Evrópskt samstarfsráð - EES

Tilskipun ráðsins nr. 94/45/EB frá 22. september 1994 um stofnun evrópsks samstarfsráðs eða samþykkt reglna í fyrirtækjum og fyrirtækjahópum er starfa á bandalagsvísu varðandi upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn.          

Tilskipunin á ensku.

Síðari breytingar. Tilskipun nr. 97/74/EB frá 15 desember 1977 um útvíkkun gildissviðs tilskipunar nr. 94/45/EB til Bretlands og Norður-Írlands.

Gildandi lög. Lög nr. 61/1999, um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum.

Markmið og gildissvið. Tilskipunin kveður á um að fyrirtæki sem hefur a.m.k. 1000 starfsmenn í ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu og er með starfsstöðvar í a.m.k. tveimur EES-ríkjum og hefur a.m.k. 150 starfsmenn í hvoru þeirra, skuli setja á laggirnar evrópskt samstarfsráð eða setja reglur um upplýsingamiðlun.

Aðalstjórn fyrirtækisins ber ábyrgð á því að viðeigandi skilyrði séu sköpuð fyrir stofnun slíks samstarfsráðs eða samþykkt reglna um upplýsingamiðlun og samráð.

Ef slíkt samstarfsráð er stofnað hefur það rétt til þess að eiga fund með aðalstjórn fyrirtækjasamsteypunnar einu sinni á ári til upplýsingar og samráðs. Aðalstjórn ber að útbúa skýrslu um rekstur og rekstrarhorfur fyrirtækisins sem lögð skal til grundvallar fundinum. Á slíkum ársfundi skal einkum fjallað um uppbyggingu fyrirtækisins eða fyrirtækjasamstæðunnar, efnahags- og fjárhagslega stöðu, líklega þróun hvað varðar rekstur, framleiðslu og sölu, ástand og horfur í atvinnumálum, fjárfestingar og umtalsverðar breytingar á skipulagi fyrirtækisins eða fyrirtækjasamstæðunnar, tilkomu nýrra starfsaðferða eða framleiðsluaðferða, flutning framleiðslu, samruna fyrirtækja, niðurskurð eða lokun fyrirtækja, starfsstöðva eða annarra mikilvægra hluta þeirra og hópuppsagnir.

_____________________________________________________________________

EFTA-dómstóllinn

Málum er varða túlkun á tilskipun um evrópsk samstarfsráð hefur enn sem komið er ekki verið vísað til EFTA-dómstólsins.


Evrópudómstóllinn


C-349/01. 15. júlí 2004. Anker. 

Fyrirtækið Anker BV, með staðfestu í Hollandi, var eigandi allra hlutabréfa í ADS Anker og annarra fyrirtækja sem voru hluti Anker samsteypunnar, en þau voru með staðfestu í Svíþjóð, Noregi, Danmörku, Finnlandi, Bretlandi, Hollandi, Austurríki,  Frakklandi, Belgíu og Ungverjalandi.  Anker Systems GmbH, móðurfélag Anker BV, var með staðfestu í Sviss. 

Fram kom í málinu að það fyrirtæki innan Anker samsteypunnar sem hafði flesta starfsmenn í einu aðildarríki skilningi 2. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar var RIVA, fyrirtæki með staðfestu í Bretlandi. Það fyrirtæki var með um 1000 starfsmenn. 

Það lá einnig fyrir að aðalstjórn samsteypunnar var annað hvort á ábyrgð RIVA, sem flokka mátti sem aðalstjórn í skilningi 2. mgr. 4. gr. eða 3. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar, eða Anker BV, sem var aðalstjórn hins ráðandi fyrirtækis innan samsteypunnar í skilningi e-liðar 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar.

Innan Anker samsteypunnar var hvorki til staðar Evrópskt samstarfsráð né annars konar fyrirkomulag upplýsinga og samráðs í skilningi tilskipunarinnar.

Starfsmannaráð ADS Anker óskaði á grundvelli þýskra laga um Evrópsk samstarfsráð eftir upplýsingum frá stjórn ADS Anker um meðalfjölda starfsmanna og dreifingu þeirra milli aðildarríkja á fyrirtæki og starfsstöðva og uppbyggingu samsteypunnar að öðru leyti. Auk þess var óskað eftir upplýsingum um starfsmannaráð og nöfn á fulltrúum starfsmanna sem væru bærir til að taka þátt í stofnun Evrópsks samstarfsráðs.

