Gjaldþrot atvinnurekanda - EES

   

Tilskipun ráðsins nr. 80/987/EBE  frá 20. október 1980 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota.

Síðari breytingar. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2002/74/EB frá 23. september 2002 um breytingu á tilskipun 80/987/EBE.

Tilskipanir á ensku:

Directive 80/987/EEC.

Directive 2002/74/EC. 


Gildandi lög.  
Lög nr. 88/2003, um Ábyrgðarsjóð launa.

Markmið og gildissvið. Tilskipunin mælir fyrir um að í aðildarríkjum skuli vera fyrir hendi sérstakir tryggingasjóðir er hafi það hlutverk að ábyrgjast greiðslur vegna vangoldinna launakrafna starfsmanna við gjaldþrot atvinnurekanda.

Aðildarríkjum er heimilt að ákveða hámarksábyrgð á kröfum starfsmanna til þess að komast hjá því að greiða hærri fjárhæðir en félagslegt markmið tilskipunarinnar gefur tilefni til.

Tilskipunin hefur ekki áhrif á rétt aðildarríkja til þess að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir misnotkun og til að hafna greiðsluábyrgð eða lækka hana komi í ljós að skuldbindingin sé óréttmæt vegna sérstakra tengsla starfsmanns og atvinnurekanda og sameiginlegra hagsmuna sem leiðir til þess að þeir gera með sér leynilegt samkomulag.

_____________________________________________________________________


Efta-dómstóllinn

E-9/97. 10. desember 1998Erla María Sveinbjörnsdóttir.

Aðildarríkjum EES-samningsins ber skylda til að bæta einstaklingum það fjárhagstjón sem þeir verða fyrir vegna rangrar innleiðingar á tilskipun sem tekin hefur verið upp í EES-samninginn.

Tilskipun 80/987/EBE sem vísað er til í lið 24 viðauka XVIII EES samningsins, ber að túlka á þann hátt að hún útiloki íslensk stjórnvöld frá því að viðhalda í löggjöf sinni ákvæði sem undanþiggur Ábyrgðasjóð launa ábyrgð á vangoldnum launum starfsmanns gjaldþrota fyrirtækis vegna skyldleikatengsla umrædds starfsmanns og einstaklings sem átti 40% eignahlut í hinu gjaldþrota félagi.


E-1/95. 20. júní 1995Samuelsson.

Aðildarríkjum er heimilt á grundvelli 10. gr. a tilskipunar 80/987/EBE að undanþiggja kröfur launamanna ábyrgð ef það er gert til að koma í veg fyrir misnotkun. Ákvæðið heimilar þó ekki aðildarríkjum að undanþiggja kröfur ábyrgð á þeim grundvelli að starfsmaðurinn hafi á síðustu tveimur árum fyrir úrskurð um gjaldþrotaskipti á búi atvinnurekanda fengið greiðslu úr ábyrgðasjóði vegna starfa sinna fyrir annað fyrirtæki í sömu eða sambærilegri atvinnugrein.

 

Evrópudómstóllinn


C-278/05. 25. janúar 2007. Robins.

Evrópudómstóllinn fjallar í þessu máli um skyldur aðildarríkis samkvæmt 8. gr. tilskipunarinnar. Í þeirri grein er kveðið á um að aðildarríkin skuli sjá til þess að nauðsynlegar ráðstafanir séu gerðar til að vernda hagsmuni starfsmanna og hagsmuni þeirra sem ekki starfa lengur hjá fyrirtæki þann dag sem atvinnurekandinn verður gjaldþrota að því er varðar áunnin eða væntanleg réttindi þeirra til ellilífeyris, þ.m.t. eftirlifendabóta, hjá viðbótarlífeyrissjóðum fyrir eina eða fleiri starfsstéttir sem eru utan lögskipaðra almannatryggingakerfa í aðildarríkjunum.


_______________________________

C-81/05. 7. september 2006. Alonso.

Ábyrgðasjóði launa í aðildarríki ber samkvæmt tilskipuninni og almennum jafnræðisreglum að meðhöndla bótakröfur starfsmanna sem til eru komnar vegna slita á ráðningarsamningi á sama hátt án tillits til þess hvort þær byggja á ákvæðum laga eða samninga. 


_______________________________

C-520/03. 16. desember 2004. Valero. 

Evrópudómstóllinn kveður hér á um að það sé í verksviði dómstóls aðildarríkis að leggja mat á það hvort undir hugtakið laun eins og það er skilgreint í rétti aðildarríkis falli einnig bætur vegna óréttmætrar uppsagnar.

Ef svo er þá falli kröfur um slíkar bætur undir gildissvið tilskipunarinnar eins og hún var áður en henni var breytt með tilskipun 2002/74/EB. Í þeirri tilskipun er allur vafi tekinn af um það slíkar kröfur falla undir gildissvið tilskipunarinnar. 


_______________________________

C-19/01, C-50/01 og C-84/01. 4. mars 2004. Barsotti.

Evrópudómstóllinn fjallar í þessu máli um svigrúm aðildarríkja til að takmarka ábyrgð sína á kröfum launamanna við gjaldþrot atvinnurekanda á grundvelli 3. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar. Í þeirri grein segir að aðildarríkjum sé heimilt að ákveða hámarksábyrgð á óinnheimtum kröfum starfsmanna til þess að komast hjá því að greiða hærri fjárhæðir en félagslegt markmið tilskipunarinnar gefur tilefni til.

