Dómar

Evrópudómstóllinn

C-346/06 3. apríl 2008. Dirk Rüffert.

Í málinu var fjallað um lög í Lower Saxony í Þýskalandi sem kváðu á um að byggingaverktökum, þ.m.t. undirverktökum, sem tækju þátt í opinberum útboðum væri skylt að fara að reglum um greiðslu lágmarkslauna samkvæmt tilteknum kjarasamningi sem gilti á svæðinu. Þýskt verktakafyrirtæki Objekt und Bauregie (O&B) hafði á grundvelli opinbers útboðs fengið úthlutað samningi um byggingu fangelsis í Lower Saxony. Fyrirtækið réð pólskan undirverktaka til verksins. Í ljós kom að undirverktakinn greiddi 53 starfsmönnum sínum laun sem náðu ekki helmingi þeirra lágmarkslauna sem kveðið var á um í framangreindum kjarasamningi.  Þessir starfsmenn höfðu stöðu sem útsendir starfsmenn í Þýskalandi, þ.e. þeir voru ráðnir til starfa í Póllandi en sendir af vinnuveitanda sínum til tímabundinna starfa í Þýskalandi.

Í kjölfar gjaldþrotaskipta á búi O&B komu upp ýmsar spurningar um gildi þessara reglna gagnvart lögum Evrópusambandsins um frelsi til að veita þjónustu yfir landamæri aðildarríkja og staðfesturétt fyrirtækja. 

Evrópudómstóllinn fékk málið til umfjöllunar og komst að þeirri niðurstöðu að umræddar reglur stæðust ekki samkvæmt tilskipun 96/71/EB, sbr. einnig 49. gr. laga Evópusambandsins. Þá niðurstöðu rökstuddi dómstóllinn með vísan til þess að lágmarkskjörum samkvæmt áðurnefndum kjarasamningi hefði ekki verið veitt almennt gildi á þýsku vinnumarkaði með þeim aðferðum sem tilskipun 96/71/EB kvæði á um. Í Þýskalandi væri fyrir hendi ákveðið fyrirkomulag um þetta efni sem fylgja mætti ef veita ætti kjarasamningum almennt gildi, þ.m.t. í byggingariðnaði. Þeim reglum hefði hins vegar ekki verið fylgt í þessu tilviki. Lögin sem gerðu lágmarkslaun samkvæmt áðurnefndum kjarasamningi skuldbindandi ættu einungis við um opinber útboð og samninga og giltu því einungis um takmarkaðan hluta byggingariðnaðarins.

Af því leiddi að ekki var hægt að skilgreina laun samkvæmt áðurnefndum kjarasamningi sem lágmarkslaun sem almennt gildi hefðu í skilningi c-liðar 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar.

Þess ber að geta niðurstaða Evrópudómstólsins í þessu máli hefur enga þýðingu hér á landi. Það skýrist af því að lágmarkskjör samkvæmt kjarasamningum á almennum vinnumarkaði, þ.m.t. í byggingariðnaði, eru skuldbindandi fyrir alla atvinnurekendur og starfsmenn þeirra, sbr. lög nr. 55/1980 um starfskjör launafólks.

C-244/04. 19. janúar 2006. Framkvæmdastjórnin gegn Þýskalandi. 

Fyrirtæki með rikisborgara þriðja ríkis í starfsliði sínu. Að mati Evrópudómstólsins er aðildarríki óheimilt að gera það að skilyrði fyrir atvinnuþátttöku slíkra starfsmanna á sínu landssvæði að þeir hafi áður verið í a.m.k. eitt ár í þjónustu hins erlenda fyrirtækisins. 

C-341/02. 14. apríl 2005. Framkvæmdastjórnin gegn Þýskalandi.

Hugtakið lágmarkslaun skv. 3. gr. tilskipunarinnar. Fyrirtæki í byggingariðnaði. Samanburður á lágmarkslaunum samkvæmt reglum starfsríkis og þeim launum sem hið erlenda fyrirtæki greiðir starfsmönnum sínum skv. ráðningarsamningi eftir þeim reglum sem gilda í heimaríki þeirra. 

Samkvæmt reglum starfsríkis var ekki tekið tillit til ýmissa hlunninda og aukagreiðslna sem voru hluti af launum hinna erlendu starfsmanna við mat á því hvort laun þeirra uppfylltu kröfur um lágmarkslaun í starfsríkinu. Sá háttur við samanburð á launum í heimaríki og starfsríki var að mati Evrópudómstólsins talinn andstæður ákvæðum tilskipunarinnar.

C-445/03. 21. október 2004. Framkvæmdastjórnin gegn Lúxemborg.

