Réttur til fæðingarorlofs

Réttur til töku fæðingarorlofs stofnast við:

•  fæðingu barns,
•  frumættleiðingu barns yngra en átta ára,
•  töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur.
 
Réttur til fæðingarorlofs stofnast við fæðingu barns. Þó er foreldri heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag.
 
Réttur til  töku fæðingarorlofs fellur niður þegar barnið nær 24 mánaða aldri, samanber þó rétt til fæðingarorlofs vegna ættleiðingar og töku barns í varanlegt fóstur.
 
Foreldri öðlast rétt til fæðingarorlofs í allt að níu mánuði hafi hitt foreldrið andast á meðgöngu barns og barnið fæðist lifandi. Andist foreldri áður en barn nær 24 mánaða aldri færist sá réttur til fæðingarorlofs sem hinn látni hefur ekki þegar nýtt, yfir til eftirlifandi foreldris. Foreldri sem er ófært vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss eða afplánunar refsivistar um að annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðunum eftir fæðingu þess er heimilt að framselja rétt sinn til fæðingarorlofs sem það hefur ekki þegar nýtt sér til hins foreldrisins að hluta eða öllu leyti. Við ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur er miðað við 24 mánuði frá þeim tíma þegar barnið kemur inn á heimilið. Ef foreldrar þurfa að sækja barnið til annarra landa getur fæðingarorlof hafist við upphaf ferðar.
 
Forsjárlaust foreldri á rétt til fæðingarorlofs ef fyrir liggur samþykki þess foreldris sem fer með forsjána.

Heimilt er að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks um allt að sjö mánuði ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns eða alvarlega fötlun sem krefst nánari umönnunar foreldris. Rökstyðja skal þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi með vottorði sérfræðilæknis.
 
Einhleypar mæður sem hafa gengist undir tæknifrjóvgun eða einhleypir foreldrar sem hafa einir ættleitt börn eða tekið börn í varanlegt fóstur geta eftirleiðis nýtt fullt fæðingarorlof, þ.e. sama mánaðarfjölda og foreldrar hafa samtals.

Var efnið hjálplegt?