Verkföll

Lögin um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 gera ráð fyrir því að stéttarfélag geti ákveðið verkfall til að ná fram kjarasamningi. Um ákvörðun og tilkynningu verkfalla eru settar reglur í 15. og 16. gr. laganna, og hefur Félagsdómur í dómum sínum gert ríkar kröfur til þess að þeim formreglum sé fullnægt. Í lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur er ekki að finna nein ákvæði um hina eiginlegu framkvæmd. Undantekningin er 18. gr. laganna, sem segir að þegar vinnustöðvun hefur verið löglega hafin, sé þeim, sem hún að einhverju leyti beinist gegn, óheimilt að stuðla að því að afstýra henni með aðstoð einstakra meðlima þeirra félaga eða sambanda, sem að vinnustöðvuninni standa. Ákveðnar venjur hafa mótast um framkvæmdina og einnig hafa dómstólar með dómafordæmum skýrt hvað heimilt er í þessum efnum.

Hvað er verkfall?

Eitt helsta einkenni verkfalls er að venjuleg störf þeirra sem eru í verkfalli leggjast niður að einhverju eða öllu leyti. Orðið verkfall er gagnsætt að þessu leyti. Verkin falla niður. Verkfall getur verið hvers konar rof á þeirri vinnu sem launafólki er skylt samkvæmt ráðningarsamningi og kjarasamningi að inna af hendi, enda sé aðgerðin framkvæmd með aðild stéttarfélags og uppfylli formskilyrði laga nr. 80/1938

Verkfall getur falist í því að allir leggi niður öll störf frá tilteknum tíma, að hluti hópsins leggi niður vinnu frá tilteknum tíma, að öll vinna leggist niður tiltekna daga, að engin yfirvinna sé unnin, að vinna sé ekki innt af hendi um helgar, að tilteknir þættir starfsins séu ekki unnir, en öll önnur vinna með eðlilegum hætti og jafnvel getur það talist verkfall að fólk hægi á sér í vinnu frá því sem eðlilegt má teljast. 

Algengast er að verkfall felist í því að allir sem vinna þau störf sem kjarasamningur tekur til leggja alfarið niður störf sín. En stéttarfélagið ræður því hversu víðtækt verkfallið er, hvort það nær til alls félagssvæðisins eða einungis hluta þess sbr. Félagsdómur 7/1965 (V:222), hvort það nær til tiltekins vinnustaðar eða jafnvel einungis til ákveðinna þátta starfsins sjá Félagsdóm 7/1988 (IX:253). 

Verkfall á vinnu við tilteknar götur.
Í Félagsdómi 7/1965 (V:222) var deilt um lögmæti verkfalls sem Trésmiðafélag Reykjavíkur boðaði til á allri trésmíðavinnu við tilteknar götur í Árbæjarhverfi. Krafðist VSÍ ógildingar á verkfallinu fyrst og fremst vegna þess að það beindist aðeins gegn fáeinum félagsmönnum Meistarafélags húsasmiða, á landfræðilega takmörkuðu svæði, sem væri aðeins hluti af heildarfélagssvæði Trésmiðafélags Reykjavíkur en engar sérkröfur voru gerðar á hendur þeim húsasmíðameisturum sem verkfallið beindist að. Sýknukrafan byggðist á því að engin ákvæði væru í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur sem mæltu fyrir um ákveðna framkvæmd vinnustöðvana og væri verkalýðsfélögum því frjálst að haga henni á þann hátt sem þau teldu hagkvæmast. Niðurstaða Félagsdóms varð sú að þessi vinnustöðvun bryti hvorki í bág við ákvæði II. kafla laga nr. 80/1938 né þau meginsjónarmið sem hafa beri í huga þegar nefnd ákvæði væru skýrð. Eigi var heldur talið að hún hefði verið andstæð öðrum þeim réttarreglum sem til álita komu í þessu sambandi.

Afgreiðslubann
Í Félagsdómi 1/1950 (III:90) og Félagsdómi 2/1950 (III:95) var afgreiðslubann, sem Verkamannafélagið Dagsbrún framkvæmdi talið jafngilda samúðarverkfalli, þar sem það var til stuðnings öðru félagi sem átti í kjaradeilu. Sjá einnig Félagsdóma 9/1944(II:66) og 11/1943 (II:115).

Yfirvinnubann
Í Félagsdómi 4/1979 (VIII:164) var yfirvinnubann við lestun, losun og færslu skipa á heimahafnarsvæði, sem yfirmenn á kaupskipum samþykktu, dæmd ólögmæt vinnustöðvun, þar sem kjarasamningar væru í gildi. En aðgerðin var ekki dæmd ólögmæt á þeim grunni að hún teldist ekki verkfall í skilningi laganna. Sjá einnig Félagsdóm 6/1986 (IX:144).

Tiltekinni þjónustu hætt
Í Félagsdómi 7/1988 (IX:253) var ákvörðun flugfreyja um að hætta sölu á tollfrjálsum varningi um borð í flugvélum dæmd verkfallsaðgerð. Leit dómurinn hins vegar svo á að um ólögmætt verkfall væri að ræða þar sem kjarasamningur væri í gildi. Sjá einnig Félagsdóm 6/2000 þar sem löndunarbann var dæmt ólögmætt.

Af framangreindum dómum má sjá að verkfall má framkvæma með ýmsum hætti svo að löglegt sé. Það hvaða aðferð er valin í verkfalli er ákvörðunaratriði hverju sinni og ræðst af því hvað talið er árangursríkast.

Algengast er að verkfall felist í því að allir sem vinna þau störf sem kjarasamningur tekur til leggja alfarið niður störf sín. En stéttarfélagið ræður því hversu víðtækt verkfallið er, hvort það nær til alls félagssvæðisins eða einungis hluta þess sbr. Félagsdómur 7/1965 (V:222), hvort það nær til tiltekins vinnustaðar eða jafnvel einungis til ákveðinna þátta starfsins sjá Félagsdóm 7/1988 (IX:253).

Í Félagsdómi 14/1992 var fjallað fundarhöld stéttarfélags í tengslum við kjaradeilu en trúnaðarráð Sjúkraliðafélags Íslands tilkynnti gagnaðila sínum með bréfi að trúnaðarráð félagsins hefði ákveðið félagsmenn myndu funda um sín mál og vera fjarverandi þar til þeim fundi lyki. Í niðurstöðu Félagsdóms segir: „Ljóst er að markmið og tilgangur aðgerða félagsmanna Sjúkraliðafélags Íslands dagana 1. til 3. desember sl. var að knýja viðsemjendur þeirra til að ganga frá kjarasamningi. Verður að telja aðgerðir þessar [ fundarhöldin á vinnutíma ] ólögmæta vinnustöðvun ….“ Áhersla Félagsdóms virðist liggja á beina aðkomu stéttarfélagsins að fundarhöldunum. Það sama er uppi á teningnum í Félagsdómi nr. 7/1999 ( sjá umfjöllun hér fyrir neðan ).

Þessir tveir dómar ( 14/1992 og 7/1999 ) virðast beita annarri nálgun en síðar var gert var í Félagsdómi nr. 3/2013 þar sem fjallað var um aðkomu LÍÚ að því að útgerðarmenn héldu ekki skipum sínum til veiða tiltekinn dag en sigla þess í stað til mótmælafundar. ( Sjá umfjöllun "Hvað er verkbann" ) Þar lá áherslan ekki á aðkomu LÍÚ heldur á afleiðingum þess fyrir félagsmenn LÍÚ hvort þeir færu að tilmælunum eða ekki.  Ekki verður dregin önnur ályktun af þessum þremur dómum en sú, að stéttarfélögum sé, eins og samtökum atvinnurekenda, heimilt að beina tilmælum til félagsmanna sinna t.d. um þátttöku í fundum á vinnutíma, þ.m.t. mótmælafundum tengdum starfskjörum sínum eða fundum sem haldnir eru til þess að knýja á um aðgerðir stjórnvalda í velferðarmálum, enda hafi það engar afleiðingar fyrir félagsmanninn gagnvart stéttarfélagi sínu að hlíta ekki þeim tilmælum. 

Danskir fræðimenn hafa einnig talið það vera verkfallsaðgerðir þegar hópur manna segir upp ráðningarsamningi sínum til að fylgja eftir kjarakröfum. Nokkuð hefur tíðkast á síðari árum að opinberir starfsmenn hafi beitt þessari aðferð. Hið opinbera, sem hefur verið atvinnurekandinn í þessum tilvikum, hefur aldrei vísað slíku máli til dómstóla, en í einu dómsmáli hefur reynt á þetta atriði og var aðgerðin dæmd ólögmæt verkfallsaðgerð. Sjá dóm Bæjarþings Reykjavíkur frá 12. nóvember 1981, Læknaþjónustan sf. gegn heilbrigðisráðherra og fleirum. Í Félagsdómi 7/1999 (Xl:476) var hins vegar komist að gagnstæðri niðurstöðu þar sem tekist var á um hópuppsögn leikskólakennara og talið að í henni fælist ekki brot á friðarskyldu enda "enda einstaklingar er um ræðir í máli þessu [...] ekki aðilar kjarasamnings heldur stéttarfélag þeirra". Félagsdómur tekur síðan sérstaklega fram að ekkert sé fram komið í málinu sem sem bendi til þess að félagið sem stéttarfélag hafi komið að uppsögnunum.

Viðræðuslit og atkvæðagreiðslur

Það er skilyrði lögmætrar ákvörðunar um boðun vinnustöðvunar að samningaviðræður eða viðræðutilraunir um framlagðar kröfur hafi reynst árangurslausar þrátt fyrir milligöngu sáttasemjara sbr. 3. mgr. 15.gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr.80/1938. Með öðrum orðum, þá er ekki lögmætt að efna til atkvæðagreiðslu um boðun vinnustöðvunar fyrr en sýnt þykir að samningar náist ekki. Í Félagsdómi 14/2001 var um túlkun þessa ákvæðis fjallað og þar segir:

„Það sé því formbundið sem skilyrði lögmætrar ákvörðunar vinnustöðvunar að kröfur hafi komið skýrt fram og að samningaviðræður hafi reynst árangurslausar. Þá sé þess krafist að deiluaðili, sem leita vilji ákvörðunar um vinnustöðvun, hafi reynt til þrautar að ná samningi og í því skyni leitað milligöngu sáttasemjara. Sé við það miðað að sáttasemjara hafi gefist tækifæri til að kalla deiluaðila saman og freistað þess að ná sáttum áður en leitað sé eftir því við félagsmenn að boða til vinnustöðvunar. Vert sé að árétta að mat á því hvenær sáttatilraunir séu fullreyndar hljóti að vera hjá samninganefnd þess sem leitar eftir ákvörðun um vinnustöðvun.“

Mat á því hvort samningaviðræður eða viðræðutilraunir hafi reynst árangurslausar liggur hjá þeim sem slítur viðræðum og leitar eftir heimild til vinnustöðvunar sbr. m.a. ummæli í Félagsdómi 14/2001 sem vísað er til hér að framan.