Kröfur starfsríkis um að erlend fyrirtæki sæki um atvinnuleyfi vegna starfsmanna sinna með ríkisfang í þriðja ríki samræmast ekki ákvæðum Rómarsáttmálans um frjáls þjónustuviðskipti.

C-60/03. 12. október 2004. Wolff & Müller.

Í málinu var fjallað um ákvæði í þýskum lögum sem kváðu á um ábyrgð aðalverktaka í byggingariðnaði á kröfum starfsmanna undirverktaka vegna vangoldinna launa. Þær reglur voru að mati Evrópudómstólsins taldar vera í samræmi við markmið tilskipunarinnar um útsenda starfsmenn.

C-279/00. 7. febrúar 2002. Framkvæmdastjórnin gegn Ítalíu.

Í málinu var fjallað um ítölsk lög er kváðu á um að starfsmannaleigur, skráðar í öðrum aðildarríkjum, sem veittu ítölskum fyrirtækjum þjónustu, yrðu að skrá skrifstofu eða útibú á Ítalíu. Auk þess var gerð krafa um að slíkar starfsmannaleigur legðu fram tryggingu að upphæð 700 milljóna líra sem væri gefin út af bankastofnun með skráða skrifstofu eða útibú á Ítalíu.

Niðurstaða Evrópudómstólsins var sú að slík lagaskilyrði brytu í bága við skyldur ítalska ríkisins samkvæmt 49. og 56. gr. Rs.  

C-164/99. 24. janúar 2002. Portugaia Construções.

Málið varðaði fyrirtæki með staðfestu í Portúgal, Portugaia að nafni, sem vann tímabundið að byggingaframkvæmdum í Þýskalandi árið 1997. Rannsókn yfirvalda í Þýskalandi á starfskjörum manna á vinnusvæðinu leiddi í ljós að launakjör starfsmanna Portugaia voru lægri en lágmarkskjör samkvæmt kjarasamningi í byggingariðnaði sem hafði almennt gildi samkvæmt lögum. Var fyrirtækinu skipað að greiða mismunin milli þess tímakaups sem það átti að greiða og þess tímakaups sem fyrirtækið hafði í raun greitt starfsmönnum sínum, margfaldað með fjölda vinnustunda, eða samtals 138.018,52 þýsk mörk.

Málið var lagt fyrir Evrópudómstólinn með hliðsjón af því hvort að framangreind löggjöf og framkvæmd hennar stæðist 59. og 60. gr. Rómarsáttmálans.

Fram kom í málinu að hin þýsku lög sem veittu aðalkjarasamningi í byggingariðnaði almennt gildi höfðu þann tilgang að verja þýskan vinnumarkað einkum gegn félagslegum undirboðum (e. social dumping) vegna innflutnings ódýrs vinnuafls frá láglaunalöndum, að draga úr atvinnuleysi í landinu og til að gera þýskum fyrirtækjum kleift að laga sig að aukinni samkeppni gagnvart fyrirtækjum á innri markaði sambandsins. 

Einnig kom fram að ólíkt þýskum atvinnurekendum, átti atvinnurekendur frá öðrum aðildarríkjum, ekki kost á því að gera sérkjarasamninga við þýsk stéttarfélög um lægri staðbundin launakjör en almennir kjarasamningar í byggingariðnaði kváðu á um. Niðurstaða Evrópudómstólsins var sú að með þessu fyrirkomulagi væri fyrirtækjum mismunað eftir þjóðerni þeirra og bæri að flokka sem óréttmæta hindrun á frelsi fyrirtækja til að veita þjónustu yfir landamæri aðildarríkja sambandsins.

C-49/98, C-50/98, C-52/98 - C-54/98 & C-68/98 - C-71/98. 25. október 2001. Finalarte.

Launað orlof. Samanburður við sambærileg réttindakerfi í heimaríki starfsmanna. 


C-165/98. 15. mars 2001. Mazzoleni.

Kjarasamningur sem gerður var í júní 1993 um starfskjör öryggisvarða á almennum vinnumarkaði og hafði almennt bindandi gildi á grundvelli belgískra laga um kjarasamninga, tók til allra einkarekinna öryggisfyrirtækja sem veittu þjónustu á belgísku yfirráðasvæði, án tillits til þess hvort aðalstöðvar þeirra væri innan eða utan Belgíu. Í þessum samningi voru m.a. ákvæði um lágmarkstímakaup og upphæð ýmissa viðbótargreiðslna. Brot atvinnurekanda á ófrávíkjanlegum ákvæðum kjarasamninga er skilgreint sem refsivert brot samkvæmt áðurnefndum lögum.

