Uppsöfnun og vernd réttinda

Til þess að fæðingar- og foreldraorlof nái tilgangi sínum er nauðsynlegt samhliða greiðslu orlofsins, að tryggja það að launafólk haldi áunnum réttindum, haldi áfram að safna þeim upp og njóti að öðru leyti svipaðrar eða sömu verndar og réttinda eins og það væri í starfi.

Lífeyrissjóðir

Meðan á fæðingarorlofi stendur greiðir foreldri að lágmarki 4% af fæðingarorlofsgreiðslu í lífeyrissjóð og Fæðingarorlofssjóður að lágmarki 8%.   Foreldri er að auki heimilt að greiða í séreignarsjóð.

Stéttarfélagsaðild og iðgjöld

Á eyðublaði vegna umsóknar um greiðslur í fæðingarorlofi getur starfsmaður óskað eftir að tekið sé af greiðslunni iðgjald til stéttarfélags hans og þannig tryggt að réttindi hans haldist að fullu meðan á fæðingarorlofstöku stendur.

Starfstengd réttindi, orlofs- og veikindaréttur, starfsaldur ofl.

Fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar, uppsagnarfrests ( sjá t.d. HRD 853/2017 ) og réttar til atvinnuleysisbóta. Áunnum rétti til orlofstöku meðan á fæðingarorlofi stendur fylgir hins vegar ekki réttur til greiðslu í orlofinu skv. túlkun úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála. Það þýðir að ekki reiknast orlof ofan á greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og lögin setja ekki heldur þá kvöð á atvinnurekendur að þeir greiði laun í orlofi sem áunnið er meðan á töku fæðingarorlofs stendur. Fæðingarorlof telst og ekki innan þess 12 mánaða tímabils sem greiðsluréttur í veikindum miðast almennt við.  Þegar veikindaréttur starfsmanns sem snýr til baka úr fæðingarorlofi er metinn er einfaldlega litið til síðustu 12 mánaða hans í starfi og litið er framhjá fæðingarorlofstímabilinu þ.e. greiðsluréttur ávinnst ekki í fæðingarorlofi. 

Desember og orlofsuppbætur

Samkvæmt samningum ASÍ og viðsemjenda frá árinu 1998 skulu fjarvistir starfsmanna sem starfað hafa eitt ár eða lengur hjá atvinnurekanda vegna lögbundins fæðingarorlofs teljast til starfstíma við útreikning desember- og orlofsuppbótar. 

Sama gildir ef kona þarf að öryggisástæðum að leggja niður störf á meðgöngutíma, sbr. reglugerð um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur sem eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti.

Réttur til starfs

Ráðningarsamband milli starfsmanns og vinnuveitanda helst óbreytt í foreldraorlofi og starfsmaður skal eiga rétt á að hverfa aftur að starfi sínu að loknu orlofinu. Sé þess ekki kostur skal hann eiga rétt á sambærilegu starfi hjá vinnuveitanda í samræmi við ráðningarsamning. Sjá m.a. Hrd. nr. 199/2006. Ágreiningur getur risið í þessu sambandi hafi launamaður sem var í fullu starfi fyrir fæðingarorlof þörf fyrir að fara í tímabundið hlutastarf þegar snúið er til baka úr fæðingarorlofi. Sjá umfjöllun um „Skyldur atvinnurekenda“ í kaflanum um hlutastörf þar sem talið er að með vísan til jafnréttislaga kunni slíkur réttur að vera til staðar. 

Var efnið hjálplegt?