Ekki gilda sérstakar eða formlegar reglur um hvernig árangursleysi viðræðna er staðfest og viðræðum slitið. Algengast er að það sé gert með bókun á samningafundi hjá sáttasemjara eða sérstakri yfirlýsingu sem komið er til hans og gagnaðila. Þessi ákvæði 15. gr. laga 80/1938 ber að túlka þröngt sbr. ummæli í fyrrgreindum Félagsdómi 14/2001 þar sem segir: 

"Samkvæmt framansögðu og með vísan til athugasemda með 2. málsl. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 80/1938, sbr. 3. gr. laga nr. 75/1996, sem að áliti dómsins ber að skýra þröngt í samræmi við markmið löggjafans með setningu ákvæðisins,..."

Félagsdómur hefur jafnframt komist að þeirri niðurstöðu að taka beri upp viðræður að nýju eftir að félagsmenn hafna kjarasamningi sem undirritaður hefur verið í kjölfar þeirra viðræðna sem enduðu með undirritun hans. Fyrr verði viðræður verði ekki taldar árangurslausar í skilningi 3. mgr. 15. gr. laga 80/1938. Um þetta var fjallað í Félagsdómi 5/1997 (XI:57). Þar var verkfall dæmt ólögmætt þar sem svo stóð á, að verkfallsboðun hafði verið samþykkt meðal félagsmanna skömmu áður en kjarasamningar voru undirritaðir af samninganefnd. Þeir sömu samningar voru hins vegar felldir í atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna og taldist hin fyrri verkfallsheimild þar með niðurfallin.

Ákvörðun um vinnustöðvun    

 Í 1. mgr. 15. gr. l. nr. 80/1938 segir að þegar stéttarfélög eða félag atvinnurekenda ætlar að hefja vinnustöðvun, þá sé hún því aðeins heimil að ákvörðun um hana hafi verið tekin:  

a. við almenna leynilega atkvæðagreiðslu með þátttöku a.m.k. fimmtungs atkvæðisbærra félagsmanna samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá og að tillagan hafi notið stuðnings meiri hluta greiddra atkvæða eða 

b. með því að viðhafa almenna leynilega póstatkvæðagreiðslu meðal félagsmanna um tillögu um vinnustöðvun og gildir niðurstaða hennar þá óháð þátttöku.

Ákvörðun um vinnustöðvun er í fyrsta lagi löglega tekin ef hún er tekin við almenna leynilega atkvæðagreiðslu, enda hafi félagsstjórnin auglýst nægilega, hvar og hvenær atkvæðagreiðslan um vinnustöðvunina skuli fara fram. Engar skýringar er frekar að finna í lögunum sjálfum hvernig framkvæma skuli slíka atkvæðagreiðslu.

Í öðru lagi þarf hún að vera um það hvort eigi að boða vinnustöðvun eða ekki, til hverra henni er einkum ætlað að taka og einnig um það hvenær hún skuli hefjast, hversu lengi hún skuli standa og hvernig hún skuli framkvæmd. Sé ekki tekið fram hversu lengi verkfall skuli standa telst það boðað ótímabundið.

Félagsmönnum stéttarfélags er því samkvæmt ákvæðum 15. gr. óheimilt að framselja vald til verkfallsboðunar. Þessa niðurstöðu má lesa út úr Félagsdómi 4/1988 (IX:218), sem fjallaði um túlkun á 15. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, en það ákvæði er sambærilegt a-lið 15. gr. laga nr. 80/1938. Í Félagsdóminum var verkfallsboðun dæmd ólögmæt þar sem hún var ekki tekin af félagsmönnum heldur veittu þeir umboð til verkfallsboðunar.

Skilyrði 15. gr. laga nr. 80/1938 eru tæmandi talin. Vinnustöðvun sem þessir aðilar ákveða með öðrum hætti er því ólögmæt. Félagsdómur hefur oft dæmt vinnustöðvun ólögmæta hafi ákvæði 15. gr. laga nr. 80/1938 ekki verið uppfyllt. Sjá Félagsdóma 15/1943 (II:19), 5/1943 (II:56), 9/1944 (II:66), 6/1943 (II:81), 7/1943 (II:88), 7/1944 (II:110), 1/1950 (III:90), 2/1950(III:95), 12/1949 (III:122) og 7/1994 (X:209).

Almenn leynileg atkvæðagreiðsla

Með almennri leynilegri atkvæðagreiðslu er átt við að hún skuli ná til allra félagsmanna. Það verður varla gert án þess að atkvæðagreiðslan sé skrifleg eða framkvæmd á rafrænan hátt þannig að fyllsta öryggis sé gætt. Mikilvægt er að kjörfundur þar sem greidd skulu atkvæði sé nægilega auglýstur.

Til þess að almenn leynileg atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun sé lögmæt þarf fimmtungur (1/5, 20%) atkvæðisbærra félagsmanna samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá að taka þátt í atkvæðagreiðslunni og jafnframt þarf tillagan hafi notið stuðnings meirihluta greiddra atkvæða.

Í athugasemdum Vinnulöggjafarnefndar með lögunum frá 1938 segir hvað varðar ákvörðun um vinnustöðvun, að ef almenn atkvæðagreiðsla í félagi fari fram um það hvort hefja skuli vinnustöðvun, skuli sú atkvæðagreiðsla vera skrifleg og leynileg og eigi standa skemur en 24 klukkustundir. Þannig eigi að tryggja að þátttaka verði almenn og eigi geti ráðið augnabliksákvörðun lítils hluta félagsmanna. Þetta skilyrði um að atkvæðagreiðsla skuli standa yfir eigi skemur en í 24 klukkustundir er ekki lengur tiltekið í 15. gr. eins og því ákvæði var breytt með lögum nr. 75/1996. Það er ábyrgð hlutaðeigandi stéttarfélags hve lengi atkvæðagreiðsla um boðun vinnustöðvunar stendur yfir. Telja verður þó að atkvæðagreiðsla megi ekki standa í svo skamman tíma að þeim sem vinnustöðvun á að taka til gefist ekki tækifæri til þess að tjá vilja sinn.

Almenn leynileg póstatkvæðagreiðsla

Heimilt er að viðhafa almenna leynilega póstatkvæðagreiðslu meðal allra félagsmanna (eða allra félagsmanna sem taka laun skv. tilteknum kjarasamningi ) um tillögu um vinnustöðvun og gildir niðurstaða hennar þá óháð þátttöku sbr. 1.mgr. 15.gr. laga nr. 80/1938. Þessi undantekning nær jöfnum höndum til ákvörðunar um vinnustöðvun sem tekur til allra félagsmanna og til ákvörðunar allra um að vinnustöðvun taki einungis til ákveðins hóps félagsmanna eða starfsmanna á tilteknum vinnustað sbr. Féld. 2/2019

Taki verkfall hins vegar einungis til ákveðins hóps félagsmanna eða starfsmanna á tilteknum vinnustað og ef stéttarfélag ákveður skv. heimild í  2. mgr. 15.gr. laga 80/1938 að þeir einir hafi atkvæðisrétt sem verkfallið tekur til, þarf ætíð fimmtungsþáttöku, óháð því hvernig atkvæðagreiðsla er framkvæmd.

Í athugasemdum með lögunum segir að með póstatkvæðagreiðslu sé átt við þá tilhögun atkvæðagreiðslu að öllum atkvæðisbærum félagsmönnum á kjörskrá, þ.e. atkvæðaskrá samtaka atvinnurekenda eða félagaskrá stéttarfélaga, sem eiga í hlut, séu send kjörgögn heim. Kjörgögn skulu vera atkvæðaseðill og ómerkt umslag ásamt umslagi sem unnt er að póstleggja ófrímerkt og sem áritað er með nafni og póstfangi viðtakanda. Lögmætur atkvæðaseðill skal fyrir fram áritaður skýrlega með "já" -reit og "nei" -reit við tillögu um samþykkt meðfylgjandi verkfallsboðunar þannig að unnt sé að auðkenna annan reitinn. Atkvæðaseðill skal síðan settur í ómerkta umslagið og það inn í hið áritaða sem auðvelt er að póstleggja. Með því eigi að vera tryggð leynileg atkvæðagreiðsla.

Almenn leynileg rafræn atkvæðagreiðsla

Lögin nr. 80/1938 fjalla ekki um almennar leynilegar rafrænar atkvæðagreiðslur. Af þeim ástæðum gengu ASÍ og SA frá sérstakri bókun hjá ríkissáttasemjara þar um þann 6.4 2017. Skv. henni er heimilt að viðhafa almenna leynilega rafræna atkvæðagreiðslu um boðun vinnustöðvunar sem hefur sömu réttarahrif og almenn leynileg póstatkvæðagreiðsla eins og henni er í lýst í lögum 80/1938 og greinargerð með þeim breytingum sem gerðar voru á þeim lögum 1996.

Reglugerð ASÍ um allsherjaratkvæðagreiðslur

Samkvæmt lögum ASÍ setur miðstjórn sambandsins "Reglugerð um leynilega allsherjar atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna aðildarsamtaka ASÍ". Í henni er m.a. fjallað leynilega afgreiðslu tillagna um boðun vinnustöðvana og afgreiðslu kjarasamninga hvort heldur allsherjaratkvæðagreiðsla er framkvæmd á kjörfundi með kröfu um fimmtungs þátttöku eða póstatkvæðagreiðslu eða rafrænni atkvæðagreiðslu þar sem ekki er gerð krafa um lágmarksþátttöku.

Vinnustöðvun tekur til tiltekins hóps félagsmanna

Ef vinnustöðvun er einungis ætlað að taka til ákveðins hóps félagsmanna eða starfsmanna á tilgreindum vinnustað þá er heimilt að taka ákvörðun um vinnustöðvun með atkvæðum þeirra sem henni er ætlað að taka til. Þarf þá fimmtungur atkvæðisbærra að taka þátt í atkvæðagreiðslu og meiri hluti þeirra að styðja tillögu um vinnustöðvun sbr. 2. mgr. 15. gr. laga 80/1938.

Tilkynning um verkfall

Í 16. gr. laga nr. 80/1938 er að finna ákvæði um tilkynningar á verkföllum. Þar segir að ákvörðun um vinnustöðvun, sem hefja eigi í þeim tilgangi að knýja fram breytingu eða ákvörðun um kaup og kjör, beri að tilkynna sáttasemjara og þeim sem hún beinist aðallega gegn 7 sólarhringum áður en ætlunin er að hún hefjist. Þessi lagagrein er óundanþæg, og verkfall dæmt ólögmætt sé þessara formskilyrða ekki gætt.


