Lenging vegna veikinda barns

Í 1. mgr. 17. gr. laganna segir að heimilt sé að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um allt að 7 mánuði ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns eða alvarlega fötlun sem krefst nánari umönnunar foreldris. Þessi réttindi eru nánar útfærð í 11. og 12. gr. reglugerðar nr. 1218/2008.

Lengri sjúkrahúsdvöl barns en sjö dagar

Í 11. gr. reglugerðarinnar segir að þurfi barn að dveljast á sjúkrahúsi lengur en sjö daga í beinu framhaldi af fæðingu, sé heimilt að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um þann dagafjölda sem barn dvelst á sjúkrahúsi fyrir fyrstu heimkomu. Þessi regla getur einnig átt við þegar barn fæðist fyrir áætlaðan fæðingardag og þarf að dvelja lengur á sjúkrahúsi af þeim sökum.

Upphaf greiðslna samkvæmt þessu miðast við fæðingardag barns og lok þeirra við fyrstu heimkomu barns eftir fæðingu. Sé um fjölburafæðingu að ræða gildir dvalartími þess barns sem lengst dvelst á sjúkrahúsinu. Innritist barn að nýju á sjúkrahús veitir það ekki rétt til frekari framlengingar á greiðslum.

Framlenging þessi getur verið allt að 4 mánuðir.

Alvarlegur sjúkleiki barns

Í 12. gr. reglugerðarinnar kemur síðan fram að heimilt sé að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefst nánari umönnunar foreldris. Greiðslur vegna alvarlegs sjúkleika barns geta átt sér stað í framhaldi af framlengingu vegna lengri sjúkrahúdvalar barns en sjö daga.

Framlenging þessi getur verið allt að 3 mánuðir.

Hugtakið „alvarlegur sjúleiki barns“

Í frumvarpi með lögum nr. 143/2012, sem breyttu tilteknum ákvæðum fæðingarorlofslaga, segir að með „alvarlegum sjúkleika barns“ sé átt við alvarlegan sjúkdóm eða alvarlega fötlun og með því sé ekki átt við tilfallandi veikindi, eins og „hlaupabólu, eyrnabólgu eða aðra álíka sjúkdóma enda þótt veikindin geti verið þrálát.“

Þá segir ennfremur að þegar meta á hvort að einstakt tilvik eigi undir ákvæðið er eðlilegt að líta til laga nr. 22/2006, um greiðslur foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Í þeim lögum er miðað við að um langvinnan sjúkdóm sé að ræða sem líklegt er að vari í a.m.k. þrjá mánuði.  Eru eftirfarandi tilvik nefnd sem alvarlegir og langvinnir sjúkdómar í skilningi þeirra laga:

  • Börn sem þurfa langvarandi vistun á sjúkrahúsi eða hjúkrun í heimahúsi og yfirsetu foreldris vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma, til dæmis börn með illkynja sjúkdóma.
  • Börn sem þurfa tíðar sjúkrahúsinnlagnir og meðferð í heimahúsi vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma, til dæmis alvarlegra hjartasjúkdóma og alvarlegra nýrna-, lungna- eða lifrarsjúkdóma, sem krefjast ónæmisbælandi meðferðar.
  • Börn sem þurfa innlagnir á sjúkrahús og meðferð í heimahúsi vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma, til dæmis börn með alvarlega bæklunarsjúkdóma, innkirtla- og efnaskiptasjúkdóma, meltingarfærasjúkdóma og geðsjúkdóma.

Þá upplista lögin nokkur tilvik sem falla undir alvarlega fötlun í skilningi laganna:

  • Börn sem vegna alvarlegrar fötlunar eru algjörlega háð öðrum með hreyfifærni eða flestar athafnir daglegs lífs.
  • Börn sem vegna alvarlegrar fötlunar þurfa mjög víðtæka aðstoð og nær stöðuga gæslu í daglegu lífi, til dæmis vegna alvarlegrar þroskahömlunar eða alvarlegrar einhverfu.
  • Börn sem vegna alvarlegrar fötlunar þurfa töluverða aðstoð og gæslu í daglegu lífi, til dæmis vegna miðlungs þroskahömlunar, hreyfihömlunar sem krefst notkunar hjólastóls eða verulegrar einhverfu.

 

Lenging vegna veikinda móður

Veikindi þungðrar konu

Í 3. mgr. 17. gr. laganna segir að sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að mati sérfræðilæknis að leggja niður launuð störf eða hætta þátttöku á vinnumarkaði meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skuli hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en 2 mánuði. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns fellur heimild til lengingar samkvæmt þessu ákvæði niður frá þeim tíma. Sama regla er áréttuð í 9. gr. reglugerðar 1218/2008. Með heilsufarsástæðum samkvæmt ákvæðinu er átt við:

  • Sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valda óvinnufærni
  • Sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi, sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni
  • Fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs, enda valdi meðferðin óvinnufærni

Veikindi í tengslum við fæðingu

Þá kemur fram í 2. mgr. 17. gr. laganna að það sé heimilt að framlengja fæðingarorlof móður um allt að 2 mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu enda hafi hún í fæðingarorlofi sínu verið ófær um að annast barn sitt vegna veikindanna að mati sérfræðilæknis.

Var efnið hjálplegt?