Upplýsingar og samráð

Tilskipun 2002/14/EB frá 11. mars 2002, um almennan ramma um upplýsingamiðlun til launamanna og samráð við þá innan Evrópubandalagsins.

Tilskipunin á ensku.

Gildandi reglur. Lög nr. 151/2006, um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum.

Markmið og gildissvið. Markmið þessarar tilskipunar er að setja almennan ramma um lágmarkskröfur um rétt launafólks til upplýsinga og samráðs í fyrirtækjum.

Samkvæmt tilskipuninni tekur upplýsinga- og samráðsskylda atvinnurekanda til eftirfarandi þátta:  

a) upplýsinga um nýlega þróun og líklega þróun í starfsemi og fjárhagsstöðu fyrirtækisins eða starfsstöðvarinnar.
b) upplýsinga og samráðs um stöðu, skipulag og líklega þróun atvinnumála innan fyrirtækisins eða starfsstöðvarinnar og um allar ráðstafanir sem fyrirsjáanlegt er að þurfi að gera, einkum þegar atvinnuöryggi er ógnað.
c) upplýsinga og samráðs um ákvarðanir sem líklegt er að leiði til verulegra breytinga á skipulagi vinnunnar eða á ráðningarsamningum.

Atvinnurekandi skal veita fulltrúum starfsmanna upplýsingar á þeim tíma, á þann hátt og með því efni sem heppilegast er til að gera þeim kleift að hefja viðeigandi athugun og undirbúa samráð, ef þess gerist þörf.

Samráð skal eiga sér stað:
a) þannig að tryggt sé að tímasetning, aðferð og innihald sé eins og við á.
b) á viðeigandi stjórnunarstigi og með viðeigandi fyrirsvari eftir því hvaða efni er til umræðu.
c) á grundvelli upplýsinga frá atvinnurekanda og álits sem fulltrúum starfsmanna er heimilt að setja fram.
d) á þann hátt að fulltrúum starfsmanna sé kleift að hitta atvinnurekandann og fá viðbrögð, og ástæðurnar fyrir þeim, við hverju því áliti sem þeir kunna að setja fram.
e) með það fyrir augum að ná samkomulagi um ákvarðanir sem eru innan valdsviðs atvinnurekandans.  

Aðildarríkjum er heimilt að kveða á um rétt atvinnurekanda til að binda ákveðnar upplýsingar trúnaði eða að halda þeim frá fulltrúum starfsmanna séu þær samkvæmt hlutlægum viðmiðunum þess eðlis að það geti valdið alvarlegu tjóni eða röskun á starfsemi fyrirtækisins að láta þær af hendi.

Að vali aðildarríkjanna skal tilskipunin gilda um:
a) fyrirtæki sem hafa a.m.k. 50 launamenn í vinnu í einhverju aðildarríki, eða
b) fyrirtæki sem hafa a.m.k. 20 launamenn í vinnu í einhverju aðildarríki.

Samkvæmt bráðabirgðaákvæði tilskipunarinnar er aðildarríkjum hins vegar heimilt að miða gildissviðið við: 
a) fyrirtæki sem hafa a.m.k. 150 launamenn í vinnu eða starfsstöðvar þar sem a.m.k. 100 launamenn vinna, fram til 23. mars 2007, og
b) fyrirtæki sem hafa a.m.k. 100 launamenn í vinnu eða starfsstöðvar þar sem a.m.k. 50 launamenn vinna á því ári sem er næst á eftir þeim degi sem um getur í a-lið.

Gildissvið laga nr. 151/2006 um upplýsingar og samráð, takmarkast fram til 1. mars 2008 við fyrirtæki þar sem starfa að jafnaði a.m.k. 100 starfsmenn. Eftir það miðast gildissviðið við  fyrirtæki þar sem starfa að jafnaði a.m.k. 50 starfsmenn, sbr. 1. gr. laganna.


__________________________________________

Efta-dómstóllinn

Mál er varðar túlkun þessarar tilskipunar hafa ekki komið til kasta Efta - dómstólsins.

Evrópudómstóllinn

C-385/05. 18. janúar 2007. Confédération générale du travail (CGT).

Evrópudómstóllinn fjallar í þessu máli um gildissvið tilskipunar 2002/14/EB og tilskipunar um 98/59/EB hópuppsagnir, með hliðsjón af reglum í landsrétti aðildarríkis sem kváðu á um útreikning á fjölda starfsmanna vegna framkvæmdar þarlendra laga um hópuppsagnir. Samkvæmt þeim reglum voru starfsmenn yngri en 26 ára undanþegnir gildissviðinu. Af því leiddi að uppsagnir á starfsmönnum í þessum hóp voru ekki taldar með við útreikninga á því hvort heildarfjöldi uppsagna í fyrirtæki væri í þeim mæli að um hópuppsögn teldist vera að ræða. 

Áhrif þessara reglna voru jafnframt þau að launafólk yngra en 26 ára naut ekki réttinda í samræmi við ákvæði þessara tilskipana hvað varðar rétt til upplýsinga og samráðs.

Evrópudómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að reglur með þessu efni í landsrétti aðildarríkis væru óheimilar samkvæmt lágmarksákvæðum beggja tilskipana.

Var efnið hjálplegt?