Í Félagsdómum er víða fjallað um ágreining um lögmæti verkfalls sem risið hefur vegna 16. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur. Sjá hér til dæmis: 

Félagsdómar 1/1942 (I:130) þar sem vinnustöðvun var fyrirvaralaus, 15/1943 (II:19), 5/1943 (II:56), 9/1944 (II:66), 6/1943(II:81) og 7/1943 (II:88).  

Í Félagsdómi 1/1950 (III:90) var afgreiðslubann, sem var jafnað til samúðarvinnustöðvunar, ákveðið án fyrirvara og því dæmt ólögmætt.

Í Félagsdómum 2/1950 (III:95) og 12/1949 (III:122) var götuauglýsing var ekki talin nægjanleg boðun verkfalls og sáttasemjara var ekki tilkynnt um vinnustöðvunina. Í Félagsdómi 10/1984 (IX:58) láðist að boða verkfall þeim sem það beindist að.

 

Hvenær telst tilkynning hafa borist viðtakanda?

Tilkynning um boðun verkfalls þarf að hafa borist þeim sem hún beinist að með sjö sólarhringa fyrirvara. Ekki er nægilegt að setja bréf í póst með sjö sólarhringa fyrirvara eða senda símskeyti. Því síður væri það talið nægilegt að hengja upp tilkynningu um verkfallsboðun með götuauglýsingu, samanber Félagsdóm 12/1949 (III:122). Verkfallsboðun er ekki gild nema hún hafi komist í hendur viðtakanda með þessum fyrirvara.

Yfirlýsing um verkfallsboðun er ákvöð í skilningi samningalaga nr. 7/1936. Með ákvöð er átt við yfirlýsingu sem ætlað er að skuldbinda móttakanda, en ekki þann sem yfirlýsinguna gefur. Í samningarétti er það meginregla að aðili getur ekki einhliða skuldbundið annan aðila en reglurnar um ákvaðir eru undantekning frá því. Samkvæmt þeim bindur verkfallsboðun viðtakanda frá þeim tíma sem hún er komin til hans.

Verkfallsboðun er talin komin til viðtakanda þegar hún er komin þannig að hann á þess kost að kynna sér efni hennar, til dæmis bréf komið í bréfakassa eða tilkynning um ábyrgðarbréf hefur borist þannig að viðtakandi hafi haft tækifæri til að nálgast bréfið.

Þar sem stéttarfélagi á að vera í lófa lagið að fylgja eftir reglum um tilkynningar ber það sönnunarbyrði fyrir því að svo hafi verið gert. Jafnvel þótt í ljós sé leitt að þeim aðila, sem verkfallsboðun beinist að, hafi mátt vera ljóst af fréttum að búið væri að boða verkfall, telst verkfallið ekki löglega boðað ef honum er ekki sérstaklega tilkynnt um það með nægilegum fyrirvara. Sjá t.d. Félagsdóm 10/1984 (IX:58).

 

Form og efni tilkynningar

Í 16. gr. laga nr. 80/1938 er ekki fjallað um það hvort tilkynning um verkfallsboðun skuli vera skrifleg eða hvernig hún skuli vera úr garði gerð að öðru leyti. Þar sem mikið liggur við fyrir stéttarfélag að geta fært sönnur á að það hafi tilkynnt verkfallsboðun til réttra aðila innan tiltekins frests er tilkynning um verkfallsboðun alltaf höfð skrifleg.

Eðlilegt er að tilkynningin sé það skýrt orðuð að ekki fari á milli mála hvenær verkfall skuli hefjast eða hvernig það verði framkvæmt að öðru leyti. Oft er tekið fram klukkan hvað verkfall skuli hefjast, svo sem að verkfall sé boðað á miðnætti þann 1. september 1994, eða frá hádegi 15. janúar 1995. Slíkt er þó ekki nauðsynlegt. Sé tíminn ekki tekinn fram skoðast verkfall boðað frá miðnætti þann dag sem verkfall skal hefjast. Þessi regla var sett af Félagsdómi 9/1994 (X:220).

Í verkfallsboðun verða að koma fram öll þau atriði sem máli skipta, svo sem hvenær verkfall eigi að hefjast, með hvaða hætti framkvæma eigi verkfallið, hverjir séu verkfallsboðendur, hvernig ákvörðun um verkfallið hafi verið tekin og gegn hverjum verkfallið beinist. Nái verkfall einungis til tiltekinna starfsmanna, vinnustaða eða verkefna er eðlilegt að gera grein fyrir slíku í verkfallsboðun. Sjá hér Félagsdóm 11/1994 (X:234). Þar var krafist ógildingar á verkfalli meðal annars þar sem verkfallsboðunin væri svo óskýr að ekki væri vitað hvaða aðilar ættu að fara í verkfall. Á þetta var ekki fallist.

Algengt er að verkfallsboðun sé tilkynnt með staðfestu símskeyti. Tryggast er þó að tilkynna verkfallsboðun með afhendingu á bréfi og fá kvittun fyrir móttöku á afrit bréfsins við afhendingu. Þetta er tiltölulega auðvelt að framkvæmda í þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu, en erfiðara milli landshluta.

Í Félagsdómi 12/1949 (III: 122) var það ekki vera talin nægileg verkfallsboðun að tilkynna verkfall með götuauglýsingu í bænum þar sem verkfall hafði verið boðað.

 

Tímafrestur

Ákvæði 16. gr. laga nr. 80/1938 eru óundanþæg og tæmandi talin. Þannig eru ákvæði um 7 sólarhringa tímafrestinn óundanþæg. Tilkynningin verður að hafa borist þeim, sem verkfallið beinist að með 7 sólarhringa fyrirvara. Þessi fyrirvari reiknast frá þeim tíma sem boðun vinnustöðvunar er komin í hendur þeim sem hún beinist að og sáttasemjara og til þess að verkfall kemur til framkvæmda.

Í Félagsdómi 9/1994 (X:220) var deilt um túlkun á 16. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur. Þar hafði FÍH boðað verkfall félagsmanna sinna í Þjóðleikhúsinu, sem hefjast skyldi 5. september 1994. Verkfallið var boðað þann 29. ágúst á milli kl. 15:00 og 16:00. Æfing hljóðfæraleikaranna skyldi hefjast kl. 19:30 um kvöldið, en tímasetning vinnustöðvunarinnar hafði ekki verið tekin fram í verkfallsboðun. Um það var deilt hvort boðunin hefði verið lögleg, þar sem innan við sjö sólarhringar voru frá því að verkfall var boðað og til upphafs þess dags er vinnustöðvun skyldi taka gildi, en meira en sjö sólarhringar þar til verkfallið skyldi koma til framkvæmda. Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu að þegar upphafsdagur verkfalls sé tilgreindur í verkfallsboðun án þess að getið sé um klukkustund eða önnur nánari tímamörk, verði að líta svo á að verkfallið eigi að hefjast þegar viðkomandi almanaksdagur gengur í garð án tillits til þess hvenær daglegur vinnutími á að hefjast hjá þeim starfsmönnum sem í hlut eiga. Hefði í verkfallsboðuninni verið tekið fram að verkfall hæfist einhvern tíma eftir kl. 16:00 þann 5. september hefði verkfallsboðunin verið lögmæt. 

Hverjum á að tilkynna boðun verkfalls?

Verkfallsboðun ber að tilkynna sáttasemjara og þeim, sem verkfall beinist aðallega gegn.

Sé verkfallsboðun ekki tilkynnt sáttasemjara með 7 sólarhringa fyrirvara er verkfall ekki löglega boðað jafnvel þótt verkfallsboðunin hafi borist gagnaðila í tæka tíð. Orðið sáttasemjara ber að skilja í dag sem ríkissáttasemjara, en með lögum nr. 33/1978 um sáttastörf í vinnudeilum var embætti ríkissáttasemjara sett á stofn.

Í Félagsdómi 4/1962 (V:61) voru málavextir þeir að stéttarfélag boðaði verkfall og hélt því fram að bréf hefði verið afhent á skrifstofu sáttasemjara um hádegi á laugardegi, en sáttasemjari vottaði að bréf þetta hafi ekki verið komið til hans er hann fór af skrifstofu sinni á hádegi þennan sama dag, en legið á borði hans er hann kom til vinnu á þriðjudagsmorgni. Félag atvinnurekenda krafðist ógildingar á boðuðu verkfalli. Stéttarfélagið hélt því meðal annars fram að sáttasemjari gæti einn átt sakaraðild að málinu og ekki skipti máli þótt sáttasemjara væri ekki tilkynnt verkfallsboðun með 7 sólarhringa fyrirvara, þar sem hann hefði fengið tilkynningu um verkfallið áður en það hófst. Dómurinn dæmdi verkfallið ólögmætt og sagði að skýra yrði fortakslaust ákvæði 16. gr. laga nr. 80/1938 á þá lund að lögmæti verkfalls sé því skilyrði bundið að gætt sé af hálfu verkfallsboðanda þeirrar tilkynningarskyldu sem þar er boðin.

Auk ríkissáttasemjara ber að tilkynna verkfallsboðun þeim sem hún beinist aðallega gegn. Sé það ekki gert er verkfallsboðun ólögleg. Sjá hér Félagsdóm 10/1984 (IX:58), en þar hafði BSRB ekki tilkynnt verkfallsboðun Sveitarstjóra Borgarneshrepps vegna verkfalls bæjarstarfsmanna og var verkfallið dæmt ólögmætt.

Löglega boðað verkfall tekur sjálfkrafa til allra þeirra sem eru félagsaðilar þeirra samtaka sem tilkynnt er um verkfallið. Þarf því ekki að tilkynna einstökum atvinnurekendum um verkfall séu þeir félagsmenn í samtökum vinnuveitenda, sem verkfall er tilkynnt til.

Talið er að nægilegt sé að tilkynna verkfall þeim atvinnurekendum, sem áður voru bundnir stéttarfélaginu með kjarasamningi og þeim sem kröfum er sérstaklega beint til vegna nýs kjarasamnings eða breytinga á þeim gamla og byggist þetta á þeim félagsdómum sem fallið hafa.

Það hefur stundum valdið ágreiningi hvort vinnustöðvun hefur verið boðuð réttum aðila og hefur ákvæðið verið skilið svo að beina ætti verkfallsboðun að þeim atvinnurekendum, félögum atvinnurekenda eða atvinnurekendasamböndum sem áður voru bundnir stéttarfélagi með kjarasamningi og þeim sem kröfum er sérstaklega beint til vegna nýs kjarasamnings eða breytinga á þeim gamla.