Fyrirtækið ISA, með staðfestu í Mont-Saint-Martin í Frakklandi, réði á tímabilinu 1. janúar 1996 til 14. júlí 1997, 13 öryggisverði til að starfa í verslunarmiðstöð í Messancy, Belgíu. Hluti af þessum hóp voru í fullu starfi í Belgíu, en aðrir störfuðu bæði þar og í Frakklandi.

Belgíska vinnueftirlitið óskaði eftir því við Mazzoleni, forsvarsmann þessa fyrirtækis, að hann léti af hendi ýmis gögn um þessa starfsmenn, þ.á m. launaseðla. Þessir launaseðlar báru með sér grunn mánaðarlaun starfsmanns ISA í Belgíu voru 6.692 franskir frankar fyrir 169 vinnustundir, sem svaraði til u.þ.b. 40.152 belgískra franka sem jafngiltu 237.59 belgískum frönkum í tímakaup. Lágmarkslaun samkvæmt áðurnefndum kjarasamningi voru hins 356.68 belgískir frankar.

Á grundvelli þessara upplýsinga var refsimál höfðað gegn Mazzoleni og ISA fyrir brot þeirra á framangreindum lögum og kjarasamningi. ISA byggði vörn sína á því að fyrirtækinu bæri, að því er varðar lágmarkslaun, einungis að virða ákvæði franskra laga á því sviði. Sérstakt eðli öryggisþjónustu hefði það í för með sér að nauðsynlegt væri að rótera starfsfólki milli vinnustaða til að koma í veg fyrir að viðskiptavinir fyrirtækja bæru kennsl á þá. Starfsmenn fyrirtækisins störfuðu af þeim sökum að hluta til í Belgíu, þ.e. starfsmanni kynni á tilteknu tímabili sem gæti verið einn dagur, vika eða mánuður, að vera falið að gegna starfsskyldum sínum að hluta í einhverju nágrannalanda Belgíu. Að mati ISA ætti tilskipunin um útsenda starfsmenn ekki við í slíkum tilvikum.

Þá byggði ISA á því að umræddir 13 starfsmenn nytu á grundvelli franskra laga sömu, eða í öllum verulegum atriðum, sambærilegrar verndar og samkvæmt belgískum lögum. Lágmarkslaun í Frakklandi væru reyndar lægri en í Belgíu, en þegar kæmi að samanburði milli þessara ríkja, þá væri nauðsynlegt að taka með reikninginn stöðu starfsmannsins í heild sinni, þ.m.t. með hliðsjón af skattalögum, sem að sögn ISA, væru hagstæðari í Frakklandi.

Dómstóllinn sendi eftirfarandi fyrirspurnir til Evrópudómstólsins. Í fyrsta lagi hvort að tilskipunin ætti við um þau sérstöku málsatvik sem fyrir hendi voru í þessu máli og í öðru lagi hvort ákvæði áðurnefndra laga um lágmarkslaun færu í bága við 59. og 60. gr. Rs., að teknu tilliti til þess að umræddir starfsmenn nytu sambærilegrar verndar samkvæmt frönskum lögum um lágmarkslaun heildstætt metið þegar jafnframt væri tekið tillit til annarra þátta (áhrifa skattalaga, tryggingaverndar vegna veikinda, þ.m.t. skyldubundins viðbótartryggingarkerfis í Frakklandi, tryggingarverndar vegna vinnuslysa, ekknabóta, atvinnuleysistrygginga, greiðslna við starfslok og dauða).

Niðurstaða Evrópudómstólsins var sú að þar sem atvik þessa máls áttu sér áður en frestur aðildarríkja til að innleiða tilskipun um útsenda starfsmenn í landsrétt sinn var útrunninn, væri ekki hægt að byggja á ákvæðum hennar í þessu máli. Niðurstaða dómstólsins að því er varðar síðari fyrirspurnina var á þá leið að 59. gr. Rómarsáttmálans (nú 49. gr.) og 60. gr. (nú 50. gr.) komi ekki í veg fyrir að aðildarríki krefjist þess af fyrirtæki sem hefur staðfestu í öðru aðildarríki, en veitir þjónustu í því fyrra, að það greiði starfsmönnum þau lágmarkslaun sem mælt fyrir um í lögum þess ríkis. Beiting slíkra reglna geti engu að síður verið talin ganga lengra en tilefni sé til, ef hlutaðeigandi starfsmenn starfa á vegum fyrirtækis sem er staðsett í landamærahéraði og verða, í hlutastarfi og í skamman tíma hverju sinni, að gegna hluta af starfsskyldum sínum á landssvæði eins, eða eftir atvikum fleiri aðildarríkja, en þess ríkis þar sem vinnuveitandi þeirra er með staðfestu.

