Lenging vegna veikinda móður

Veikindi þungðrar konu

Í 3. mgr. 17. gr. laganna segir að sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að mati sérfræðilæknis að leggja niður launuð störf eða hætta þátttöku á vinnumarkaði meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skuli hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en 2 mánuði. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns fellur heimild til lengingar samkvæmt þessu ákvæði niður frá þeim tíma. Sama regla er áréttuð í 9. gr. reglugerðar 1218/2008. Með heilsufarsástæðum samkvæmt ákvæðinu er átt við:

  • Sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valda óvinnufærni
  • Sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi, sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni
  • Fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs, enda valdi meðferðin óvinnufærni

Veikindi í tengslum við fæðingu

Þá kemur fram í 2. mgr. 17. gr. laganna að það sé heimilt að framlengja fæðingarorlof móður um allt að 2 mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu enda hafi hún í fæðingarorlofi sínu verið ófær um að annast barn sitt vegna veikindanna að mati sérfræðilæknis.

Var efnið hjálplegt?