Í Félagsdómi 10/1952 (III:213) var deilt um þetta atriði. Málavextir voru þeir að Dagsbrún boðaði almennt verkfall sem einnig náði til Áburðarverksmiðju ríkisins. Tilraunir höfðu verið gerðar til að koma á sérstökum samningi við verksmiðjuna en þær ekki tekist. Verkfallið var boðað öllum þeim aðilum sem áður voru bundnir samningi við Dagsbrún, auk þess sem það var tilkynnt í útvarpi með sólarhrings fyrirvara. Hins vegar var Áburðarverksmiðjunni ekki tilkynnt um það sérstaklega. Var það í samræmi við þá venju Dagsbrúnar að tilkynna verkfall þeim einum sem kjarasamningar höfðu áður verið gerðir við. Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu að með orðalagi 16. gr. að tilkynna beri þeim sem vinnustöðvun "beinist aðallega gegn" hafi ekki verið tilætlun löggjafans að stéttarfélögum væri undantekningarlaust skylt að boða öllum þeim atvinnurekendum, sem verkfall getur bitnað á, vinnustöðvun með þeim hætti sem boðið er í greininni. Var niðurstaða málsins því sú að verkfallið var löglega boðað þótt Áburðarverksmiðjunni hafi ekki verið um það tilkynnt sérstaklega.

Verkfallsstjórn

 

Stéttarfélög ákveða sjálf hvernig þau haga verkfallsstjórn. Þetta á sér stoð í 1. mgr. 3. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 en þar segir að stéttarfélög ráði sjálf málefnum sínum. Almennt er ekki að finna ákvæði í félagslögum um hvernig stjórn verkfalls skuli háttað. Kann það að byggjast á því að stjórn stéttarfélags fer almennt með framkvæmd mála, og telji hún mál vandasöm, svo sem hvernig skuli meðhöndla einstaka þætti varðandi framkvæmd verkfalls getur hún kallað til trúnaðarmannaráð.

Stjórn og trúnaðarmannaráð

Trúnaðarmannaráð getur hvenær sem er tekið ákvörðun um að boða til félagsfundar og bera mikilvæg mál undir hann á meðan vinnustöðvun stendur yfir. Í slíkum deilum er einnig nauðsynlegt að hinn almenni félagsmaður finni hinn félagslega styrk, fái stuðning frá félögum sínum og fái tækifæri til að tjá sig um einstök mál.

 

Sérstaklega skipuð verkfallsstjórn

Félag getur falið sérstakri nefnd eða hópi manna verkfallsstjórn. Stundum er skipuð sérstök kjaranefnd eða samninganefnd, sem getur þá hugsanlega einnig annast framkvæmd verkfalls, komi til þess. Slík verkfallsstjórn getur þó aldrei tekið ákvörðun svo gilt sé til að hefja verkfall, þar sem 15. gr. laga nr. 80/1938 veitir ekki heimild til framsals á því valdi. Umboð sérstakrar verkfallsstjórnar myndi því einungis ná til framkvæmdaatriða við verkfallið sjálft, svo sem skipulags verkfallsvörslu, veitingar á undanþágum og þess háttar atriða.

Tilvist sérstakrar verkfallsstjórnar getur bæði byggst á félagslögum og einnig á ákvörðun félagsfundar eða trúnaðarmannaráðsfundar. Félag getur tekið ákvörðun um það í eitt skipti að fela sérstakri verkfallsstjórn framkvæmd verkfalls, en í næsta skipti falið trúnaðarmannaráði þetta hlutverk.

Verkfallsbrot og verkfallsvarsla

18. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 kveður á um að þegar vinnustöðvun hefur verið löglega hafin, sé þeim, sem hún að einhverju leyti beinist gegn, óheimilt að stuðla að því að afstýra henni með aðstoð einstakra meðlima þeirra félaga eða sambanda sem að vinnustöðvuninni standa. Geri þeir það er um verkfallsbrot að ræða.

Til að fylgjast með því að verkfallsbrot séu ekki framin og verkfall sé virt á vinnustöðum halda stéttarfélög uppi verkfallsvörslu. Fara verkfallsverðir á milli staða og gæta þess að ekki sé verið að brjóta verkfall, að ekki sé verið að ganga í störf verkfallsmanna og þeir sem kunna að vera við störf hafi til þess heimild. Jafnframt gæta önnur stéttarfélög þess að félagsmenn þeirra séu ekki látnir ganga í störf þeirra sem eru í verkfalli. Eins og um annað tengt verkföllum geta deilur sprottið um framkvæmd þessa sbr. t.d. Félagsdóm 6/2000 (XI:589) þar sem Eining-Iðja í Eyjafirði hafði bannað félagsmönnum sínum að landa afla úr tilteknum skipum og vinna hann þar sem launafólk sem að jafnaði sinnti þessum störfum í öðrum byggðalögum væri í lögmætu verkfalli og því væri um brot gegn 18.gr. laga 80/1938 að ræða ef störfin væru unnin. Samtök atvinnulífsins höfðuðu mál gegn félaginu og kröfðust þess að fyrirmælin yrðu dæmd sem brot gegn friðarskyldu félagsins skv. gildandi kjarasamningi þess. Á það var fallist þar sem Einingu-Iðju tókst ekki að sýna fram á að grundvöllur hins umdeilda banns væri nógu traustur. Dómurinn verður ekki skilinn öðruvísi en þannig að bann félagsins sem slíkt gæti hafa staðist ef færðar hefðu verið nægilegar sönnur á að skipunum hefði verið beint inn á félagssvæði félagsins beinlínis til þess að vinna gegn löglega boðuðu verkfalli á öðru félagssvæði.

Vissar venjur hafa skapast um verkfallsvörslu og framkvæmd verkfalls. Félög, og þá viðkomandi verkfallsstjórnir, hafa tekið á beiðnum um undanþágur eftir því sem þær hafa borist, og afgreitt þær.

Við verkfallsvörslu ber að gæta þess að fara að settum reglum. Verkfallsvörðum er heimilt að vinna að því að fylgja eftir ofangreindri 18. grein, en þeir mega ekki taka í sínar eigin hendur réttarvörslu. Réttarvarsla eða réttargæsla er ávallt í höndum löggæslunnar, og einungis í undantekningartilvikum geta almennir borgarar tekið réttarvörslu í sínar hendur.

Í grein Gunnars Sæmundssonar sem ber yfirskriftina "Verkfallsheimildir og réttur til að halda uppi verkfallsvörslu með tilliti til 18. gr. laga nr. 80/1938" og birtist í 4. tölublaði Úlfljóts árið 1978 setur hann fram sjónarmið um það hvað séu mörk lögmætrar og ólögmætrar verkfallsvörslu. Hann segir þar að það liggi í augum uppi að verkfallsvörðum sé eins og öðrum þjóðfélagsþegnum heimilt að freista þess að koma í veg fyrir verkfallsbrot með ábendingum, fortölum og hótunum um kæru til dómstóla, áður en brot er hafið og eftir að það er byrjað. Ennfremur segir hann að þar sem verkfallsvarsla sé skilin undan valdsviði lögreglunnar sé ljóst að þessi angi af réttarvörslu sé heimill jafnt verkfallsvörðum sem öðrum, svo framarlega sem valdi þurfi ekki að beita. Það leiði af eðli verkfalla að í þeim verði jafnan miklir hagsmunaárekstrar. Það hve miklir hagsmunir séu oft í veði valdi því að jafnvel löghlýðnir borgarar freistist til að fremja verkfallsbrot. Sú mikla spenna sem skapist í kjaradeilum og stafi meðal annars af því áliti hvors aðila um sig að hinn sýni ótrúlega óbilgirni auki á þessa freistingu. Þetta valdi því að í löngu verkfalli sé nærri óhugsandi annað en að verkfallsbrot séu reynd, og sé ásetningur þess sem brotið reyni þá venjulega sterkari en svo að hann láti skipast við fortölur. Komi þá að því að einungis valdbeiting geti komið í veg fyrir brot. Hann bendir á ákvæði almennra hegningarlaga um neyðarvörn, að það verk sé refsilaust, sem menn vinna af neyðarvörn að því leyti sem það hefur verið nauðsynlegt til að verjast eða afstýra ólögmætri árás sem byrjuð er eða vofir yfir og segir verkfallsbrot vera ólögmæta árás á lögverndaða hagsmuni verkfallsmanna og verði því mætt með neyðarvörn. Valdbeiting verkfallsvarða gegn verkfallsbroti sé því lögmæt, enda sé hún innan marka leyfilegrar neyðarvarnar. Niðurstaða hans er því sú að íslenskur réttur heimili stéttarfélögum að halda uppi réttarvörslu á þessu tiltekna sviði, en hér eins og annars staðar eigi dómstólar úrlausn þess, hvort þeir sem réttarvörsluna annist hafi farið offari í starfi.

Ýmsir dómar um verkfallsbrot

Í Félagsdómi 11/1997 (XI:195) var tekist á um hvort það væri brot gegn 18. gr. að fá annan aðila til þess að framkvæma verk sem falla skyldi niður vegna verkfalls starfsmanna hjá þeim sem upphaflega tók það að sér sbr. og Félagsdóm 6/2000(XI:589). 

Í Félagsdómi 15/2001 var fjallað um margþætt verkfallsbrot sem m.a. lutu að málamyndagerningum við leigu fiskiskips, ráðningu manna í stað verkfallsmanna o.fl. Brotin voru dæmd alvarleg og sektarákvæðum laga 80/1938 beitt.


Verkfallsvarsla ólögmæt, skaðabætur dæmdar

Oft verða miklar deilur og jafnvel stimpingar við verkfallsvörslu, þar sem greint er á um það hvort verið sé að brjóta verkfallið eða ekki. Oftast nær hafa aðilar gert um það samkomulag þegar kjarasamningar hafa náðst, stundum með sérstakri bókun, að ágreiningsmál vegna framkvæmdar verkfalls skuli niður falla. Takist það ekki er stundum leitað með þau til dómstóla og skaðabóta krafist sbr. t.d. Hrd. nr. 215/2000 þar sýknað var af kröfu um skaðabætur. Nokkrir dómar hafa þó fallið vegna framkvæmdar verkfallsvörslu þar sem dæmt hefur verið að verkfallsverðir hafi farið út fyrir þann ramma sem þeim er heimilaður. Aðilar sem telja sig verða fyrir tjóni af ólögmætri verkfallsvörslu höfða þessi mál.

Í Hrd. 1991:443 var Félag verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri dæmt skaðabótaskylt vegna atviks sem átti sér stað við verkfallsvörslu á Akureyrarflugvelli. Þar höfðu verkfallsverðir hindrað farþega í því að fara um borð í flugvél, en umdæmisstjóri hefði mátt ganga í störf undirmanna sinna við afgreiðslustörf. Hefðu aðgerðir verkfallsvarðanna því ekki verið þáttur í að koma í veg fyrir verkfallsbrot, samanber 18. gr. laga nr. 80/1938, heldur hefðu einungis beinst að því að hefta för farþegans og því verið ólögmætar. Hæstiréttur staðfesti dóminn og dæmdi farþeganum auk bóta vegna fjárhagslegs tjóns einnig miskabætur vegna þess harðræðis sem hann mátti þola við hina ólögmætu verkfallsvörslu.

