Frjáls för launafólks

EES-samningurinn 1993

EES-samningurinn tryggir sérhverjum ríkisborgara EES-ríkis, óháð búsetu, rétt til að ráða sig til vinnu og rækja það starf á yfirráðasvæði annars EES-ríkis, í samræmi við þau ákvæði í lögum eða stjórnsýslufyrirmælum sem gilda um atvinnuréttindi ríkisborgara viðkomandi ríkis.

Ríkisborgari EES-ríkis skal m.a. njóta þeirra réttinda að ráða sig til vinnu á yfirráðasvæði annars EES-ríkis með sama forgangsrétti og ríkisborgarar þess ríkis. EES-ríkisborgari sem vill starfa hér á landi þarf m.ö.o. ekki að sækja um atvinnuleyfi til íslenskra stjórnvalda til að mega starfa hér á landi. Hann þarf hins vegar að sækja um dvalarleyfi til Útlendingastofnunar stefni hann að því vera hér lengur en þrjá mánuði, skrá lögheimili sitt hjá þjóðskrá og sækja um skattkort, svo það helsta sé nefnt.

Atvinna og jafnræði

Óheimilt er að láta launamann, sem er ríkisborgari annars EES-ríkis en þess sem hann starfar í, gjalda þjóðernis síns hvað viðvíkur ráðningar- og vinnuskilyrðum, einkum og sér í lagi hvað varðar launakjör, uppsögn úr starfi og, komi til atvinnumissis, endurskipun eða endurráðningu.

Ríkisborgarar EES-ríkis eiga rétt á því að njóta sömu félagslegra réttinda og skattaívilnana og innlent launafólk. Það skal einnig í krafti sama réttar og með sömu skilyrðum hafa sama aðgang og innlent launafólk að þjálfun í skólum er tengjast atvinnulífinu og endurmenntun.

Öll ákvæði í kjarasamningum, ráðningarsamningum eða öðrum almennum reglugerðum sem varða aðgang að atvinnu og öll önnur starfsskilyrði eða uppsagnarákvæði eru ógild og að engu hafandi að svo miklu leyti sem þau mæla fyrir um eða heimila mismunun launafólks sem eru ríkisborgarar annarra EES-ríkja.

Fjölskyldur launamanna

Samkvæmt EES-samningnum hafa eftirfarandi einstaklingar, óháð þjóðerni, rétt til að koma sér fyrir hjá launamanni sem er ríkisborgari EES-ríkis en starfar á yfirráðasvæði annars EES-ríkis:
a. maki hans ásamt afkomendum þeirra sem eru yngri en 21 árs eða eru á þeirra framfæri, og 
b. ættmenn launamanns og maka hans að feðgatali sem eru á þeirra framfæri.

Stjórnvöldum í EES-ríkjum ber að auðvelda þeim aðstandendum, sem ekki eru taldir upp hér að framan en eru á framfæri launamanns sem að framan er getið eða hafa búið undir sama þaki í landinu sem hann kom frá, að koma til ríkisins.

Atvinnuréttindi aðstandenda launamanns

Í þeim tilvikum þar sem ríkisborgari EES-ríkis hefur ráðið sig til vinnu, eða er sjálfstætt starfandi á yfirráðasvæði annars EES-ríkis, eiga maki hans og þau barnanna, sem eru yngri en 21 árs eða eru á hans framfæri, rétt til að ráða sig í hvaða vinnu sem er hvar sem er á yfirráðasvæði þess ríkis, jafnvel þó að þau séu ekki ríkisborgarar neins EES-ríkis.

Börn ríkisborgara EES-ríkis, sem er eða hefur verið ráðinn til vinnu á yfirráðasvæði annars EES-ríkis, skulu eiga rétt á almennri skólagöngu í því ríki, námsvist og starfsþjálfunarnámskeiðum með sömu skilyrðum og ríkisborgarar þess ríkis, að því tilskildu að börnin búi þar. EES-ríkin skulu leggja sig fram um að gera þessum börnum kleift að stunda námið við ákjósanlegustu skilyrði.

Nánar er fjallað um þetta efni í lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins nr. 47/1993.

