. Eins er starfsmanni heimilt að  bera mat atvinnurekanda sjálfs eða mat sem hann hefur látið gera undir Vinnueftirlitið ef hann er ósáttur við niðurstöðu matsins.

Var efnið hjálplegt?