Í Hrd. 1994:367 var Verslunarmannafélag Suðurnesja dæmt skaðabótaskylt vegna farþega, sem ekki komst í flug vegna verkfallsvörslu. Snerist deilan í raun um það hvort forstjóra Flugleiða hafi verið heimilt að annast farþegaafgreiðslu í brottfararsal í Leifsstöð og ganga þannig í störf þeirra sem voru í verkfalli. Verkfallsverðir héldu uppi verkfallsvörslu í brottfararsal og meinuðu farþegum að komast að afgreiðsluborði, þar sem forstjórinn stóð. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að það hafi ekki brotið í bága við ákvæði laga nr. 80/1938 að forstjóri Flugleiða innti af hendi framangreind störf í stað undirmanna sinna í verkfallinu. Einnig yrði að telja nægilega í ljós leitt að verkfallsverðir myndu hafa hindrað brottför farþegans með valdi, hefði hann látið á það reyna. Dómurinn taldi aðgerðir verkfallsvarða ólögmætar og bar félagið því fébótaábyrgð á tjóni hans.

Í Hrd. 1986:1206 var Bandalag starfsmanna ríkis og bæja dæmt skaðabótaskylt vegna verkfallsvörslu sem beindist að því að hindra rektor Háskóla Íslands í að opna húsnæði skólans í verkfalli húsvarðar. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að engar réttarreglur stæðu í vegi fyrir því að rektor, sem æðsta yfirmanns stjórnsýslu skólans væri heimilt að opna hús háskólans, svo að fullnægt yrði þar lögbundinni starfrækslu enda þótt hafið væri verkfall BSRB og voru aðgerðirnar dæmdar ólögmætar.

Lögbann á verkfallsvörslu

 

Lög um kyrrsetningu, lögbann o.fl. 

Í 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., er fjallað um skilyrði lögbanns og segir þar að lögbann megi leggja við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn einstaklings eða fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar, ef gerðarbeiðandi sannar eða gerir sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans, að gerðarþoli hafi þegar hafist handa um athöfnina eða muni gera það, og að réttindi hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum, verði hann knúinn til að bíða dóms um þau. Einnig segir að lögbann verði ekki lagt við stjórnarathöfn þess, sem fer með framkvæmdarvald ríkis eða sveitarfélags.

Lögbann verði ennfremur ekki lagt við athöfn 1. ef talið verði að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gerðarbeiðanda tryggi þá nægilega, 2. ef sýnt þyki að stórfelldur munur sé á hagsmunum gerðarþola af því að athöfn fari fram, og hagsmunum gerðarbeiðanda af að fyrirbyggja hana, enda setji gerðarþoli eftir atvikum tryggingu fyrir því tjóni, sem athöfnin kunni að baka gerðarbeiðanda.

Samkvæmt þessu verður lögbanni almennt ekki beitt á verkfallsaðgerðir, enda séu þær framkvæmdar í þeim tilgangi að koma í veg fyrir verkfallsbrot og í samræmi við dómaframkvæmd og þær venjur sem tíðkast hafa.  Ef hins vegar ljóst er að með verkfallsaðgerðum séu verkfallsverðir að seilast langt inn á svið löggæslu, eins og reyndin var í Hrd. 1964:596, þar sem aðgerðir beindust að aðila, sem ekki átti í kjaradeilu, þá sé mögulegt að beiðast lögbanns á slíkar gerðir.

Nokkrum sinnum hefur verið krafist lögbanns vegna verkfallsvörslu sem atvinnurekandi hefur talið ólögmæta. Í grein sinni í Úlfljóti 1978 telur Gunnar Sæmundsson að ekki sé hægt að beita lögbanni gegn aðgerðum verkfallsvarða þar sem ekki er hægt að fylgja lögbanni eftir með aðstoð lögreglu og rekur nokkra dóma því til staðfestingar. Undir þessi sjónarmið taka Arnmundur Backman og Gunnar Eydal og bæta við að verkfall án heimildar til verkfallsvörslu sé markleysa. Lögleg verkfallsvarsla verði því ekki stöðvuð með fógetavaldi.

Verkfall BSRB 1977

Í októbermánuði 1977 stóð yfir verkfall BSRB og stöðvuðu verkfallsverðir þá brottför rannsóknarskipsins Árna Friðrikssonar. Varð ágreiningur um réttmæti verkfallsvörslunnar og taldi Hafrannsóknarstofnun að verkfallsverðir gætu ekki stöðvað frjálsa umferð þannig að opinberir embættismenn eða aðrir gætu ekki gegnt skyldustörfum sínum. BSRB benti á að rannsóknarmenn á rannsóknarskipunum  væru í verkfalli en þeir væru aðstoðarmenn sérfræðinga þeirra sem störfuðu á skipunum. Einnig var bent á að í verkföllum væri litið svo á og vísað í vinnurétt og langa venju, að stéttarfélögin, sem að verkfalli standa hafi á hendi framkvæmd verkfalls. Þetta þýði meðal annars að stéttarfélag í verkfalli verði sjálft að gæta þess að verkfallsbrot séu ekki framin og hindra það með öllum tiltækum leiðum, þar með beitingu valds, ef ekki annað dugi. Til þess að ná þessu markmiði séu í verkföllum stofnaðar sérstakar sveitir verkfallsvarða. Vegna ákvæða 10. gr. laga nr. 56/1972 um lögreglumenn geti stéttarfélag í verkfalli ekki vænst stuðnings frá lögreglunni í þeim tilfellum þar sem stéttarfélagið telji að fremja eigi verkfallsbrot. Þannig helgist verkfallsvarsla stéttarfélagsins einnig af þessum fyrirmælum löggjafans um afskiptaleysi lögreglunnar í verkföllum. Fógeti synjaði um lögbannið með úrskurði uppkveðnum 20. október 1977 meðal annars með þeim rökum að með lögum nr. 56/1972 séu mjög takmörkuð þau afskipti sem lögreglumenn megi hafa af vinnudeilum. Lögin hljóti óhjákvæmilega að hafa mjög þrengjandi áhrif á ákvæði 30. gr. laga nr. 18/1949, þar sem lögreglumönnum er sagt skylt að veita aðstoð sína til að halda uppi lögbanni, en tilgangur þess er einmitt sá að fá ólögmætar athafnir hindraðar. Nú verði að telja að þar sem lög bjóði lögreglumönnum ákveðið athafnaleysi, þá bresti fógeta vald til að leggja fyrir lögreglumenn athafnir. Lögbanni, sem sett yrði slík skilyrði yrði ekki hægt að halda uppi og því gagnslaust. Það sé ekki einungis hægt að byggja lögbann á afleiðingum við broti á því, það verði að vera tryggt, að það verði ekki brotið. Þannig verði að skilja lögbannslögin, og sé því ekki hægt að taka kröfu gerðarbeiðanda til greina.

Kassagerð Reykjavíkur

Í Hrd. 1964:596 var fjallað um mörk verkfallsvörslu. Hafði Kassagerð Reykjavíkur fengið lögbann lagt við því að Dagsbrún hindraði móttöku og flutninga á vörum að og frá verksmiðjuhúsum, sem starfsmenn Kassagerðarinnar, sem ekki voru félagsbundnir í félögum sem áttu í verkfalli önnuðust. Höfðu Dagsbrúnarmenn þráfaldlega hindrað starfsmenn fyrirtækisins, sem voru félagsmenn í Iðju, í störfum sínum við fermingu, akstur og affermingu flutningabifreiða. Enginn Dagsbrúnarmaður hafði verið í starfi hjá Kassagerðinni. Lögbannið var staðfest í undirrétti og sagði þar meðal annars að í málinu sé það atriði eigi til úrlausnar, hvort Dagsbrún hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, heldur það hvort verkfallsverðirnir hafi haft lagaheimild til þess að hafa réttarvörslu í því efni. Eigi verði séð að 18. gr. laga nr. 80/1938 né heldur 4. gr. laga nr. 50/1940 um lögreglumenn veiti aðilum að vinnustöðvun rétt til þess að taka í sínar eigin hendur réttarvörslu. Aðgerðir verkfallsvarðanna voru því dæmdar ólögmæt réttarvarsla af þeirra hálfu. Hæstiréttur staðfesti þessa niðurstöðu með þeim rökum að hvorki lög um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 né önnur réttarákvæði hafi veitt Dagsbrún heimild til þeirrar valdbeitingar gegn Kassagerðinni sem sönnuð var í málinu. Niðurstaða málsins var því sú að réttarvarslan sjálf var dæmd ólögmæt, en ekki lagt mat á það hvort um brot á II. kafla laganna um stéttarfélög og vinnudeilur hafi verið að ræða.

Frami 1964

Krafist var lögbanns við verkfallsvörslu félagsmanna Frama, sem voru í verkfalli gegn Landleiðum hf. í janúar 1964. Verkfallsverðir félagsins hindruðu akstur skrifstofustjóra og fulltrúa fyrirtækisins, en akstur framkvæmdastjórans var látinn afskiptalaus. Synjað var um lögbann með þeim rökum að viðkomandi ökumenn væru að vísu starfsmenn Landleiða, en þeirra starfi hjá félaginu hefði ekki verið sá að aka bifreiðum þess, heldur vinna skrifstofustörf. Yrði því ekki talið samkvæmt tilgangi og anda laga um stéttarfélög og vinnudeilur að Landleiðum hafi verið rétt að grípa til þessara manna til þess að vinna störf þeirra sem ættu í verkfalli við félagið. Þannig yrði ekki talið að Frami hafi gerst brotlegur um ólögmætar aðgerðir gagnvart Landleiðum með því að hindra akstur þessara manna á áætlunarbifreiðum félagsins.

Óðal 1973

Í nóvember 1973 kröfðust eigendur Óðals lögbanns á verkfallsvörslu Félags framreiðslumanna, en þeir reyndu að hafa opið fyrir gesti og önnuðust sjálfir framreiðslu og höfðu eiginkonur sínar sér til aðstoðar. Félagsmenn Félags framreiðslumanna fjölmenntu á staðinn og hindruðu gesti í að komast inn. Fógetaréttur synjaði um lögbannið með þeim rökum að lög nr. 80/1938 kvæðu ekki á um nein úrræði til þess að löglegu verkfalli yrði haldið uppi. Hefði jafnan tíðkast að samtök þau sem væru í verkfalli hefðu sjálf séð um að halda uppi þeirri vörslu sem þau teldu nauðsynlega til þess að verkfall mætti verða virkt. Hefðu þessar aðgerðir verið ýmiskonar, þar á meðal að meina öðrum störf þau er stéttarfélagið annaðist og eftir atvikum að koma í veg fyrir aðgang að þeim stað, þar sem verkfall væri. Lögreglumönnum væri í lögum fyrirmunuð önnur afskipti af vinnudeilum en að halda þar eins og annars staðar uppi friði og afstýra skemmdum, meiðslum og vandræðum. Þetta þýddi að lögreglumenn yrðu ekki kvaddir til að hlutast til um tíðkanlegar verkfallsaðgerðir. Yrði að telja að lögbanni yrði ekki beitt gegn slíkum tíðkanlegum aðgerðum aðila að vinnudeilu og breytti þar engu þótt hinn aðilinn teldi þessar aðgerðir ólögmætar gagnvart sér eða valda tjóni.