Upplýsingar um laun og önnur starfskjör útlendinga á íslenskum vinnumarkaði

Fjölmörg dæmi eru um að innlendir atvinnurekendur, ekki síður en erlendir sem hér hafa verið með tímabundna atvinnustarfsemi, hafi orðið uppvísir að því að greiða erlendum starfsmönnum sem þeir hafa haft í sinni þjónustu laun undir lágmarksákvæðum kjarasamninga og/eða brotið með öðrum hætti á réttindum þeirra. Erlendum launamönnum er með þessum hætti mismunað í launum og öðrum starfskjörum á grundvelli þjóðernis síns samanborið við innlent launafólk. Þegar þannig háttar til er einnig talað um að atvinnurekandi stundi félagsleg undirboð. Með því er átt við að atvinnurekandi undirbjóði keppinauta sína á markaði með því greiða lægra gjald en honum ber samkvæmt lögum og kjarasamningum fyrir vinnuaflið sem hann notar vegna framleiðslu sinnar eða þeirrar þjónustu sem hann veitir. Slík háttsemi getur veitt atvinnurekanda tímabundið forskot á markaði, en neikvæðar afleiðingar fyrir samkeppnisaðila, starfsmenn hans sem og starfsmenn almennt í viðkomandi starfsgrein og samfélagið allt eru hins vegar miklu mun alvarlegri.

Til ýmissa úrræða hefur verið gripið í þeim tilgangi að sporna gegn slíkum félagslegum undirboðum. Meðal þeirra er samkomulag sem Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins gerðu vorið 2004 en það mælir fyrir um upplýsingaskyldu atvinnurekanda og málsmeðferð í ágreiningsmálum er varða erlenda starfsmenn.

Almennar forsendur

Í forsendum þessa samkomulags segir að aðilar að því séu þeirrar skoðunar að breytingar á samsetningu vinnuafls vegna fjölgunar útlendinga á íslenskum vinnumarkaði, eigi ekki að raska gildandi fyrirkomulagi við ákvörðun launa og annarra starfskjara launafólks með kjarasamningum. Áfram verði byggt á gildandi reglum um framkvæmd kjarasamninga. Það sé sameiginlegt viðfangsefni aðila að stuðla að því að fyrirtæki, sem nýta erlent vinnuafl vegna framleiðslu sinnar eða þjónustu, greiði laun og starfskjör í samræmi við kjarasamninga og lög hér á landi. Ef kjarasamningar séu ekki virtir grafi það undan starfsemi annarra fyrirtækja og spilli forsendum eðlilegrar samkeppni og dragi úr ávinningi alls samfélagsins af traustu og heilbrigðu atvinnulífi.

Meginreglur um starfskjör útlendinga

Með þessu samkomulagi vilja Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins tryggja  framkvæmd gildandi laga um starfskjör útlendinga á íslenskum vinnumarkaði.  Þessar reglur er einkum að finna á eftirfarandi sviðum:

  • Laun og önnur starfskjör. Í lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980 , er kveðið á um að laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skuli vera lágmarkskjör, óháð þjóðerni fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er kjarasamningur tekur til.
  • Starfsmenn erlendra þjónustufyrirtækja, þar með talið starfsmannaleiga.  Lög um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja nr. 54/2001, kveða m.a. á um að starfsmenn skuli, meðan þeir starfa hér, njóta kjarasamningsbundinna launa, orlofsréttinda og reglna á sviði aðbúnaðar, hollustuhátta og öryggis á vinnustöðum. Sjá núlög nr. 45/2007, um skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.
  • Frjáls för launafólks.  EES-samningurinn og lög um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins nr. 47/1993, kveða á um að óheimilt sé að láta launafólk sem er ríkisborgari annars EES-ríkis en þess sem það starfar í gjalda þjóðernis síns hvað viðvíkur ráðningar- og vinnuskilyrðum, einkum og sér í lagi hvað varðar launakjör. 
  • Atvinnuleyfi ríkisborgara þriðju ríkja.  Lög um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002, kveða á um að atvinnuleyfi veiti rétt til að vinna hér á landi samkvæmt þeim lögum og reglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði og að fyrir liggi ráðningarsamningur sem tryggi starfsmanni laun og önnur starfskjör til jafns við heimamenn, sbr. lög nr. 55/1980.