ADS Anker kvaðst ekki geta orðið við þessari beiðni þar sem bæði móðurfyrirtækið Anker BV, og móðurfyrirtæki samsteypunnar, Anker Systems GmbH, neituðu að láta þessar upplýsingar af hendi. Þá taldi ADS Anker að hin þýsku lög sem beiðni var byggð á sköpuðu fulltrúum starfsmanna ekki rétt til upplýsingar gagnvart fyrirtækjum með staðfestu í öðrum aðildarríkjum.

Þeirri fyrirspurn var beint til Evrópudómstólsins, í fyrsta lagi hvort það væri skilyrði skv. tilskipuninni, einkum skv. 4. og 11. gr., að fyrirtæki með staðfestu í Bretlandi, sem hefði stöðu sem aðalstjórn í skilningi 2. mgr. 4. gr. og 3. mgr. 4. gr., eða fyrirtæki með staðfestu i Hollandi, sem hefðu stöðu sem aðalstjórn hins ráðanda fyrirtækis skv. e-liðar 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 3. gr., bæri skylda til að láta öðru fyrirtæki í té, í þessu tilviki fyrirtæki í Þýskalandi sem tilheyrði sömu fyrirtækjasamsteypu, upplýsingar um fyrirtæki og starfstöðvar innan samsteypunnar, þ.m.t. um rekstrarform þeirra samkvæmt lögum, hvernig málefnum fulltrúa starfsmanna væri háttað, um meðalfjölda starfsmanna og skiptingu þeirra milli aðildarríkja.

Í öðru lagi hvort að skyldan til veita slíkar upplýsingar nái einnig til þess hvaða nöfn starfsmannaráðin bera og hvað fulltrúar starfsmanna heita sem myndu taka þátt í fyrir þeirra hönd að stofna Evrópskt samstarfsráð. 

Evrópudómstóllinn svarar þessari fyrirspurn með þeim orðum að tilskipunin leggi þær skyldur á aðildarríkin að mæla svo fyrir með lögum að aðalstjórn fyrirtækis, samkvæmt framansögðu, beri að láta fyrirtæki með staðfestu í öðru aðildarríki, sem tilheyrir sömu fyrirtækjasamsteypu, upplýsingar sem fulltrúar starfsmanna í því fyrirtæki hafa óskað eftir, hafi það ekki sjálft yfir þeim upplýsingum að ræða, að því tilskyldu að þær upplýsingar séu mjög nauðsynlegar (e. essential) svo hefja megi viðræður um stofnun Evrópsks samstarfsráðs. Það sé hins vegar í verkahring dómstóla í aðildarríkjum að ákveða hvort umbeðnar upplýsingar séu mjög nauðsynlegar í þessum skilningi.


__________________________________

C-440/00. 13. janúar 2004. Kühne & Nagel.

Aðalstjórn móðurfyrirtækis fyrirtækjasamsteypu ekki staðsett í EES-ríki.

Í því tilviki telst aðalstjórn fyrirtækjasamstæðu vera sá fulltrúi sem aðalstjórn tilnefnir. Ef slíkur fulltrúi hefur ekki verið tilnefndur telst aðalstjórn vera stjórn þess fyrirtækis eða starfsstöðvar sem hefur flesta starfsmenn í EES-ríki, sbr. 2. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar. Skylda til að veita fulltrúum starfsmanna nauðsynlegar upplýsingar svo hefja megi viðræður um stofnun Evrópsks samstarfsráðs hvílir þá á aðalstjórn þess fyrirtækis. 


__________________________________

C-62/99. 29. mars 2001.  Boquoi.

Fyrirtæki sem tilheyrir fyrirtækjasamsteypu ber að láta fulltrúaráði starfsmanna í té upplýsingar, jafnvel þó ekki liggi fyrir á því stigi hvort að framkvæmdastjórn þess fyrirtækis sem beiðni um upplýsingar er beint að, sé í raun framkvæmdastjórn hins ráðanda fyrirtækis innan samsteypunnar.

Þegar upplýsingar er varða uppbyggingu eða skipulag fyrirtækjasamsteypu eru hluti af upplýsingum sem nauðsynlegar eru svo hefja megi viðræður um stofnun Evrópsks samstarfsráðs eða uppsetningu á kerfi upplýsinga og samráðs þvert á landamæri, þá er einstökum fyrirtækjum sem tilheyrir samsteypunni skylt að láta fulltrúaráði starfsmanna í té upplýsingar sem það hefur yfir að ráða eða er í aðstöðu til afla, hafi ráðið beðið um slíkar upplýsingar.

Var efnið hjálplegt?