Vinna í verkfalli

Í öllum vinnudeilum sem verða er spurt að því til hverra verkfallið nær, hverjir megi vinna í verkfallinu og hvernig sé háttað heimildum til að draga úr áhrifum verkfallsins með því að fá aðra til að vinna þau störf sem verkfallið nær til. Í verkföllum á almennum vinnumarkaði hafa skapast ákveðnar venjur um þessi atriði, venjur sem bæði styðjast við sett lög og niðurstöður dóma og eins venjur sem mótast hafa í samskiptum aðila vinnumarkaðarins.


18. gr. laga nr. 80/1938


Í 18. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938, segir að þegar vinnustöðvun hefur verið löglega hafin, sé þeim sem hún að einhverju leyti beinist gegn, óheimilt að stuðla að því að afstýra henni með aðstoð einstakra meðlima þeirra félaga og sambanda sem að vinnustöðvuninni standa.  

Í athugasemdum með lögunum segir að stundum sé reynt að hnekkja vinnustöðvun með því að fá menn, svokallaða verkfallsbrjóta, til að vinna. Venjulega hefði þetta ekki áhrif á lausn deilunnar, en fyrir hefði komið að það hefði í för með sér barsmíð og jafnvel meiðsl. Þess vegna sé í greininni bannað að reyna að afstýra vinnustöðvun með aðstoð manna, sem félagsbundnir séu í stéttarfélagi gagnaðila. Þótt athugasemdirnar nefni einungis það að bannað sé að afstýra vinnustöðvun með aðstoð félagsbundinna manna í stéttarfélagi gagnaðila nær ákvæðið einnig til manna sem eru í sama sambandi.

Skilningur manna á þessu ákvæði hefur oft verið sá að í því felist alfarið bann við því að aðrir menn hvort sem þeir eru félagsmenn félags innan sama sambands eða ekki gangi í störf verkfallsmanna. Flest þau álitamál sem komið hafa til dómsins hafa tengst félögum innan ASÍ. Þar sem samtökin eru fjölmenn og félagsaðild almenn hefur þetta ákvæði haft þau áhrif sem til var ætlast.  

Með lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980 var lögfest sú regla að kjarasamningar kveða á um lágmarkskjör ekki einungis fyrir félagsmenn þess félags sem þá gerir heldur og fyrir alla þá sem vinna þau störf sem kjarasamningur nær til. Þessi regla hefur að því er virðist breytt afstöðu Félagsdóms til þess til hverra verkföll ná. Áður var af fræðimönnum talið að bann 18. greinarinnar næði einungis til þeirra sem væru félagsmenn í stéttarfélagi eða sambandi. Breytta afstöðu Félagsdóms má sjá af Félagsdómi 4/1987 (IX:182) þar sem deilt var um það hvort hluthafar á verkfræðistofu mættu vinna í verkfalli. Hluthafarnir voru ekki félagsmenn í Stéttarfélagi Verkfræðinga, sem hafði boðað verkfallið, en nokkrir þeirra voru félagsmenn í Félagi ráðgjafarverkfræðinga, sem verkfallið beindist að. Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu að verkfallið skyldi ná til þeirra hluthafa, sem voru ekki félagsmenn í Félagi ráðgjafarverkfræðinga. Skipti því engu máli hvort þeir væru félagsmenn að stéttarfélaginu eða ekki, verkfallið var talið ná til þeirra.

Verkfall nær samkvæmt framansögðu ekki einungis til félagsmanna í því stéttarfélagi sem boðar til verkfallsins, heldur til allra þeirra sem taka kjör eftir þeim kjarasamningi sem verið er að knýja á um að gerður verði.

Tilgangur 18. gr. laga nr. 80/1938 er ekki að hindra að þeir sem standa utan við verkföll, en eru innan félags eða sambands, sem að vinnustöðvun stendur, vinni sín venjulegu störf, jafnvel þótt þeir starfi venjulega við hlið manna sem eru í verkfalli og sinni þar sömu verkefnum. Bannið nær einungis til þess að þeir gangi ekki í störf verkfallsmanna. Þetta kemur fram í Félagsdómi 1/1941 (I:130). Þar var deilt um það hvort ASÍ gæti bannað með vísan til 18. greinarinnar matsveinum, veitingaþjónum og hljóðfæraleikurum að vinna á tilteknum veitingahúsum vegna vinnustöðvunar félags starfsstúlkna í veitingahúsum. Í dóminum sagði meðal annars að enda þótt matsveinarnir eða veitingaþjónarnir hefðu að einhverju leyti farið inn á starfssvið stúlknanna, yrði ákvæði 18. greinar ekki skilin svo að það hafi heimilað ASÍ að banna þessum mönnum og hljóðfæraleikurunum að inna af hendi sína venjulegu vinnu á veitingastöðunum. Hins vegar verði að telja að ASÍ hefði samkvæmt ákvæðum greinarinnar haft rétt til að banna þeim að vinna annað en venjuleg störf sín, en hvorki orðalag greinarinnar sjálfrar eða greinargerðarinnar veiti heimild til víðtækari skýringar á henni.

Í Félagsdómi 8/1944 (II:63) var deilt um túlkun á 18. gr. laga nr. 80/1938. Iðja í Reykjavík hóf verkfall gegn Félagi íslenskra iðnrekanda. Í tiltekinni niðursuðuverksmiðju unnu á þeim tíma einungis tveir menn úr Iðju. Lögðu þeir niður störf, en að öðru leyti hélt öll vinna í verksmiðjunni áfram, því vélstjóri, framkvæmdastjóri og skrifstofustjóri fyrirtækisins bættu við sig vinnu verkfallsmannanna tveggja. Að öðru leyti var starfsfólk verksmiðjunnar allt konur úr verkakvennafélaginu Framsókn. Verkakonurnar voru ekki félagsmenn í Iðju og höfðu ekki tekið þátt í atkvæðagreiðslu um verkfallið. Var því ekki talið að verkfallsboðun Iðju hefði eins og á stóð átt að leiða til verkfalls hjá þeim konum sem unnu í verksmiðjunni er verkfallið hófst. Forráðamönnum verksmiðjunnar hefði verið vítalaust að láta konurnar halda áfram sömu störfum og þær áður unnu og ekki gerst með því brotlegir við 18. gr. laga nr. 80/1938. Sjá einnig Félagsdóma 5/1943 (II:56), 9/1944 (II:66), 11/1943 (II:115) og3/1947 (II:184).

Sigurður Líndal fjallar um í grein sinni sem ber heitið "Vinna og verkföll: hverjir mega vinna og hverjir ekki í boðuðum verkföllum sbr. 18. gr. laga nr. 80/1938?", og birtist í 4. tölublaði Úlfljóts 1978, um þann vanda sem skapast inni á vinnustöðum þegar störf manna eru ekki svo glögglega skilgreind að erfitt geti verið að skilja á milli starfssviðs manna í og þeirra sem ekki eru í verkföllum. Skiptir þá ekki máli hvernig stéttarfélagsaðild er háttað. Um þetta verða oft deilur sem þarf að skera úr. Hann telur rétt að fylgja því meginsjónarmiði að ákvarða starfssvið manna fremur þrengra en rýmra, þannig að líkur teldust fyrir því að mönnum væri rétt að færast undan störfum, ef þeir teldu sig að öðrum kosti ganga inn á starfssvið verkfallsmanna. Fyrir þessu séu meðal annars þau rök að virða beri það viðhorf launþega að verkfallsmenn vinni í reynd í þágu þeirra allra og því sé það bæði hagsmunamál og siðferðisskylda að sýna samstöðu með þeim. Undir þessi sjónarmið er hér tekið og bent á að á seinni árum, með meiri sérhæfingu, stærri fyrirtækjum og aukinni samvinnu einstakra starfsstétta á vinnustöðum, til dæmis á sjúkrahúsum, hefur verulega reynt á þessa þætti.

 

Eigendur, fjölskyldur þeirra og hluthafar

Ekki hefur verið um það ágreiningur að eiganda fyrirtækis er heimilt að vinna í verkfalli. Ekki hefur verið talið skipta máli hvort eigandi sé í stéttarfélagi eða innan stéttarfélagasambands. Réttur hans til að starfa hefur verið talinn helgast af eignarréttarlegum þáttum og heimild eiganda til að nýta eign sína beinni notkun, auk þess sem það er ágreiningslaus meginregla í íslenskum rétti að menn verði ekki þvingaðir til að aðhafast neitt, sem grefur undan mikilsverðustu hagsmunum þeirra, eins og lífsafkomu, nema mikil nauðsyn þjóðfélagsins krefjist. Jafnframt hefur, að minnsta kosti innan sumra landssambanda, verið viðurkenndur réttur maka og barna eiganda innan 16 ára aldurs að starfa í verkfalli. Hefur þetta sérstaklega átt við í verslun.

Þessar undantekningar frá 18.gr. taka hins vegar ekki almennt til þeirra sem tengdir eru eiganda fjölskylduböndum og ber að túlka þröngt. Í dómi Félagsdóms í málinu nr. 5/2017 var fjallað um heimild bróður, bróðursonar og tengdasonar eigenda útgerðar fiskiskips sem verkfall sjómannafélags tók til. Þessi tengdu aðilar voru allir í áhöfn fiskiskipsins og félagsmenn í sjómannafélaginu. Útgerðin hélt því fram að sér hefði verið heimilt að halda skipinu á sjó með þessari áhöfn og að líta ætti til skilgreiningar hugtaksins "nákomnir" m.a. í gjaldþrotalögum, lögum um ábyrgðasjóð launa  o.fl. Á það féllst Félagsdómur ekki og var því um verkfallsbrot að ræða.  

Meiri vafi leikur á um rétt hluthafa í fyrirtæki eða félagsmanna í samvinnufélagi til að starfa í verkfalli, sem jafnframt eru félagsmenn í stéttarfélagi, sem á í verkfalli. Í Félagsdómi 4/1987 (IX:182) reyndi á þessi sjónarmið. Málsatvik voru þau að Stéttarfélag verkfræðinga var í verkfalli gegn Félagi ráðgjafarverkfræðinga og komu verkfallsverðir í veg fyrir að starfsmenn Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf., sem allir voru hluthafar í stofunni kæmust til starfa. Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu að hlutafjáreign ein og sér yrði ekki talin veita hluthafanum stöðu vinnuveitanda, og var dæmt að verkfallið tæki til þeirra hluthafa sem ekki áttu aðild að Félagi ráðgjafarverkfræðinga, það er félagi atvinnurekenda í þessu sambandi.