Réttur trúnaðarmanna 

Í samkomulaginu er kveðið á um rétt trúnaðarmanns til að yfirfara gögn um laun eða önnur starfskjör þeirra erlendu starfsmanna sem kjarasamningur tekur til og starfa hjá viðkomandi vinnuveitanda og eftir því sem við á um starfsréttindi þeirra sem eru í störfum sem slíkra réttinda er krafist. Skilyrði er að trúnaðarmaður hafi rökstuddan grun um brot gegn viðkomandi kjarasamningi eða lögum sem varða starfskjör erlends launafólks. Sé ekki trúnaðarmaður á vinnustað hefur fulltrúi viðkomandi stéttarfélags sömu heimildir og trúnaðarmaður til að yfirfara gögn og ber sömu skyldur. Upplýsingarnar skulu að jafnaði veittar með því að trúnaðarmaður fái að sjá afrit af launaseðlum eða öðrum gögnum er staðfesti launagreiðslur og önnur starfskjör hlutaðeigandi starfsmanna.  Trúnaðarmanni er óheimilt að fara með upplýsingarnar út af vinnustaðnum.  Trúnaðarmaður skal gæta trúnaðar um upplýsingar sem honum eru látnar í té. Trúnaðarmanni er þó heimilt að ráðfæra sig við viðkomandi stéttarfélag og ber fulltrúum stéttarfélagsins þá að gæta fyllsta trúnaðar um þær upplýsingar þeir fá vitneskju um.

Fallist vinnuveitandi ekki á beiðni trúnaðarmanns um að veita honum aðgang að upplýsingum um laun og önnur starfskjör útlendings og/ eða ágreiningur er um hvort ákvæði kjarasamninga eða laga séu virt og ekki hefur tekist að leysa þann ágreining innan fyrirtækis er heimilt að vísa þeim ágreiningi til sérstakrar samráðsnefndar ASÍ og SA.

Samráðsnefnd ASÍ og SA

Samráðsnefnd ASÍ og SA sem fjallar um málefni útlendinga samkvæmt samningi þessum er skipuð fjórum fulltrúum, tveimur skipuðum af ASÍ og því landssambandi sem málið varðar og tveimur fulltrúum skipuðum af SA.  
Hlutverk samráðsnefndar er að leita leiða til að upplýsa mál sem vísað er til hennar skv.  framangreindum reglum og leiða ágreining til lykta með viðræðum sín á milli. Við athugun máls getur nefndin krafist nauðsynlegra gagna frá viðkomandi vinnuveitanda um laun eða önnur starfskjör þeirra erlendu starfsmanna sem málið varðar og eftir því sem við á um starfsréttindi þeirra sem eru í störfum sem slíkra réttinda er krafist.

Heimildin tekur til þeirra erlendu starfsmanna sem kjarasamningar aðildarfélaga ASÍ félaga taka til, sbr. 1. gr. laga 55/1980.

Trúnaðarmaður eða fulltrúi stéttarfélags sem komið hefur í stað trúnaðarmanns er óbundinn af trúnaði varðandi samskipti sín við nefndina vegna mála sem þar eru til umfjöllunar.  Þá geta fulltrúar í samráðsnefndinni leitað til  trúnaðarmanns eða fulltrúa stéttarfélags sem komið hefur í stað trúnaðarmanns samkvæmt framansögðu til að afla frekari upplýsinga vegna þeirra mála sem til umfjöllunar eru.

Samráðsnefnd og einstökum fulltrúum í nefndinni ber að gæta trúnaðar um upplýsingar sem aflað er frá atvinnurekanda, trúnaðarmanni eða fulltrúa stéttarfélags og er óheimilt að afhenda eða greina þriðja aðila frá efni þeirra. 

Þrátt fyrir niðurstöðu nefndarinnar er heimilt að vísa máli til dómstóla. Trúnaðarskylda skv. framansögðu hindrar í því tilviki ekki framlagningu gagna í dómsmáli.

Var efnið hjálplegt?