Hagsmunaágreiningur sem verður milli samtaka launafólks og atvinnurekenda getur með löglegum hætti leitt til vinnustöðvunar (verkfalls eða verkbanns). Vinnustöðvun er þvingunaraðgerð, sem heimiluð er undir vissum kringumstæðum og að uppfylltum tilteknum skilyrðum sem bæði lúta að formi og efni. Áður en að vinnustöðvun kemur hafa samningsaðilar reynt að mati þeirra sjálfra aðrar leiðir til þrautar. Hún er því eins konar neyðarúrræði þegar annað hefur ekki dugað.
Réttur til þess að beita slíkri aðgerð er hluti alþjóðlega viðurkenndra mannréttinda og m.a. nýtur verndar 11.gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Vinnustöðvun þarf að uppfylla þrjú skilyrði til þess að njóta verndar 11.gr. Þau eru: Einungis stéttarfélög geta efnt til þeirra; beiting þeirra verður að vera hluti af tilgangi og starfsemi félagsins; tilgangurinn verður að vera sá að verja hagsmuni félagsmanna. (sjá dóma í málunum nr. 51194/19 og 55789/19 ). Að öðru leyti njóta aðildarríki sáttmálans talsverðs frelsis til þess að setja réttinum skorður. Framangreindur réttur telst vera meginregla íslensks réttar og sætir þeim takmörkunum einum sem greindar eru í lögum. Undantekningar frá þessari meginreglu ber að túlka þröngt sbr. t.d. Félagsdóm 9/2000.
Við framkvæmd vinnustöðvunar veltur á miklu fyrir þann sem efnt hefur til slíkrar aðgerðar að hún reynist virk og að hún þjóni þeim tilgangi að knýja gagnaðilann til samninga. Það er einnig hagsmunamál þess sem vinnustöðvun beinist að, að hún valdi sem minnstum skaða.
Evrópusamtök launafólks (ETUC) gáfu út í mars 2007 greinargerð þar sem verkfallsrétti stéttarfélaga í 27 Evrópuríkjum, þ.m.t. á Íslandi, er nánar lýst. Sjá nánar.