 

Stjórnendur

Verkfall nær ekki til stjórnenda í fyrirtækjum. Þá er átt við þá sem hafa með höndum framkvæmdastjórn fyrirtækis eða framkvæmdastjórn einstakra deilda þess þegar stór fyrirtæki eiga í hlut. Sama á við um verkstjóra. Talið hefur verið að heimild stjórnenda til starfa í verkfalli næði fyrst og fremst til stjórnunarstarfa og stjórnunarsviðs viðkomandi. Honum væri ekki heimilt að ganga í störf undirmanna sinna, nema til þess eins að geta sinnt því sem telst vera hluti af eðlilegum störfum hans. Hann gæti því gengið í störf aðstoðarmanna sinna, svo sem fulltrúa, ritara og símavarða.

Nokkrir dómar hafa fallið á undanförnum árum, sem breytt hafa þessari mynd. Af þeim má draga þá ályktun að framkvæmdastjóri eða æðsti yfirmaður í fyrirtæki geti gengið í hvaða störf sem er í fyrirtækinu, án tillits til þess hvort þau störf geti talist heyra undir starfssvið hans. Í verkfalli geti því framkvæmdastjóri haldið úti starfsemi fyrirtækis með því að hlaupa í skarðið. Sá dómur sem gengur lengst er Hrd. 1994:367. Deilt var um rétt forstjóra Flugleiða hf. til að annast afgreiðslu farþega og afhendingu brottfararspjalda í flug. Einstaklingur sem hugðist fara í flug erlendis höfðaði skaðabótamál gegn stéttarfélagi sem hélt uppi verkfallsvörslu í flugstöð og kom í veg fyrir að forstjóri fyrirtækisins sem hafði tekið sér stöðu við afgreiðsluborð við innritun og afhendingu brottfararspjalda farþega gæti sinnt þeirri afgreiðslu. Taldi maðurinn að félagið hefði með ólögmætum hætti hindrað för sína. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að það bryti ekki í bága við ákvæði í lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur eða aðrar réttarreglur að forstjóri Flugleiða hf. innti af hendi framangreind störf í stað undirmanna sinna í verkfalli félagsmanna stéttarfélagsins. Voru manninum dæmdar skaðabætur af þessu tilefni.

Í Hrd. 1991:443 voru atvik svipuð og í framangreindu máli. Stéttarfélag var í verkfalli og hélt uppi verkfallsvörslu í flugafgreiðslu. Var deilt um það hvort umdæmisstjóri Flugleiða á Akureyri hefði haft heimild til að afgreiða farþega í flug, og með því móti ganga í störf undirmanna sinna sem voru í verkfalli. Undirréttur leit svo á að umdæmisstjóranum hefði verið heimilt að ganga í störf undirmanna sinna við afgreiðslustörf eins og önnur störf við afgreiðslu flugvélarinnar og atbeina starfsmanna félagsins sem var í verkfalli hafi ekki þurft til að farþegi gæti farið út í flugvél og fengið þar fyrirgreiðslu.

Í Hrd. 1986:1206  var meðal annars deilt um rétt rektors Háskólans til að opna skólahúsnæðið. Hélt BSRB því fram að hann væri með því að ganga í störf félagsmanns þess sem var í verkfalli. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að rektor hefði verið heimilt sem æðsta yfirmanni stofnunarinnar að opna húsnæðið.

Í Félagsdómi 4/1987 (IX:182) var deilt um rétt hluthafa til að vinna í verkfalli verkfræðinga. Ekki var deilt um það hvort þeir væru að ganga í störf undirmanna sinna þar með, heldur hvort þeim væri skylt að leggja niður störf í verkfallinu. Þar var dæmt að auk framkvæmdastjóra mætti aðstoðarframkvæmdastjóri, stjórnarmenn og þeir hluthafar sem voru félagsmenn í félagi atvinnurekenda halda áfram störfum sínum. Það vekur athygli í þeim dómi að Stéttarfélag verkfræðinga viðurkenndi frá upphafi rétt framkvæmdastjórans til að vinna verkfræðistörf í verkfallinu.


Verkstjórar


Verkstjórar eru almennt í sérstökum stéttarfélögum. Verkstjórar eru sérstakir trúnaðarmenn atvinnurekenda á vinnustað. Þeim er heimilt að vinna venjubundin stjórnunarstörf í verkfalli verkafólks. Þeim er skylt að gæta þess verðmætis sem þeim er falin umsjón með og verja það skemmdum. Í 15. gr. félagslaga Verkstjórafélags Reykjavíkur segir að félagsmenn séu algerlega hlutlausir í kaupdeilum, hvort sem um er að ræða verkföll eða verkbönn. Í kjarasamningum þeirra er einnig að finna ákvæði um að eigi skuli verkföll eða verkbönn ein út af fyrir sig skerða rétt verkstjóra til þess að fá kaup hjá vinnuveitanda, enda er honum eftir sem áður skylt að gæta þess verðmætis sem honum er trúað fyrir og hefur umsjón með og verja það skemmdum. Verkstjórar telja að þessi ákvæði félagslaga og kjarasamninga um réttarstöðu þeirra í verkföllum hafi engin áhrif á verkfallsrétt þeirra sjálfra. Á það hefur ekki reynt.

Réttur eigenda og stjórnenda til að vinna í verkfalli og ganga í störf undirmanna sinna í verkfalli getur að sjálfsögðu takmarkast af lögvernduðum starfsréttindum verkfallsmanna.

Afskipti lögreglu

Í 24. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 segir að lögreglu sé óheimilt að hafa önnur afskipti af vinnudeilum en að halda þar, eins og annars staðar, uppi friði og afstýra skemmdum, meiðslum og vandræðum.


Fræðimenn hafa haldið því fram að þar sem verkfallsvarsla sé skilin undan valdsviði lögreglunnar sé þessi angi réttarvörslu heimill jafnt verkfallsvörðum sem öðrum, svo framarlega sem ekki þurfi að beita valdi.

Réttarstaða manna í verkfalli

Laun og vinnuskylda


Meginskyldur ráðningarsamningsins falla niður á meðan verkfall varir en ráðningarsamband helst. Launagreiðslur falla niður og skyldur starfsmanns til að inna af hendi vinnu sömuleiðis. Starfsmaður fær ekki heldur veikindalaun, þótt hann hafi verið veikur, áður en til verkfalls kom. Skiptir ekki máli hvort veikindin stafa af sjúkdómi eða vinnuslysi. Hafi hann verið í orlofi, fellur orlofstaka hans niður þann tíma sem verkfall varir.

Þegar verkfalli lýkur rakna skyldurnar við og mönnum er skylt að koma þá strax til vinnu og atvinnurekanda er skylt að taka við starfsmönnum sínum í vinnu. Verkfall er félagsleg aðgerð, sem snertir stéttarfélagið fyrst og fremst, en raskar ekki ráðningarsambandi einstakra launamanna og atvinnurekenda þeirra.

Þessi regla er þó ekki undantekningarlaus, því í einstaka kjarasamningum finnast ákvæði þess efnis að fólki sé frjálst að hætta störfum í verkfalli og þurfi ekki að virða uppsagnarfrest. Með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 19/1979 sem tryggja launafólki m.a. lágmarksrétt hvað varðar uppsagnir er eðlilegt að túlka þetta ákvæði þannig að launamanni sé frjálst í framhaldi af verkfalli að yfirgefa starf sitt, en atvinnurekandi verði að virða ákvæði laganna um uppsagnarfrest, hyggist hann segja starfsmanni upp í framhaldi af verkfalli.

 

Ávinnsla réttinda

Almennt hefur verið litið svo á að verkföll hafi ekki áhrif á ávinnslu réttinda. Sá tími sem fólk er í verkfalli teljist til vinnutíma þegar rétturinn er reiknaður út. Er þessi skilningur að hluta til staðfestur í lögum.

 

Uppsagnarréttur
Lög um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla nr. 19/1979 fjalla eins og nafnið bendir til annars vegar um uppsagnarrétt og hins vegar um veikindarétt. Í 4. mgr. 1. gr. laganna, en greinin fjallar að öðru leyti um uppsagnarfrest, segir að verkafólk teljist hafa unnið innan atvinnugreinar eða verið ráðið hjá atvinnurekanda í eitt ár, ef það hefur unnið samtals að minnsta kosti 1550 stundir á síðustu 12 mánuðum, þar af að minnsta kosti 130 stundir síðasta mánuðinn fyrir uppsögn. Jafngildar unnum klukkustundum teljast í þessu sambandi fjarvistir vegna veikinda, slysa, orlofs, verkfalla og verkbanna, allt að 8 klukkustundum fyrir hvern fjarvistardag. Samkvæmt þessu hafa verkföll ekki áhrif á ávinnslu réttinda til uppsagnarfrests. Verkföll teljast með öðrum orðum til vinnutíma þegar lengd uppsagnarfrests er metin.

Veikindaréttur 
Um veikindarétt gildir að því er telja verður sama reglan, þannig að verkföll hafa ekki áhrif á ávinnslu veikindaréttar. Verkföll teljast til vinnutíma þegar lengd veikindaréttar er metin. Í lögin frá 1979 vantar þó beina tilvísun úr veikindaréttarákvæðunum yfir í uppsagnargreinina, þannig að ekki er augljóst að hún eigi hér við. Í eldri lögum um veikindarétt nr. 16/1958, sem voru undanfari laga nr. 19/1979 var skýrt kveðið á um að þessi regla gilti einnig um útreikning veikindaréttar, samanber Hrd. 1975:145.

Orlofsréttur 
Í orlofslögum er ekki fjallað um það sérstaklega hvaða áhrif verkfall hefur á orlofsrétt. Í þriðju grein laganna er einungis fjallað um veikindi, slys og orlof, og tekið fram að fjarvistir þess vegna hafi almennt ekki áhrif á orlofsréttinn. Líta verður svo á að verkföll hafi ekki áhrif á rétt starfsmanna til orlofstöku. Hins vegar hafi verkfall áhrif á greiðslu orlofslauna. Starfsmaður, sem verið hefur í tveggja mánaða verkfalli á orlofsárinu eigi þannig rétt til 24 daga orlofs, en hann fái einungis greidd orlofslaun fyrir 20 daga. Byggist það sjónarmið að verkföll skerði ekki lengd orlofs á þeirri meginreglu að launafólk skuli alltaf eiga lágmarksrétt til orlofs samkvæmt orlofslögum. Skipti þá ekki máli þótt fólk hafi tekið þátt í verkfallsaðgerðum á vegum verkalýðsfélagsins á orlofsárinu. Greiðsla launa í orlofi er síðan í raun ákveðið hlutfall af launum innunnum á orlofsárinu. Sé hluti ársins launalaus skerðist orlofsgreiðslan sem því nemur.

Í lok sjö vikna verkfalls opinberra starfsmanna 1989 var sérstaklega samið um það að verkfallið skyldi ekki skerða greiðslur verkfallsmanna í orlofi. Það að um þetta var samið bendir til að skilningur aðila hafi verið sá að orlofsgreiðslur myndu að öðrum kosti falla niður.

