Fæðingar- og foreldraorlof

Með aukinni þátttöku kvenna á vinnumarkaði hafa komið fram breytt viðhorf til hlutverka og verkaskiptingar kvenna og karla í samfélaginu. Forsenda þess að karlar og konur geti tekið jafnan þátt í launavinnu sem og öðrum störfum utan heimilis er að þau skipti með sér umönnun barna sinna.

Í maí árið 2000 voru samþykkt á Alþingi ný lög um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000. Lögin fela í sér gildistöku tilskipunar 92/85/EB og gildistöku tilskipunar 96/34/EB um rammasamninginn um foreldraorlof sem Samtök evrópskra iðn- og atvinnurekenda (UNICE), Evrópusamtök fyrirtækja með opinberri eignaraðild (CEEP) og Evrópusamband verkalýðsfélaga (ETUC) hafa gert. Með lögunum var stigið stórt skref í áttina að því að bæta réttarstöðu barna og foreldra þeirra á vinnumarkað. Þá var stigið stórt skref í að samræma réttindi þeirra sem starfa á almenna vinnumarkaðinum og opinberra starfsmanna. Þó skortir enn á að réttindi launafólks sem tekur laun samkvæmt samningum á almennum vinnumarkaði njóti sömu réttinda og opinberir starfsmenn hvað varðar rétt til greiðslur í orlofi sem áunnið er við töku fæðingarorlofs. ASÍ freistaði þess að leiðrétta þessa mismunun með málshöfðun en hafði ekki erindi sem erfiði. ( Mál E-1795/2004 )

Markmið laganna um fæðingar- og foreldraorlof er að tryggja barni samvistir við báða foreldra sína og gera foreldrum kleift að samræma betur einkalíf og þátttöku á vinnumarkaði. Lögunum er ætlað að svara kalli tímans um jafna ábyrgð og möguleika foreldra á að annast börn sín. Í lögunum er bundin skipting á réttindum milli foreldra á orlofstímanum, bæði hvað varðar fæðingarorlofið og foreldraorlofið. Með því er stuðlað að jafnari fjölskylduábyrgð og jafnri stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Hinn ákveðni og óframseljanlegi réttur feðra og jafn réttur foreldra til fæðingar- og foreldraorlofstöku er sérstakur og á sér ekki hliðstæður í öðrum löndum. Tilgangurinn með þessu er að tryggja betur rétt barna til að vera samvistum við báða foreldra sína og bæta jafnframt möguleika feðra til að vera samvista við börn sín. Þess er jafnframt vænst að þetta muni leiða til sterkari stöðu og bættra kjara kvenna á vinnumarkaði.

Lögin fela í sér fjögur meginatriði hvað varðar réttindi foreldra og barna þeirra:

  1. Réttindi þungaðra kvenna, kvenna sem hafa nýlega alið börn og kvenna sem eru með börn á brjósti eru treyst til muna frá því sem áður var.
  2. Orðið við kröfum verkalýðshreyfingarinnar í mikilvægum atriðum hvað  varðar  lengd,  mögulegan sveigjanleika við  orlofstöku og  að  greiðslur í fæðingarorlofi taki mið af launum viðkomandi.
  3. Öllum foreldrum er tryggður réttur til töku sérstaks foreldraorlofs, að viðbættu fæðingarorlofi.
  4. Tekið er á ýmsum réttindamálum er varða foreldra í fæðingar– og foreldraorlofi og þungaðar konur.

Í sérstöku upplýsingariti ASÍ um fæðingar- og foreldraorlof er gerð ítarleg grein fyrir efni laganna um fæðingar- og foreldraorlof og framkvæmd þeirra.

ASÍ knúði á um fullnægjandi gildistöku réttinda fyrir þungaðar konurTilskipun Evrópusambandsins nr. 92/85 um réttindi þungaðra kvenna og kvenna með barn á brjósti er ætlað að tryggja tiltekin lágmarksréttindi i þessum efnum á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Því voru bundnar miklar vonir við að lögleiðing hennar hér á landi mundi fela í sér verulegar réttarbætur. Gildistaka tilskipunarinnar hér á landi var hins vegar í upphafi með öllu ófullnægjandi og Alþýðusambandið kærði þá reglusetningu til Eftirlitsstofnunar EFTA árið 1999. Með lögum um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerð nr. 931/2000 var tekið að fullu tillit til kæruefna og athugasemda ASÍ, og tilskipuninni hrint í framkvæmd hér á landi með fullnægjandi hætti.

Frumkvæði verkalýðshreyfingarinnar efldi umræðuna um réttarbætur

Rétt er að hafa í huga að lögin um fæðingar- og foreldraorlof féllu ekki af himnum ofan. Ljóst er að frumkvæði verkalýðshreyfingarinnar, einkum Alþýðusambandsins, og fleiri aðila átti mikilvægan þátt í að efla umræðuna um nauðsyn á réttarbótum til foreldra á vinnumarkaði. Hér skiptu vaxandi áherslur verkalýðshreyfingarinnar á mikilvægi framsækinnar fjölskyldustefnu á vinnumarkaði miklu. Allt frá árinu 1996 hafði Alþýðusamband Íslands beitt sér sérstaklega fyrir úrbótum í réttindamálum foreldra og þungaðra kvenna á vinnumarkaði og sett fram heildstæða stefnu á því sviði. Þá er ljóst að samningur aðila vinnumarkaðarins á Evrópuvísu um rétt foreldra til foreldraorlofs að viðbættu fæðingarorlofi, kallaði einn og sér á endurskoðun á réttindakerfi fyrir foreldra á vinnumarkaði. Samningurinn var undirritaður í desember 1995 og gerður bindandi fyrir Evrópusambandið og þar með Evrópska efnahagssvæðið um mitt ár 1996. Alþýðusamband Íslands tók virkan þátt í gerð þessa samnings sem aðili að Evrópusambandi verkalýðsfélaga – ETUC og knúði á um lögleiðingu hans hér á landi.

ASÍ falið að vinna að réttindamálum foreldra í tengslum við kjarasamninga 

Réttindamál foreldra voru meðal þess sem Alþýðusambandinu var falið að vinna að í tengslum við gerð kjarasamninga í byrjun árs 2000. Í framhaldi af kröfu ASÍ var í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar 10. mars s.á. heitið endurbótum í þessum málaflokki. Líta ber á lögin um fæðingar- og foreldraorlof sem efndir ríkisstjórnarinnar á þessu loforði hennar. Þar var í öllum atriðum komið verulega til móts við sjónarmið og áherslur Alþýðusambandsins og aðildarsamtaka þess.

Tengt efni

Var efnið hjálplegt?