Niðurstaða dómstólsins var á þá leið að vegna ákvæða 1. mgr. 3. gr. og 3. mgr. 4. gr. sé aðildarríkjum ekki heimilt að takmarka ábyrgð sjóðsins við upphæð sem á að nægja til að uppfylla lágmarksframfærsluþörf launamanns og draga síðan frá þeirri upphæð greiðslur sem atvinnurekandi greiðir á því tímabili sem krafa launamannsins nýtur ábyrgðar.


_______________________________

C-125/01. 18. september 2003. Pflücke.C-201/01. 11. september 2003. Walcher.C-442/00. 12. desember 2002. Caballero.C-441/99. 18. október 2001. Gharehveran.___________________________________

C-198/98. 16. desember 1999. Everson.

Í þessu máli var fjallað um þá spurningu hvert starfsmenn gjaldþrota fyrirtækis sem starfa á vegum útibús þess í öðru aðildarríki eiga að leita með kröfur sínar. Hið gjaldþrota fyrirtæki Bell var frá Írlandi en útibúið var skráð í Bretlandi. 

Þegar Bell var úrskurðað gjaldþrota leituðu þeir starfsmenn sem tilheyrðu breska útibúinu til Ábyrgðarsjóðs launa þar í landi. Kröfum þeirra var hins vegar hafnað og þeim vísað til Ábyrgðarsjóðs launa í Írlandi. Fram kom í málinu að opinber gjöld vegna þeirra höfðu verið greidd til breska ríkisins. 

Evrópudómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að þar til bær stofnun í skilningi tilskipunarinnar til að bera ábyrgð á kröfum þessara starfsmanna væri ábyrgðarsjóður launa í því landi þar sem þeir hefðu unnið fyrir laununum.


___________________________________

C-321/97. 15. júní 1999. Andersson.___________________________________

C-235/95. 16. júlí 1998. Dumon.

 

___________________________________


C-125/97. 14. júlí 1998. A.G.R. Regeling.

Í þessu máli var launakrafa starfsmanns á hendur atvinnurekanda tvíþætt. Annars vegar var um ræða um kröfu um laun vegna vinnuframlags sem hann innti af hendi fyrir upphaf ábyrgðartímabilsins samkvæmt tilskipuninni og hins vegar kröfu um laun fyrir vinnu sem hann skilaði á sjálfu ábyrgðartímabilinu. Álitamálið var það hvaða áhrif það hefur á kröfugerð starfsmannsins á hendur ábyrgðasjóði launa vegna vangoldinna launa á ábyrgðartímabilinu ef atvinnurekandinn greiðir á því tímabili inná á eldri launakröfuna.

Að mati Evrópudómstólsins er það andstætt félagslegu markmiði tilskipunar 80/987/EBE að túlka ákvæði hennar á þann hátt að starfsmaður í framangreindri stöðu þurfi að sæta lækkun á kröfu sinni eða eftir atvikum niðurfellingu hennar. 


___________________________________

C-117/96. 17. september 1997. Mosbæk.

Málsatvik voru þau að Colorgen fyrirtæki skráð í Bretlandi réð danskan ríkisborgara Mosbæk að nafni sem verslunarstjóra fyrir markaðssvæðið Danmörk, Noreg, Svíþjóð, Finnland og Þýskaland. Skyldi hann vera með aðsetur í Danmörku. Colorgen var ekki með skráð útibú í Danmörku né hafði það tilkynnt um starfsemi sína til skatt- eða tollyfirvalda þar í landi. Fyrirtækið leigði hins vegar skrifstofuaðstöðu fyrir Mosbæk í Danmörku. 

Colorgen greidd Mosbæk laun en dró ekki frá launatengd gjöld að neinu tagi samkvæmt dönskum lögum. Þegar fyrirtækið var úrskurðað gjaldþrota í júlí 1994 krafði Mosbæk danska ábyrgðarsjóðinn um greiðslu vangoldinna launa. Ábyrgðarsjóðurinn þar í landi neitaði ábyrgð og vísaði Mosbæk á ábyrgðarsjóð launa í Bretlandi þar sem fyrirtækið hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Mosbæk féllst ekki á þessa niðurstöðu og stefndi danska ábyrgðarsjóðnum. Í framhaldi af því var óskað eftir áliti Evrópudómstólsins. Meginniðurstaða Evrópudómstólsins var á þá leið að launafólk eigi að beina kröfum sínum til ábyrgðarsjóðs launa í því ríki þar sem bú atvinnurekanda er tekið til gjaldþrotaskipta.

Þessi niðurstaða hefur takmarkað fordæmisgildi vegna dóms Evrópudómstólsins í málinu C-198/98 Everson og nýrrar tilskipunar á þessu sviði.


___________________________________


C-373/95. 10. júlí 1997. Maso.

 

C-261/95. 10. júlí 1997. Palmisani.C-94/95 og C-95/95. 10. júlí 1997. Bonifaci.C-479/93. 9. nóvember 1995. Francovich.C-334/92. 16. desember 1993. Miret.C-140/91, C-141/91, C-278/91 og C-279/91. 3. desember 1992. Suffritti.C-6/90 og C-9/90. 19. nóvember 1991. Francovich og Bonifaci.

 

C-53/88. 8. nóvember 1990. Framkvæmdastjórnin gegn Grikklandi.

 

22/87. 2. febrúar 1989. Framkvæmdastjórnin gegn Ítalíu.

Var efnið hjálplegt?