Um orlof og verkföll sjá nánar hér.

Starfsaldursákvæði

Þegar starfsaldur er metinn er almennt miðað við það hvenær starfsmaður hóf störf. Ekki hefur verið úr því skorið hvaða áhrif verkföll hafi á starfsaldursákvæði, en almennt má telja að áhrif verkfalla séu þar engin. Verkföll vara yfirleitt í stuttan tíma, daga, vikur og í mesta lagi mánuði, en starfsaldursákvæði miðast við lengri tímabil, yfirleitt talin í árum.

Vinna annars staðar í verkfalli

Þann tíma sem maður er í verkfalli leggur hann niður störf til að leggja áherslu á kröfur stéttarfélags í verkfalli. Samkvæmt 18. gr. laga nr. 80/1938 er þeim sem lögleg vinnustöðvun beinist gegn óheimilt að stuðla að því að afstýra henni með aðstoð einstakra meðlima þeirra félaga eða sambanda, sem að vinnustöðvuninni standa. Þeim starfsmanni sem er í verkfalli er því óheimilt að vinna sín störf, svo og störf annarra sem eiga í verkfalli. Þetta þýðir væntanlega að maður í verkfalli getur ekki á meðan á því stendur unnið störf sem kjarasamningur hans nær til.

En hvað með önnur störf? Getur kennari, sem er í verkfalli, unnið í fiski á meðan á kennaraverkfalli stendur? Getur verkamaður sem er í verkfalli unnið í verslun á meðan á verkfalli stendur?

Í samþykktum Samtaka atvinnulífsins (SA) segir í 47. gr. að enginn félagsmaður megi ráða til sín launþega sem eru í verkbanni eða verkfalli hjá öðrum félagsmönnum.

Framkvæmdastjórnin getur ákveðið að sama skuli gilda um verkbann eða verkfall erlendis. Þegar verkfall eða verkbann verður hjá félaga innan SA skal hlutaðeigandi, ef hann telur ástæðu til eða framkvæmdastjóri óskar, senda skrifstofu samtakanna skrá yfir launþega þá sem hlut eiga að máli. Er þá heimilt að kynna það þeim félögum sem ástæða þykir til hverjir þátttakendur séu í verkfallinu.

Hömlur á því að menn fari að vinna annars staðar er fyrst og fremst að finna í samþykkum SA. Leiti menn hins vegar út fyrir samtökin um vinnu verður að telja svo framarlega sem menn eru ekki að ganga inn í störf verkfallsmanna, sé ekkert sem komi í veg fyrir að þeir sem eru í verkfalli vinni annars staðar að því tilskyldu að unnið sé skv. öðrum kjarasamningi en þeim sem vinnudeila stendur um. Þetta þarf þó að skoða í hvert skipti og reglur einstakra félaga til dæmis um greiðslur úr verkfallssjóðum kunna að geyma einhver ákvæði í þessa veru.

Ábyrgð vegna verkfalls

Þeir sem efna til verkfalls bera á því ábyrgð. Sé verkfall, sem stéttarfélag boðar löglegt, löglega til þess boðað og framkvæmd þess í samræmi við lög kemur aldrei til þess að reyni á ábyrgð félagsins. Ábyrgðin verður fyrst virk þegar reglur eru brotnar.


Samkvæmt 8. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 bera stéttarfélög ábyrgð á samningsrofum sínum og löglega skipaðra trúnaðarmanna. Einnig bera stéttarfélögin ábyrgð á samningsrofum einstakra félagsmanna sé hægt að gefa félaginu sök á samningsrofinu. Ábyrgð einstaklinga getur einnig verið til staðar samkvæmt almennum reglum.

 

Ábyrgð stéttarfélags

Í 8. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur segir að stéttarfélög beri ábyrgð á samningsrofum þeim, sem félagið sjálft eða löglega skipaðir trúnaðarmenn þess gerast sekir um í trúnaðarstörfum sínum fyrir félagið. Þó sé ekki heimilt að gera aðför í fundarhúsum, sjúkrastyrktarsjóðum né slysa- og menningarsjóðum félaganna vegna þessarar ábyrgðar, enda séu eignir sjóðanna skýrt aðgreindar frá eignum félagsins og óheimilt að verja þeim til almennra þarfa þess. Þannig er reynt að undanskilja tilteknar eignir félagsins frá ábyrgð á ólögmætum aðgerðum.

Í allmörgum dómum Félagsdóms hafa félög verið gerð ábyrg fyrir ólögmætum verkfallsaðgerðum. Í Hrd. 1994:367 vegna skaðabótamáls er farþegi var hindraður í að fara úr landi, hélt stéttarfélag sem átti í verkfalli því fram að verkfallsvarsla í farþegasal, sem deilt var um hvort hefði verið lögmæt eða ekki, hefði ekki verið á vegum félagsins. Þeir sem héldu uppi verkfallsvörslunni voru bæði félagsmenn þess félags og einnig voru félagsmenn annars félags við verkfallsvörsluna. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að félagið hefði ekki fært sönnur að þeirri málsástæðu að verkfallsverðir umrætt sinn hefðu ekki verið á vegum félagsins, og því var stéttarfélagið dæmt ábyrgt fyrir ólögmætri verkfallsvörslu umrætt sinn.

Af þessum dómi má ráða að löglíkur séu fyrir því að verkfallsaðgerðir, sem framkvæmdar eru í verkfalli séu á vegum þess stéttarfélags sem á í verkfallinu og þannig á ábyrgð þess.

Ábyrgð einstaklinga

Einstaklingar, sem gerast brotlegir, bera ábyrgð á gerðum sínum eftir almennum skaðabótareglum. Hafi þeir með ólögmætum og saknæmum hætti valdið öðrum tjóni bera þeir ábyrgð á gerðum sínum. Ekki skiptir máli hvort stéttarfélagið er dæmt ábyrgt jafnframt eða hvort einstaklingarnir hafa farið út fyrir löglegar heimildir sínar án atbeina stéttarfélagsins. Algengara er þó að viðkomandi stéttarfélagi sé einungis stefnt, en ekki jafnframt einstökum félagsmönnum eða stjórnarmönnum persónulega. Þó eru dæmi þess.

Í Hrd. 1964:596 hafði Kassagerð Reykjavíkur stefnt allri stjórn Dagsbrúnar persónulega svo og félaginu sjálfu til að þola lögbann á verkfallsaðgerðir. Var lögbannið sett á og það staðfest í undirrétti. Voru einstakir stjórnarmenn þar dæmdir persónulega til að þola lögbannsaðgerðina. Var niðurstaðan staðfest í Hæstarétti.

Sjá ennfremur kaflann "Verkfallsbrot og verkfallsvarsla".

Samúðarverkföll

Samúðarverkfall telst vinnustöðvun eins aðila sem gerð er til stuðnings kröfum annars, sem á í verkfalli.  Í 3. tl. 17. gr. laga nr. 80/1938 segir að óheimilt sé að hefja vinnustöðvun til styrktar félagi, sem hafið hefur ólögmæta vinnustöðvun. Með gagnályktun frá þessari grein fæst sá skilningur að heimilt sé að hefja vinnustöðvun til styrktar félagi sem hafið hefur lögmæta vinnustöðvun. Samúðarverkföll eru almennt viðurkennd í dag með vísan til þessa lagaákvæðis og einnig vegna framkvæmdar í þessum málum áður en lög nr. 80/1938 voru sett.  Félagsdómur hefur staðfest þennan rétt.  Sjá Félagsdóma 1/1941 (I:130),2/1945 (II:159) og 6/1975 (VII:192).


Samúðarverkföll eru að því leyti ólík öðrum verkföllum að þau miða að því að stuðla að framgangi krafna annars aðila en þess sem stendur að samúðarverkfallinu. Þeir sem fara í samúðarverkfall vonast því ekki til þess að koma fram sínum eigin kröfum heldur kröfum annarra. Sé tilgangurinn sá að knýja fram breytingar á eigin samningum er ekki um samúðarvinnustöðvun að ræða og kann slík aðgerð þar af leiðandi að vera ólögmæt. Hér er því um hreina stuðningsaðgerð að ræða.

Friðarskyldan kemur samkvæmt þessu ekki í veg fyrir samúðarverkföll. Þetta helgast fyrst og fremst af tilgangi þeirra. Þess verður þó að geta að það er ekki heiti vinnustöðvunar sem gerir hana að samúðarverkfalli heldur tilgangur hennar og markmið.

Greiða skal atkvæði með sama hætti um boðun samúðarverkfalls eins og annarra  verkfalla, boða skal þau með sömu frestum og til sömu aðila og önnur verkföll.

Ef marka má niðurstöðu Félagsdóms í málinu nr. 10/1985 (IX:115), er íslenskum stéttarfélögum heimilt að boða til samúðarverkfalls til stuðnings lögmætu verkfalli erlendis. Í þessu máli hafði Dagsbrún boðað innflutnings- og afgreiðslubann á Suður-Afrískar vörur í Reykjavíkurhöfn til stuðnings mannréttindabaráttu blökkumanna. Eimskipafélag Íslands taldi að um brot á friðarskyldu væri að ræða og ólögmæta pólitíska aðgerð. Í niðurstöðu Félagsdóms segir:

„Verður ekki talið, að bannið eigi sér heimild í 3. tölulið 17. gr. laga nr. 80/1938, þar sem eigi hefur verið sýnt fram á, að það sé til stuðnings ákveðnu verkfalli, enda ekki vísað til þess, er það var boðað.“

Þessi niðurstaða Félagsdóms verður ekki skilinn á annan veg en þann, að lögmætt sé að boða til samúðarverkfalls hér á landi til stuðnings lögmætri verkfallsaðgerð erlendis.

Verkfallsréttur og samþykktir ILO

Langt fram eftir 20 öld var ekki verulegur ágreiningur inn Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um verkfallsrétt sem eðlilegan og óaðskiljanlegan hluta kjarasamningsréttarins. Hér undir eru samþykktir ILO nr. 87 og 98. Eftir fall Berlínarmúrsins og í kjölfar aukinnar alþjóðavæðingar og frelsis í viðskiptum hófu alþjóðleg samtök atvinnurekenda baráttu gegn því að verkfallsrétturinn væri verndaður af samþykktum ILO og drógu samhliða í efa áratuga venjuhelgaða túlkun Sérfræðinganefndar ILO (CE - Committee of Experts) og Félagafrelsisnefndar ILO (CFA-Committee of Freedom of Association). Byggt er á þeirri kenningu að verkfallsrétturinn sé einungis varinn af landsrétti. Þessum skoðunum hefur alþjóðasamfélagið og fræðasamfélagið hafnað. Vegna þessa andófs atvinnurekenda hafa verið tekin saman yfirlit um túlkun ILO. Þau yfirlit er að finna hér.

The right to strike and the ILO. Legal foundations. ITUC 03.2014

The right to strike and the modalities and practices of strike action at national level. ILO 02.2015.