Það sé í verkahring til bærra stjórnvalda í því ríki þar sem slík fyrirtæki veita þjónusta að ákveða hvort, og að hve miklu leyti, beiting ákvæða í landsrétti um lágmarkslaun sé nauðsynleg og hæfileg í því skyni að tryggja vernd hlutaðeigandi starfsmanna.

C-58/98. 3. október 2000. Corsten.

C-369/96 og C-376/96. 23. nóvember 1999. Arblade.

Tvö frönsk fyrirtæki unnu við byggingaframkvæmdir í Belgíu en létu undir höfuð leggjast að greiða starfsmönnum sínum sem þangað voru sendir á árinum 1991 til 1993 laun í samræmi við þarlenda kjarasamninga. Af hálfu belgískra yfirvalda var höfðað refsimál á hendur forsvarsmönnum viðkomandi fyrirtækja, Arblade og Leloup, vegna brota þeirra á lögum er veita kjarasamningum þar í landi almennt gildi. Í málinu reyndi á ekki aðeins á gilda kjarasamninga að því er varðar lágmarkslaun heldur einnig á ýmsa aðra þætti í þarlendri vinnulöggjöf. Var m.a. deilt um það hvort heimilt væri að skylda hin erlendu fyrirtæki til að kaupa sérstakar launatryggingar vegna óveðurs og greiða ákveðna bónusa tengdum ráðningartíma starfsmanna. Auk þess var deilt um gildi reglna varðandi útgáfu og varðveislu starfsmannareglna, ráðningarsamninga, skrá yfir starfsmenn o.fl. 

Evrópudómstóllinn féllst á að heimilt væri að skylda erlend þjónustufyrirtæki til að fara að kjarasamningum í gistiríki. Evrópudómstóllinn skilgreinir slíkar reglur engu að síður sem takmarkanir á rétti fyrirtækja til veita þjónustu yfir landamæri ríkja og verða slíkar takmarkanir því að uppfylla ákveðin skilyrði:  

- slíkar takmarkanir verður að vera hægt að réttlæta með vísan til mjög mikilvægra þátta er varða vernd almannahagsmuna.
- aðildarríki verður að virða meginreglur um gagnkvæma viðurkenningu, þ.e. horfa verður til þess hvernig málum er skipað í heimaríki viðkomandi starfsmanna. 
- takmarkanir verða að byggja á hlutlægum ástæðum, og 
- gæta verður meðalhófs, þ.e. ekki má ganga lengra en nauðsyn krefur miðað við þá hagsmuni sem viðkomandi reglum er ætlað að standa vörð um. 

C-272/94. 28. mars 1996. Guiot.

Skylda atvinnurekanda til að greiða gjöld vegna útsendra starfa til félagslegra sjóða. 

C-43/93. 9. ágúst 1994. Vander Elst.

Erlent þjónustufyrirtæki var með ríkisborgara þriðja ríkis í starfsliði sínu. Þeir voru löglegir í aðildarríkinu þar sem fyrirtækið hafði staðfestu. Evrópudómstóllinn kvað á um að fyrirtækinu hefðu að þeim sökum verið heimilt að senda þá til annarra ríkja innan Evrópusambandsins í tengslum við veitingu þjónustu og að viðkomandi aðildarríkjum væri óheimilt að gera þá kröfu að sótt væri um atvinnuleyfi fyrir þá.

C-113/89. 27. mars 1990. Rush Portuguesa.

Fyrirtæki með staðfestu í Portúgal var með ríkisborgara þriðja ríkis í starfsliði sínu. Spurt var hvort því væri heimilt að senda þá til annars aðildarríkis til að vinna þar tímabundið við byggingarframkvæmdir án þess að sækja um atvinnuleyfi fyrir þá.

Evrópudómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að fyrirtækinu væri ekki skylt að sækja um atvinnuleyfi í gistiríkinu vegna þeirra. Það skilyrði var hins vegar sett að starfsmennirnir væru löglegir í Portúgal, þ.m.t. með atvinnuleyfi þar í landi, hluti af föstu starfsliði fyrirtækisins og að einungis væri um tímabundna atvinnuþátttöku í gistiríkinu að ræða.

Evrópudómstóllinn tekur það fram að aðildarríkjum sé heimilt að knýja erlend þjónustufyrirtæki til að greiða starfsmönnum sínum laun í samræmi við kjarasamninga sem almennt gildi hafa í gistiríkinu.

Var efnið hjálplegt?